07.06.1985
Neðri deild: 89. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6079 í B-deild Alþingistíðinda. (5533)

Umræður utan dagskrár

Steingrímur J. Sigfússon:

Virðulegur forseti er mér væntanlega sammála um það að það sé ekki óeðlilegt að örfá orð heyrist frá karlþjóðinni hér á hinu háa Alþingi um þetta mál því það er nú svo að fyrir utan þessa einu meyfæðingu sem skjalfest er og skráð í sögunni, þá er þetta ekki síður mál okkar karla en kvenna, uppeldi barna. Mér finnst við hæfi að það leggi a. m. k. einn af því kyni leið sína í þennan virðulega ræðustól þegar þessi mál eru hér rædd.

Þetta mál er í sjálfu sér nauðaeinfalt eins og það kemur mér fyrir sjónir og það þarf ekki að flækja það með miklum málalengingum. Það er sú láglaunastefna sem þessi ríkisstj. rekur sem er höfuðmeinsemdin. Og það er ekki bara í þeirri grein sem sérstaklega hefur verið hér til umræðu sem þetta vandamál sýnir sig, þetta er að verða eitt allsherjarvandamál í öllum opinberum rekstri og reyndar víðar í þjóðfélaginu, sú láglaunastefna sem þessi ríkisstj. beitir sér fyrir og er kjarninn í hennar stjórnarstefnu. Það er, eins og hér var réttilega rakið áðan, við svipuð vandamál að glíma á fjölmörgum sviðum. Þannig er fólksflótti úr störfum hjúkrunarfræðinga, úr störfum kennara, fóstra og úr fiskvinnslunni og víðar þar sem hin lágu laun eru greidd.

Sé það svo að hæstv. menntmrh. treysti sér ekki til þess að svara fyrir þetta vandamál og vísi því frá sér, þá er það þetta engin frammistaða af hæstv. ríkisstj. að tilnefna þá ekki þann hæstv. ráðh. sem ber að svara fyrir þennan hlutann í stefnumörkun og störfum hæstv. ríkisstj., sem sagt hæstv. fjmrh. Og hvar er hann, herra forseti? Því situr hann ekki við hlið hæstv. menntmrh.? Ég segi nú ekki að hann þurfi að halda í hendina á henni, en hann getur allavega hjálpað henni við að svara fyrir þann hluta þessara mála sem menntmrh. bersýnilega treystir sér ekki til að verja hér.

Það er viljaleysi og skilningsleysi stjórnvalda sem birtist í þessu máli og framgöngu þeirra og reyndar ekkert síður ýmissa bæjarfélaga. Þannig má nefna Reykjavíkurborg og það má spyrja að því hér hvort hæstv. menntmrh. þyki ekki ástæða til þess að gera sérstaka úttekt á stöðu þessara mála hjá Reykjavíkurborg, m. a. í ljósi síðustu atburða þar, fara bara í alveg sérstaka rannsókn hjá Davíð og kanna það hvernig þessum málum er þar háttað því að þau eru að komast í öngþveiti, það vita allir og bera allir vitni um sem til þessara mála þekkja.

Hér er á ferðinni þróun sem á sér langan aðdraganda og orsakast af þjóðfélagsbreytingum sem eiga ekki að koma neinum manni á óvart. Menn eiga ekki að þurfa að standa hér og gata á því að þjóðfélagshættir hafa verið að breytast á Íslandi á undanförnum áratugum og gamla ættbálkakerfið, ef svo má að orði komast, heyrir til liðinni tíð og kjarnafjölskyldan er meira og minna ein á báti og ein um að leysa sín vandamál. Það er ekki lengur fyrir hendi það fyrirkomulag sem áður viðgekkst að 20–30 manna hópur búi saman og leysi sín vandamál að nánast hver vinnandi hönd í fjölskyldunni, foreldrar og eldri systkini eða hverjir sem það eru, þarf að fara út á vinnumarkaðinn til að draga björg í bú og afla launa til að fjölskyldan geti lifað og veitir ekki af. Þetta fólk á því ekkert val. Það er ósköp einfalt. Það er ekki boðið upp á neitt val fyrir fullvinnandi foreldra sem verða að leggja nánast nótt við dag til að geta lifað og framfleytt sinni fjölskyldu.

Það er hugsanlegt að til séu einhverjar undantekningar á þessu, einhverjir foreldrar sem hafa þá sérstöku aðstöðu að geta unnið fyrir stóriðjunefnd eða einhverja slíka dag og dag á árinu fyrir ráðherralaun. En við erum ekki að tala um það fólk hér. Það eru undantekningar, hitt er almenna reglan. Út frá þeim sjónarhóli verðum við að leita lausnar á þessum málum.

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að nánast engin störf í þjóðfélaginu séu mikilvægari en uppeldi og umönnun barna. Meðan þessar þjóðfélagsaðstæður eru á Íslandi — hvað sem menn vilja annars um þær segja, en ekki gefst tími til að fara út í miklar umr. um það hér — verða menn að haga sínum gerðum og sinni stefnumörkun í samræmi við það. Annað er óraunsæi. Stjórnvöld á hverjum tíma verða að sýna skilning á því við hvaða aðstæður almennir þegnar í þjóðfélaginu búa. Ef þau hafa ekki þann skilning til að bera eiga þau ekki að vera að rembast við að stjórna þjóðinni heldur að finna sér eitthvað annað að gera.

Það var sagt í mínu ungdæmi, herra forseti, ef börn og unglingar voru eitthvað sljó til augnanna og eitthvað slöpp og þóttu ekki alveg skila sínu, að þau þyrftu að taka lýsi, það þyrfti að gefa þeim inn lýsi. Mér er ekki grunlaust um að þetta sé stundum sagt enn þá við börn. En ég vil beina því til hæstv. ríkisstj. og alveg sérstaklega til hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh. að þau taki nú inn lýsi.