07.06.1985
Neðri deild: 89. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6080 í B-deild Alþingistíðinda. (5534)

Umræður utan dagskrár

Kristín S. Kvaran:

Virðulegi forseti. Ég var aðili að samkomulagi um að þessi umr. mundi ekki standa lengur en klukkutíma og mun þess vegna stytta mál mitt mjög. Ég verð að segja að ég hef varla geð í mér til þess að þakka hæstv. ráðh. þessi svör sem gefin voru hér. Ég verð að segja að mér finnst þau ekki bara hneyksli, mér finnst þau hneisa. Það er ekki nóg að áætlanir liggi fyrir ef engir verða til þess að starfa skv. þeim áætlunum.

Þetta var ég að segja hér áðan og það koma engin viðbrögð við því. Það er ekki nóg að leggja fram áætlanir sem á að vinna eftir á dagvistarheimilunum ef þar verða engir lengur til að vinna eftir þeim.

Það var margítrekað hér af ráðh. að þetta væri fyrst og fremst kjaramát. Ég vil segja að þetta er fyrst og fremst hagsmunamál, ekki bara fóstra og barna heldur foreldra og þjóðfélagsins í heild, það verður að undirstrikast hér. Það er ekki nóg að efla menntunina, eins og ráðh. var margítrekað að undirstrika. Þeir sem takast það á hendur að afla sér þessarar menntunar verða fyrst og fremst að geta lifað af henni. Þetta margítrekaði ég hér áðan og það voru engin viðbrögð.

Þegar ég talaði um að neyðarástand ríkti á dagvistarheimilunum var ég ekki að tala um það eins og því var snúið upp, að það væri endilega verið að loka heimilunum núna og að þess vegna væri neyðarástand. Ég var að tala um að það væri neyðarástand þegar börnin þyrftu að hafa allt að tíu til tólf uppalendur á ári. Það er neyðarástand. Þegar svo ör skipti eru á starfsfólki verðum við að taka til hendinni og snúa þróuninni við.

En það kom að vísu fram hér einn hluti af stefnu sem hægt er að kalla stefnu menntmrh. Hún lagði það nánast fram hér að þar sem það fólk sem væri heima hjá sér fengi ekki nein laun eða engar niðurgreiðslur fyrir að hafa börnin sín þar gæti maður í raun tekið þau orð hennar þannig að hægt væri að gefa út þá stefnu að það mætti fara að greiða því fólki laun sem hefur börnin sín heima, e. t. v. í formi hækkaðra barnabóta.

Ég var að lýsa eftir því, svo ég ljúki máli mínu. hvort ráðh. hefði tillögur í þá átt að standa við þá stefnu sem fram kemur í lögunum. Það hafa engin svör komið, hún hefur margítrekað verið spurð, en ég vonast til þess að það heyrist í henni þótt síðar verði.