06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

89. mál, skattar af Mjólkursamsölunni

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Það er ekki tími til að fara langt út í þetta mál, en ég undrast að hv. 5. þm. Reykv. og hv. 10. landsk. þm. skuli láta í ljós óánægju sína yfir því að ekki skuli vera lagður söluskattur á mjólkurvörur. Það vita allir að ef söluskattur er lagður á vöru hækkar hún í verði. Þegar vara er jafnmikið notuð, t.d. af börnum, skólabörnum, og kakómjólk, þá finnst mér alveg furðulegt að þau skuli leggja áherslu á að þarna sé verið að hlífa einhverjum óverðskuldað með því að nýta heimild sem ótvírætt er í lögum fyrir fjmrh. að fella þetta niður. (JBH: Þurfti ekki að lækka verð um 20%?) Það þurfti ekki. Hins vegar var það ósk mín að það væri gert og m.a. vegna þess að mér var ljóst að lækka þyrfti verðið í bili til þess að ná upp sölu aftur af því hún hafði stöðvast. Þessi vara hefur ekki enn þá náð sömu sölu og áður. En það er dálítil mótsögn í því að vera að hneykslast á því að ekki skuli vera lagður söluskattur á þessa vöru og tala þá jafnframt um ósvífnislega dýrar vörur. Vitanlega hækkar vara í verði ef lagður er söluskattur á hana. Það er augljóst mál.

En þegar sagt er að vara hækki í verði vegna þess að Osta- og smjörsalan annast dreifingu hennar vil ég benda á að kostnaður af heildsöludreifingu á smjöri og ostum stórlækkaði þegar Osta- og smjörsalan tók til starfa. Það liggur alveg fyrir. Áður var kostnaðarhlutdeild heildsöludreifingar 10%, en fór þegar niður í 4% og hefur verið á bilinu 2–4% síðan. Það er því augljóst hagræði fyrir neytendur af þessari starfsemi.

Hér hefur verið minnst á byggingu Mjólkursamsölunnar. Ég tel rétt að fram komi hér á Alþingi vegna þeirra umræðna er fram hafa farið að Mjólkursamsalan átti yfir 50 búðir hér í Reykjavík fyrir nokkrum árum. Það var ákveðið að aðrir aðilar tækju að sér mjólkurdreifingu. Þá voru þessar búðir seldar og ákveðið að nýta fjármagnið til að byggja upp betri aðstöðu fyrir mjólkurdreifingu. Á því er tvímælalaust mjög brýn þörf hér í Reykjavík því mjólkurstöðin, sem nú er notuð, var byggð á árunum milli 1940 og 1950 fyrir miklu færri íbúa. Enn fremur voru vöruflokkarnir þá ekki nema sex, en núna eru þeir orðnir á annað hundrað og er dreift frá Mjólkursamsölunni til 800–900 útsölustaða á þessu svæði.