07.06.1985
Neðri deild: 90. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6085 í B-deild Alþingistíðinda. (5544)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Frsm. meiri hl. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Eins og hér var kynnt kem ég til með að mæla fyrir nál. á þskj. 1087 frá meiri hl. fjh.- og viðskn.

Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um þetta frv. Henni bárust margháttuð erindi og gögn. Meiri hl. n. mælir með samþykkt frv. með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þskj. Minni hl. mun skila séráliti.

Við afgreiðslu Ed. á frv. var gert ráð fyrir að heildarlántökur næmu alls 9462 millj. kr. Þar af var ráðgert að afla 2393 millj. kr. innanlands og 7069 millj. kr. með erlendum lántökum. Breytingar í meðförum n. leiða til hækkunar á lántökum um 127 millj. kr. og nema því heildarlántökur 9 milljörðum 589 millj.

Þær breytingar, sem lagt er til að samþykktar verði, eru eftirfarandi:

Áformað var að fyrirhuguðu þróunarfélagi yrðu heimiluð 500 milljón kr. lántaka á árinu 1985. Af þessari fjárhæð hefur ríkisstj. ákvarðað að 50 millj. kr. gangi til eflingar rannsóknastarfa í landinu á vegum Rannsóknaráðs og 60 millj. kr. renni til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins til eflingar nýrra búgreina. Eftirstöðvum af fyrirhugaðri lántöku þróunarfélagsins er fyrirhugað að ráðstafa á eftirfarandi hátt:

Framkvæmdasjóður vegna sjávarútvegs 50 millj. kr., Framkvæmdasjóður vegna Iðnlánasjóðs 50 millj. kr., Framkvæmdasjóður vegna fiskiræktar 50 millj. kr., útflutningslánasjóður 50 millj. kr. og þróunarfélag 190 millj. kr. Samtals eru þetta 390 millj. kr.

Heildarlántökur A-hluta ríkissjóðs hækka um 120 millj. Felast þær í eftirfarandi atriðum:

1. Framlag til rannsóknastarfsemi og nýrra atvinnugreina í landbúnaði 110 millj. kr.

2. Til Kvikmyndasjóðs 10 millj. kr. Heildarlántökur B-hluta ríkissjóðs hækka um 5 millj. kr. og er það til laxeldisstöðvar í Kollafirði vegna endurbóta.

Lántökur fyrirtækja með eignaraðild ríkissjóðs hækka um 202 millj. kr. og skiptist sú hækkun þannig: Þróunarfélagið fær 190 millj. kr. og grænfóðurverksmiðjur 12 millj. kr.

Í frv., eins og það kom frá Ed., voru erlendar lántökur til lánastofnana áætlaðar 1562 millj. kr. Í þeirri fjárhæð var gert ráð fyrir 500 millj. kr. erlendri lántöku vegna fyrirhugaðs þróunarfélags. Eins og fram hefur komið tekur A-hluti ríkissjóðs 110 millj. kr. af þeirri fjárhæð og 190 millj. kr. eru ætlaðar þróunarfélaginu sjálfu sem fellur undir fyrirtæki með eignaraðild ríkissjóðs.

Til atvinnufyrirtækja var gert ráð fyrir 1500 millj. erlendri lántöku, en nú er lagt til að hækka þessa fjárhæð um 100 millj. kr. sem ganga eiga til skipaviðgerða.

Þá er leitað eftir heimild til handa fjmrh. til að yfirtaka eða veita sjálfskuldarábyrgð á allt að 250 millj. vegna afurðalána sem skreiðarverkendur hafa fengið vegna skreiðarbirgða í árslok 1984. Hér er um að ræða aðstoð við skreiðarframleiðendur í landinu vegna söluerfiðleika á skreið til Nígeríu allt frá árinu 1982.

Þá er þess að geta að Framkvæmdasjóður mun leggja Byggðasjóði 100 millj. til þess að auðvelda þeim byggðarlögum, sem eru að missa eða hafa misst skip vegna greiðsluerfiðleika, að halda þeim í heimabyggð.

Sömuleiðis mun Framkvæmdasjóður lána til loðdýraræktar 50 millj. að fengnum tillögum stofnlánadeildar. Breytingar á útlánaáætlunum húsbyggingarsjóða ríkisins eru ekki gerðar á lánsfjárlögum þar sem ákveðin hefur verið viðbótarfjáröflun til lausnar á vanda húsbyggjenda og frv. þar að lútandi var afgreitt héðan úr deildinni í gær.

Undir þetta nál. rituðu á Alþingi 31. maí 1985: Páll Pétursson, sem er formaður og frsm. n., Friðrik Sophusson, Þorsteinn Pálsson og Halldór Blöndal.

Þessu nál. fylgja fskj. Í fyrsta lagi heildaryfirlit um erlendar og innlendar lántökur 1985, í öðru lagi lánsfjárþörf opinberra aðila 1985, í þriðja lagi Framkvæmdasjóður Íslands 1984 og 1985, í fjórða lagi útflutningslánasjóður, í fimmta lagi greiðsluyfirlit Iðnþróunarsjóðs, í sjötta lagi greiðslujöfnuður við útlönd 1983–1985 og í sjöunda lagi tafla um fjármunamyndun 1983–1985.

Það hefði verið ánægjulegra að mæla fyrir nál., herra forseti, til lækkunar á lánsfjárlögum. Skuldir okkar í útlöndum keyra úr hófi og verða á þessu ári 63.6% af vergri þjóðarframleiðslu.

Ég held að það sé óhjákvæmilegt fyrir okkur að staldra við og hugleiða hvernig þessar skuldir hafa myndast. Meira en helmingur af þessum skuldum er myndaður vegna orkumála. Beislun innlendrar orku, sem í sjálfu sér hefur verið mikið forgangsverkefni á undanförnum árum, hefur reynst mjög kostnaðarsöm. Þessi innlenda orka ber erlendan kostnað að mjög verulegu leyti og því miður skilar hún ekki alltaf þeim arði sem til var ætlast í upphafi. Hagkvæmni stærðarinnar hefur verið alls ráðandi og menn hafa í sumum tilfellum verið ansi mikið of stórhuga.

Við búum nú við þær aðstæður að hér eru ónýttar virkjanir, en samt er haldið áfram. Að vísu hefur í meðförum Alþingis verið skorið verulega niður fé til orkumála, þ. e. til Landsvirkjunar, frá upphaflegum óskum, en það er mikil spurning í mínum huga hvort ekki hefði mátt skera meira. Úr orkugeiranum er helst eitthvað hægt að klípa. En á því voru vankantar. Það er búið að bjóða of mikið út. Það er búið að semja um framkvæmdir við verktaka. Ef átt hefði að breyta þeirri áætlun hefði það kostað að taka hefði orðið upp samninga við verktakana um að þeir féllu frá þeim verksamningum eða frestuðu verklokum frá því sem upphaflega var um samið, en vafalítið hefði þurft að greiða þeim skaðabætur fyrir. Þetta er ekki nógu gott skipulag. Fyrirtæki gerir stórhuga áætlanir og gerir síðan stórhuga verksamninga í kjölfarið á hinum stórhuga áætlunum, leggur síðan fram háar beiðnir um lántöku sem ekki er hægt annað en að verða við af því að búið er að semja um verkið. Það verður að vera í samræmi í orkunotkun og orkuöflun. Það verður að láta þetta haldast í hendur og sniða þessu þann stakk sem þjóðfélag okkar þolir.

Virkjunarhraðinn má ekki verða til þess að við neyðumst til þess að selja orkuna á spottpris til erlendra stórnotenda og velta svo hallanum yfir á almenningsnotkun í landinu. Þetta er hættuleg stefna. Það er höfuðnauðsyn að söðla um. Orkumál verða að meðhöndlast af mikilli fyrirhyggju og aðgát því þeir sem meðhöndla þau hafa bókstaflega í höndum fjöregg þjóðarinnar.

Ég nefni það sem dæmi að áætlanir um virkjunarhraða við Blöndu miða að því að virkjunin hefji raforkuframleiðslu 1988, verði ekki af stóriðjusamningum, sem ég tel ósennilegt að af verði og óskynsamlegt að gera nema þá að framleiðslukostnaðarverð fáist fyrir raforkuna. Þessi virkjun, sem nú er áætlað að taki til starfa 1988, þarf ekki að taka til starfa vegna almenns markaðar fyrr en 1991, þ. e. — og ég ítreka — ef ekki verður af nýjum stóriðjusamningum, og Blönduvirkjunarviðbótin dugir til aldamóta án nýrrar stóriðju.

Hæfustu sérfræðingar og starfsmenn og nm. hafa verið á ferð út um veröldina með töluverðum kostnaði til þess að gera samninga og leita að kaupendum, en þeir hafa ekki fundið enn þá kaupendur sem hægt er að festa hönd á og það er ekki horfur á glæsilegum arðvænlegum samningum úr þeirra hendi á næstunni.

Ég tel sem sagt að við ættum að láta okkur hægara í þessari erlendu skuldasöfnun, við getum dregið úr þessum framkvæmdum án þess að þjóðarbúið fyndi verulega fyrir því, og reyna heldur að borga niður þær virkjanir sem þegar eru komnar og koma arðsamari lagi á okkar orkubúskap.

Herra forseti. Það væri sannarlega freistandi að fjalla um þetta í lengra máli. Ein af brtt. sem við leggjum til er sú að taka 10 millj. kr. til láns í útlöndum til þess að búa til kvikmyndir. Það er gott og skynsamlegt að búa til kvikmyndir, en hitt er svo spurning hvort eðlilegt er að taka lán í útlöndum til og gera það mögulegt eða til þess að gera gerð þeirra mögulega. Svona er lengi hægt að telja. En þetta er það sem við leggjum til og eins og Marteinn heitinn Lúter sagði forðum: „Hér stend ég og get ekki annað.“