07.06.1985
Neðri deild: 89. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6075 í B-deild Alþingistíðinda. (5531)

Umræður utan dagskrár

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. 1. landsk. þm. fyrir að hefja þessa umr. og hinum fjölmörgu karlkynsþingmönnum sem hafa séð sér fært að hlýða á hana og ráðh. fyrir svörin þótt ég væri nú ekki ánægðari með þau en hv. síðasti ræðumaður.

Árum saman hafa konur barist fyrir því að öll börn eigi kost á því öryggi og uppeldi sem góð dagvistarheimili geta veitt. Stjórnvöld hafa brugðist herfilega í þeim málum og nú er svo komið að ekki er hægt að manna þessi of fáu dagvistarheimili sem þó eru til. Mér virtist hæstv. menntmrh. vilja leggja áherslu á að fóstruskorturinn stafaði af því að það væru einfaldlega ekki nægilega margar menntaðar fóstrur til í landinu. Það er ekki rétt að mínum dómi, fóstrur fást ekki til starfa vegna óviðunandi kjara og vinnuálags og þessi sífellda hreyfing, sem er á starfsfólki, kemur niður á börnunum. Í þessu efni þýðir ekki að segja að mæðurnar eigi einfaldlega að gæta barna sinna sjálfar og ala þau upp — látum liggja á milli hluta að þessu sinni að sjaldnast eru feður nefndir í því sambandi. Hvað sem mönnum finnst um það atriði er staðreyndin sú að fæstar hafa nokkurt val.

Ég hafði ætlað mér að fara meira út í þau mál, en hv. síðasti ræðumaður gerði það með ágætum svo að vegna tímaskortsins mun ég stytta mál mitt mjög. Ég get þó ekki stillt mig um að vitna hérna aðeins í Morgunblaðið frá því í gær. Þar birtist athyglisverð ritsmíð á bls. 6 sem hét „Nefndakakan“. Ég ætla að lesa aðeins úr henni — og mér þykir vænt um að hæstv. iðnrh. er hér viðstaddur. Tímans vegna sleppi ég fyrriparti þessarar greinar en les hér lokaorðin undir yfirskriftinni „Hið þjóðhagslega mikilvægi“, með leyfi forseta:

„Sverrir Hermannsson iðnrh. gaf í skyn í fyrrgreindu spjalli“ — þetta er umsögn um sjónvarpsþátt, Þingsjá, á þriðjudaginn var — „að 8 þús. kr. dagvinnulaun fyrir setur í álviðræðunefnd væru smáaur miðað við „þjóðhagslegt“ mikilvægi starfans. Hér er sum sé ákveðið gildismat lagt til grundvallar greiðslunni til nm. Skoðum þetta mál frá öðrum sjónarhól. Fáir neita því að börn þessa lands séu þjóðhagslega mikilvæg og ráðamenn tala fjálglega um að dýrmætasti auður vor sé fólginn í menntun hinnar uppvaxandi kynslóðar. Samt tók það fyrrgreinda nm. innan við tvær og hálfa dagstund að vinna fyrir mánaðarkaupi umsjónarfóstru á fimmtíu barna leikskóla, fóstru er hefur 18 ára starfsferil að baki.

Hér ber þess auðvitað að geta að einn nm. stýrði þjóðbanká samhliða nefndarstörfum og annar sat á hinu háa Alþingi og hinn þriðji rak verkfræðistofu. Framsæknustu þjóðir heims, Vestur-Þjóðverjar, Japanir og Bandaríkjamenn, leggja nú á það þunga áherslu að vísir að skipulegu námsstarfi hefjist þegar í leikskóla, annars eigi hin uppvaxandi kynslóð litla möguleika á að taka við forustuhlutverkinu í sífelli flóknari hátækniheimi. Hér er þveröfugt staðið að málum, þeir sem leggja grunninn að menntun uppvaxandi kynslóða hljóta smánarlaun á sama tíma og „Kremlarherrum“ er umbunað með æ feitari bitum af nefndakökunni. En auðvitað er þetta allt saman spurning um „þjóðhagslegt mikilvægi“, ekki satt.“

Undir þetta ritar Ólafur M. Jóhannesson. Ég hvet menn til að kynna sér ekkert síður fyrri hluta þessarar greinar.

Herra forseti. Þeim sem þetta ritar ofbýður ríkjandi verðmætamat í þessu þjóðfélagi. Og í raun og veru er það þetta verðmætamat sem er kjarninn í þessari umr. sem fer hér fram. Okkur er ofboðið. Hæstv. menntmrh. og aðrir ráðamenn hljóta að della með okkur þungum áhyggjum af þróun þessara mála og þau geta ekki skotið sér undan ábyrgð því að eins og allir vita rekur ríkið dagvistarheimili og getur markað stefnuna að nokkru leyti.