07.06.1985
Neðri deild: 89. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6083 í B-deild Alþingistíðinda. (5538)

479. mál, ferðamál

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr. þó að vissulega hefði margt um þetta mál mátt segja, því að ýmislegt kom fram sem kannske hefði verið ástæða til að ræða í sambandi við þetta. Nú, en eins og fram kom hjá hv. frsm. samgn., þá hefur þetta mál verið fært í betri búning heldur en það var í upphafi. Hefði mátt gera það enn betur ef tími hefði unnist til.

Eins og fram hefur komið einnig skrifaði ég undir nál. með fyrirvara. Fyrirvari minn byggist á því að ég flyt hér brtt. á þskj. 1162 við 27 gr. frv. Þar segir með leyfi forseta:

„Ferðamálasjóði er heimilt, að fengnu samþykki ríkisstj., að taka allt að 60 millj. kr. lán eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt, ef árlegt ráðstöfunarfé sjóðsins nægir ekki til að hann geti á viðunandi hátt gegnt hlutverki sínu.“

Það ætti ekki að koma neinum hv. þdm. á óvart að Alþfl. hefur mjög varað við hinum gegndarlausu erlendu lántökum og nú hygg ég að allir séu að verða um það sammála að vart sé hægt að ganga lengra á þeirri braut en gert hefur verið. Það mun hafa komið fram í fjölmiðlum ekki alls fyrir löngu að 19% þjóðartekna fari nú í vaxtagreiðslur einar vegna erlendra lána sem tekin hafa verið.

Út af fyrir sig má segja að varðandi þennan atvinnuveg sé ekkert verra að taka erlend lán heldur en til annarra og kannske betra. En einhvers staðar verður að nema staðar. Það verður ekki gengið lengra í því að taka erlend lán heldur en þegar hefur verið gert og þær lántökur eru náttúrlega komnar út í öfgar fyrir löngu.

Ég flyt á þskj. 1162 brtt. við 27. gr. um að orðin „eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt“ falli brott. Það er auðvitað ekki nema sjálfsagt að taka þarna lán á innlendum lánamarkaði og trúlega verður það hægt. En að halda miskunnarlaust áfram að veita heimildir til erlendra lántöku, það telur Alþfl. ekki koma til greina. Menn verða að spyrna við fótum og fara að snúa ofan af þessari öfugþróun.

Herra forseti. Mér heyrist á öllu að málið sé brýnt og það þurfi að komast hér fram sem hraðast og ekki skal ég verða fyrstur til að tefja það á nokkurn hátt. En þetta er sú brtt. sem ég flyt og fyrirvari minn byggðist á varðandi undirskrift nál.