07.06.1985
Neðri deild: 90. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6095 í B-deild Alþingistíðinda. (5546)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Frsm. 2. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það er vitaskuld ákaflega furðulegt að sú umr. sem fer hér fram um lánsfjárlög skuli eiga sér stað að fjmrh. fjarstöddum. Ég get ekki komist hjá að gagnrýna það. Ég tel að það sé í rauninni lágmark að hæstv. fjmrh. sé viðstaddur umr. um svo veigamikinn þátt í ríkisbúskapnum sem lánsfjárlögin eru.

Ég hef skilað sérstöku áliti og tillögum eins og kemur fram á þskj. Mig langar hins vegar til, herra forseti, að byrja á því að vekja athygli hv. Nd. á nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. á bls. 7, þar sem heitir fskj. IV, greiðslujöfnuður við útlönd. Þar eru allhrikalegar tölur eins og meiri hl. hefur gengið frá þessu nál. og eins og búningur lánsfjárlaganna og þeirrar stefnumörkunar sem þeim fylgir virðist nú eiga að vera.

Í fyrsta lagi kemur þar fram að langar lántökur, sem svo eru nefndar, innkomin löng lán alls eiga að vera 7200 millj. kr., en í annan stað er talað um stuttar fjármagnshreyfingar nettó upp á 2900 millj. kr. Þetta gerir samtals heildarlántökur upp á 10 100 millj. kr. í nýjum lánum á árinu 1985.

Talan 7200 er á svipuðu róli að vísu og gert var ráð fyrir þegar lánsfjáráætlun var lögð fram, en talan 2900 er ný af nálinni og þar hafa heldur betur orðið umskipti frá því sem gert var ráð fyrir þegar lánsfjáráætlun var lögð fram. Sé litið á bls. 23 í lánsfjáráætlun þar sem er samsvarandi tafla, þá kemur í ljós að þar hefur verið gert ráð fyrir að stuttar fjármagnshreyfingar nettó yrðu ekki 2900 millj. kr., eins og hér er nú boðað, heldur 1200 millj. kr. Hér skeikar 1700 millj. kr.

En það sem meira er, þessi tala í lánsfjáráætluninni ber sérstakt merki um það að við þessar 1200 millj. kr. hafi menn sérstaka athugasemd að gera sem síðan kemur fram neðanmáls. Og þar stendur varðandi 1200 millj. kr.: „Þetta nettóinnstreymi gæti hæglega orðið minna, en það mundi jafnframt rýra gjaldeyrisstöðuna enn frekar.“ Þegar lánsfjáráætlun var lögð fram var m. ö. o. gert ráð fyrir því að stuttar lántökur nettó yrðu 1200 millj. kr. en þó að líkindum minni. En nú er gert ráð fyrir því að þessi lántaka fari upp í 2900 millj. kr. Ég hlýt að vara alveg sérstaklega við þessu gífurlega stökki í skammtímalánum. Sannleikurinn er sá að þó að við Íslendingar séum skuldugir upp fyrir haus og skuldugasta þjóð veraldar pr. íbúa, þá hefur okkur þó tekist að bjargast nokkurn veginn frá því að lenda í greiðsluvandræðum af því að lán okkar hafa verið til langs tíma.

Aðrar þjóðir, sem hafa búið við svipaða skuldastöðu eða jafnvel þó nokkuð miklu skárri en við, hafa lent í umtalsverðum greiðsluerfiðleikum vegna þess að lán þeirra voru til skamms tíma og þess vegna réðu þær ekki við afborganirnar. Aukning skammtímaskulda er þess vegna vísasti vegurinn til glötunar, vísasti vegurinn til þess að lenda í greiðsluerfiðleikum.

Þessi stefnumörkun kemur hvergi fram í lánsfjárlögunum. Þessi stefnumörkun ríkisstj. er ekki efni í lagasetningu og þess vegna get ég heldur ekki flutt brtt. við þessa tölu. En í þessari sakleysislegu tölu, og þetta er eini staðurinn þar sem þessi tala birtist og ekki stafkrókur um þetta neins staðar annars staðar, þessi tala er mjög varasöm og ég hlýt að vara alveg sérstaklega við henni.

Í starfi fjh.- og viðskn. spurðist ég fyrir um þetta atriði og málið var tekið til umfjöllunar og fengnir fulltrúar frá viðskrn. og Seðlabanka af þessu tilefni. Og þeir voru spurðir: Hvað veldur þessum umskiptum í stjórnarstefnunni, að auka hér skammtímalán í upp undir 3 milljarða kr., sem hvergi hefur verið rætt og hvergi hefur komið fyrir og hvergi hefur birst fyrr en nú? Svörin hjá þessum fulltrúum voru sitt á hvorn veginn. Fulltrúar viðskrn. svara með einum hætti, fulltrúi Seðlabankans með öðrum hætti. En nú vill svo til að yfirmaður þeirra beggja, yfirmaður peningamála, hæstv. viðskrh., er hér staddur þó að hæstv. fjmrh. sé fjarstaddur og þess vegna hlýt ég að beina máli mínu til hans varðandi þetta atriði.

Í máli fulltrúa Seðlabankans kom fram að nauðsynlegt væri að auka þessar skammtímalántökur okkar vegna þess að nú væru afurðalánin að flytjast yfir til bankanna og bankarnir þyrftu að taka erlend lán. Í þessu svari fulltrúa Seðlabankans fólst að við ætluðum sem sagt að auka erlendar lántökur af því að breytt hefði verið afurðalánakerfinu. En vitið þið hvað fulltrúi viðskrn. sagði? Fulltrúi viðskrn. sagði að vitaskuld hefði viðskrh. skrifað bönkunum af þessu tilefni og fengið loforð frá Seðlabankanum, að því er mér skildist, um það að þessi breyting, sem hér væri verið að gera á afurðalánum og heimild viðskiptabankanna til erlendrar lántöku í því sambandi, ætti ekki að verða til þess að auka þenslu innanlands, ætti ekki að verða til þess að auka heildarlántökur íslensku þjóðarinnar erlendis, vegna þess að vitaskuld væri gert ráð fyrir því að þegar viðskiptabankarnir færu yfir í þessa lántöku mundi lántökuþörf Seðlabankans minnka að sama skapi.

Nú hlýt ég að spyrja hæstv. viðskrh.: Er ekki með þessu verið að svíkja það fyrirheit sem viðskrh. var gefið af hálfu Seðlabankans um það að sú breyting sem gerð var á afurðalánunum og heimildin til viðskiptabankanna til þess að taka lán erlendis til þess að mæta því? Er ekki verið að svíkja það fyrirheit að það verði ekki til að auka þenslu hér innanlands? Er ekki verið að svíkja það fyrirheit að það eigi ekki að verða til þess að auka skuldir íslensku þjóðarinnar? Ég get ekki betur séð. Ég get ekki betur séð en að bankavaldið í landinu sé hér að hafa orð og óskir viðskrh. að engu. Og síðan gerist það að á vegum ríkisstj., hugsanlega að hæstv. viðskrh. óvitandi, liggur nú sú stefnumörkun fyrir að auka eigi skammtímalán upp á u. þ. b. 3 milljarða kr. Ég óska eftir því að hæstv. viðskrh. geri grein fyrir þessu.

Menn geta haft það til samanburðar að á s. l. ári var dregið úr skammtímalánum, að vísu ekki mikið, en það var þó viðleitni í þá áttina að hrapa ekki í þá gryfju sem ýmsar aðrar skuldugar þjóðir heims hafa lent í.

Herra forseti. Heildarlántaka á þessu ári upp á 10.1 milljarð kr. er í rauninni til skammar. Það verður ekki annað um það sagt. Hér hefur hver ráðh. á fætur öðrum staðið upp og lýst því yfir að erlendar skuldir megi ekki aukast. Það eru ekki nema fáeinir dagar síðan hæstv. forsrh. sagði að þær mættu ekki, ættu ekki og gætu ekki aukist. En hér liggur tillaga ríkisstj. og stjórnarflokkanna fyrir um nýjar erlendar lántökur upp á 10.1 milljarða kr.; um nettóaukningu langtímalána upp á 2.6 milljarða kr. og um aukningu skammtímalána upp á næstum 3 milljarða kr.

Hæstv. fjmrh. hefur marglýst því yfir að það sé ekki tækt að auka við erlendar skuldir þjóðarinnar. Einu sinni setti hann höfuðið eða réttara sagt stólinn að veði fyrir því að erlendar langtímalántökur færu ekki yfir 60% af vergri þjóðarframleiðslu. En skv. þeim tillögum sem hér liggja fyrir eiga erlendar lántökur í löngum lánum að aukast enn frá u. þ. b. 62% sem það var á s. l. ári og upp í hátt í 64%, eða 63.6% eins og útreikningurinn er talinn vera núna. Maður getur ekki afsakað þessa menn með því að þeir viti ekki hvað þeir eru að gera. Þeir eru ekki blindir. Þeir hafa gert þetta að umræðuefni. En þeir eru að svíkja sín eigin heit og þeir eru að læðast aftan að þjóðinni með því að halda því fram öllum stundum að það verði að takmarka erlendar lántökur og þeir séu að vinna að því að þeir séu að minnka skuldsetningu þjóðarinnar í útlöndum, en standa svo að hinu þveröfuga, nefnilega því að vera sífellt að auka erlendar skuldir. Þeir eru ekki blindir, þeir hafa ekki það sér til afsökunar, en þetta eru svik á eigin orðum og þetta eru svik við þjóðina.

Á sérstöku fskj. geri ég till. um það að þessar erlendu lántökur verði skornar niður. Ég geri till. um að þær verði skornar niður um 940 millj. kr. Auðvitað er það ekki sársaukalaust. Auðvitað kemur það við marga. En ég tel það nauðsynlegt. Ég geri reyndar líka tvær aðrar till. sem ég mun gera grein fyrir síðar. Önnur varðar ábyrgðarheimild vegna lántöku hjá Norræna fjárfestingalánasjóðnum sem ég tel nauðsynlega. Hin varðar hugmyndir um vegamál og greiðslufyrirkomulag í þeim efnum. Áður en ég vík að því skulum við hins vegar líta á hvað hefur verið að gerast í erlendum lántökum okkar á undanförnum árum.

Í nýlegu hefti sem út er komið frá fjárlaga- og hagsýslustofnun og ber heitið „Yfirlit um erlendar lántökur 1976–1984“ eru einkar fróðlegar upplýsingar sem ég vil leyfa mér að vitna til, með leyfi hæstv. forseta. Við skulum líta á hvernig staðan er þegar litið er fram á veginn, hvernig staðan er í fyrsta lagi á árinu 1985, þessu herrans ári, hvað við höfum veðsett okkur mikið, hvað það er stór hluti af okkar útflutningstekjum, hvað það eru háar fjárhæðir sem við erum skuldbundin til að greiða útlendingum. Það eru 4.6 milljarðar kr. sem við eigum að borga í afborganir, en þar að auki ber okkur að greiða 5.4 milljarða kr. í vexti. Þetta eru samtals 10 milljarðar kr. sem við eigum að greiða í atborganir og vexti á árinu 1985. Er þetta þá ekki óvenjulega erfið staða? Mun ekki strax létta á okkur þegar fram í sækir? Nei, ekki aldeilis.

Á árinu 1986 eru skuldbindingar okkar þannig. úður en við tökum ákvarðanir um þau lán sem nú er verið að ákveða, að samtals eigum við að greiða 9.9 milljarða kr. í afborganir og vexti. Þar af á ríkið að greiða 6 milljarða. Ekki léttist það heldur 1987, því að skv. þessu yfirliti mun það enn fara vaxandi á árinu 1987 og vera komið upp í 10.6 milljarða kr. Eru þetta tölur á gengi í árslok 1984, báðar þær tölur sem ég hef hér rakið. Þær eru þess vegna ívið of lágar og skeikar þar sjálfsagt um 400-500 millj. kr. ef við miðum við gengið eins og það er núna og þær tölur sem ég rakti fyrir árið 1985. Og áfram mun þetta vera eins á árinu 1988. u. þ. b. 10 milljarðar. 9.5 milljarðar á gengi í árslok 1984, og þá u. þ. b. 10 milljarðar miðað við gengið eina og það er núna. Og enn á árinu 1989 er upphæðin svipuð.

Í þessum tölum er ekki farið að reikna með þeim lántökum sem eru teknar eða á að taka ákvörðun um að Íslendingar taki á þessu ári. Og allan þennan tíma er það svo, að 2/3 upphæðinnar er vegna opinberra aðila.

Það er fróðlegt að skoða þá þróun sem hefur átt sér stað í erlendum lántökum og samsetningu þeirra á undanförnum árum. Sé litið á hana. og hún kemur einkar glöggt fram í þessu yfirliti líka, þá er ljóst að það eru ekki atvinnuvegirnir sem hafa verið að skuldsetja sig upp fyrir haus, það er opinberi geirinn. Og nú er upp tekin sú stefna að reka ríkissjóð á erlendum lánum. Það er óheillastefna og út úr þeim farvegi verðum við að komast. Þær tölur sem hér eru nefndar eru m. a. ávöxtur af þeirri stefnu. Menn muna kannske eftir því að á s. l. ári voru tekin erlend lán til þess að greiða barnsmeðlög. Svo langt gengu menn á því ári. En sú stefna sem fylgt er varðandi árið 1985 er í rauninni ekkert betri, því við getum alveg eins haldið því fram að við séum að reka skólakerfið og sjúkrahúskerfið á erlendum lánum, þegar íslenska ríkið er gert upp með þeim gífurlega halla sem nú er og því er mætt með erlendum lánum.

Sú var tíð að greiðslubyrði okkar af erlendum lánum í hlutfalli við tekjur af útfluttum vörum og þjónustu var u. þ. b. 10%. Nú er þetta komið yfir 20%. Allar götur fram til 1974 voru þessar tölur í kringum 10 % . Á árunum 1975–1979 voru þessar tölur í kringum 13%. u. þ. b. 13% af útflutningstekjum fóru til þess að standa undir greiðslubyrði af erlendum lánum. Á árinu 1981 fer að hrökkva í hágírinn, þá er hrokkið yfir 14%. En það kastar fyrst tólfunum árið 1982. því að þá er þetta hlutfall komið yfir 20%, komið í 21.3%. Og á árinu 1984 var það komið í 24.3%, en seinustu prósentustigin þar, 2–3 a. m. k., voru vegna sérstaklega hárra vaxta á því ári. Það verður okkur þó ekki til afsökunar á árinu 1985 því að vextir hafa lækkað og enn eigum við samt að vera milli 21 og 22% samkv. opinberum útreikningi.

Erlendar skuldir hafa auðvitað vaxið í krónutölu í samræmi við þetta. Í árslok 1984 er talið að þær hafi verið 42.5 milljarðar kr, á árslokagengi þess árs. Ætli þær verði ekki komnar yfir 56 milljarða kr. í árslok 1985 á árslokagengi ársins 1985? Ekki verður annað séð af þeim gögnum sem fram hafa verið lögð.

Það er sama uppi á teningnum ef við gerum samanburð við verga þjóðarframleiðslu. Fyrir 1974 voru erlendar skuldir innan við 25% af vergri þjóðarframleiðslu. Núna eru tölurnar komnar yfir 60% eins og ég hef rakið. Þær sigu upp í 30–35% á árunum 1975–1981, en á árinu 1982 stukku þær upp undir 50% og síðan yfir í 60% á árinu 1983, árinu sem fjmrh. ætlaði að segja af sér ef erlendar skuldir færu yfir 60%, sem hluti af vergri þjóðarframleiðslu. Þetta er hörmuleg mynd. Við þessa þróun getum við ekki unað og það er í þessu ljósi og í ljósi þeirra yfirlýsinga sem menn hafa gefið sem ég hef flutt þær brtt. sem koma fram á þskj. 1172. Núna verður að spyrna við fótum. Það verður ekki hjá því komist að spyrnt verði við fótum. Það verður að snúa þessari þróun við, stöðva aukningu erlendra skulda og síðan á næstu árum að leitast við að lækka þær. Ég tel að við verðum öll sem þjóð að setja okkur þetta markmið og aðrar langanir verði þá að víkja. Við getum ekki skuldsett þjóðina frekar. Við getum ekki forsvarað það fyrir börnum okkar að velta sífellt stærri og þyngri byrðum yfir á þau. Og við getum ekki heldur varið það fyrir forverum okkar, sem unnu þessu landi sjálfstæði, að við skulum með þessum hætti stofna lýðveldi og sjálfstæði okkar í hættu með taumlausri skuldasöfnun.

Niðurskurður af því tagi sem ég geri hér tillögu um þýðir vitaskuld að margir fá ekki það sem þá langar til, að framkvæmdir verði að bíða og það verði að velja og hafna innan þrengri ramma en við höfum tamið okkur á undanförnum árum, en það er þjóðarnauðsyn að hér sé spyrnt við fótum og fyrir þeirri þjóðarnauðsyn verður kröfugerð einstakra aðila eða óskir þeirra hreinlega að víkja. Og það er hlutverk Alþingis að marka stefnuna fyrir hönd þjóðarheildarinnar. Alþingi má ekki leiða þetta verk hjá sér, Alþingi á að marka rammann og síðan að velja og hafna innan þess. En það er einmitt undan þessu viðfangsefni sem ríkisstj. og stjórnarflokkarnir hafa vikið sér, þessu langafdrifaríkasta verki sem Alþingi hefur að vinna. Það stoðar lítt að ráðherrar, bæði forsrh. og fjmrh., svo að dæmi séu tekin, flytji yfirlýsingar um að erlendar skuldir megi ekki aukast en flytji jafnframt tillögur um það að auka hin nýju erlendu lán um 10.1 milljarð kr., þ. e. 7200 millj. til langs tíma og 2900 millj. í formi skammtímalána.

Samkvæmt þessari stefnu, eins og hún birtist nú af hálfu stjórnarflokkanna, ætla menn að bæta á þjóðina upp undir 30 millj. á dag í nýjum erlendum lánum, hvern einasta dag allan ársins hring, virkan dag sem helgan. Þannig ætla fulltrúar ríkisstj., fjmrh. og bankavaldið undir umsjá hæstv. viðskrh., að fara til útlanda, sækja til útlanda 28 millj. kr. upp á hvern einasta dag allan ársins hring 1985. Svona hrikalegt er nú þetta dæmi.

Það er skoðun okkar Alþfl.-manna að þetta megi ekki svo til ganga og það er í samræmi við þessi sjónarmið og með það að markmiði að erlendar lántökur, erlendar langtímaskuldir aukist ekki sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, sem þær brtt. eru fluttar sem ég hef hér vitnað til og sjá má á sérstöku þskj. Þessar brtt. fela það í sér að erlendum lántökum verði skorinn sá stakkur að þær verði tæpum milljarði eða 940 millj. kr. lægri en tillögur stjórnarflokkanna í fjh.- og viðskn. gera ráð fyrir. Nettólántökur erlendis yrðu samkvæmt þessum tillögum mínum 1660 millj. kr., en það er 36% lægri tala en í tillögum stjórnarflokkanna.

Vitaskuld hefði maður gjarnan viljað ganga lengra, en með þessu móti verða þó erlendar lántökur næstum því óbreytt hlutfall af þjóðarframleiðslu á árinu 1985 miðað við árið 1984. En svigrúmið til lækkunar er vitaskuld takmarkað af því að það hafa þegar verið afgreidd fjárlög með verulegum halla og þessum halla verður að mæta og þess vegna hlýt ég í þessum tillögum mínum að ganga út frá því að fjárlögin fái að standa. Vitaskuld takmarkar það mjög svigrúmið til þess að draga frekar úr erlendum lántökum sem þó hefði verið mjög æskilegt.

Það markmið að draga úr erlendum lántökum er ekki barasta vegna sjálfstæðis þjóðarinnar, er ekki barasta vegna þess að tölurnar séu orðnar svo háar, er ekki einasta vegna þess að greiðslubyrðin sé svo mikil, því á þessu máli eru margar hliðar. Lánsfjáröflunin, erlenda skuldasöfnunin er ein af lykilstærðunum í efnahagsbúskap okkar, í efnahagslífinu sjálfu. Ef þessar tillögur mínar yrðu samþykktar og sú stefnumörkun sem ég tel að nauðsynleg sé varðandi skammtímalánin, þ. e. að auka þau ekki um 2900 millj. heldur hið mesta um a. m. k. milljarðinum minna, þá mundi viðskiptahallinn ekki verða eins geigvænlegur og hann er hjá ríkisstj., þá mundi viðskiptahallinn verða 500–1000 millj. minni en gert er ráð fyrir í áformum ríkisstj. Í hennar áformum og áætlunum er gert ráð fyrir viðskiptahalla upp á 4500 millj. kr. Það er aukning á viðskiptahalla frá s. l. ári um um það bil 350 millj. ef ég man rétt. Samkvæmt þessum tillögum væri þróuninni líka snúið við í þessu efni og viðskiptahallinn mundi fara minnkandi og verða minni en hann var á árinu 1984 og lægra hlutfall af útflutningstekjum og lægra hlutfall af þjóðarframleiðslu en hann var á árinu 1984 í stað þess að fara vaxandi. Hann mundi ekki verða nema um 4% af vergri þjóðarframleiðslu eða innan við það.

Það er líka önnur hlið á þessu máli sem ég vil vekja athygli á. Hver stjórnmálamaðurinn á fætur öðrum, hver hagfræðingurinn á fætur öðrum stendur upp og fordæmir þá miklu spennu sem sé hér í þjóðfélaginu, einkum á höfuðborgarsvæðinu, og það misvægi sem sé komið upp í efnahagslífinu. Allir fordæma þessa spennu. En ef þessar tillögur mínar yrðu samþykktar, þá mundi draga úr þessari spennu og það mundi hafa veruleg áhrif til þess að skapa aukið jafnvægi í efnahagslífinu og bæta skilyrði sjávarútvegsins til framleiðslu, sjávarútvegsins sem nú á í margþættum erfiðleikum, m. a. þeim að fá ekki fólk til þess að vinna í dýrustu pakkningar, sem þýðir það að útflutningsframleiðslan verður verðminni heldur en ella og það bitnar síðan á lífskjörum allrar þjóðarinnar og afkomu þjóðarbúsins. Líka af þessum ástæðum er nauðsynlegt að stíga það skref sem hér er gert ráð fyrir í þessum tillögum og hamla gegn og draga úr erlendum lántökum frekar en spenna og eyða eins og stjórnarflokkarnir gera.

Á meðan stjórnarflokkarnir fylgja fram þessari stefnu sem felst í frv., eins og það liggur fyrir og eins og meiri hluti fjh.- og viðskn. vill ganga frá því, þá hafa þeir engan rétt til þess að kvarta undan því að það sé spenna í þjóðfélaginu, vegna þess að þeir hafa það í hendi sér hver þessi spenna er. Þeir hafa ákveðið samkvæmt þessu að hún skuli vera og þá geta þeir ekki undan henni kvartað.

Þessar tillögur mínar gefa líka svigrúm til þess að bæta kjör vinnandi fólks vegna þess að með aðhaldi í fjárfestingu, sem er auðvitað það sem felst í þessum tillögum, eykst vitaskuld svigrúmið til kjarabóta hjá vinnandi fólki. Svigrúmið til þess að bæta við einkaneysluna eykst ef menn svo kjósa. Mig minnir að ýmsir hafi gefið yfirlýsingar um það, ekki bara úr stjórnarandstöðunni heldur líka úr stjórnarliðinu, að kjörin væru óbærileg og að það ætti ekki síst við um fólkið í fiskvinnslunni. Og menn hafi lýst vilja sínum til að bæta þessi kjör. Hvernig væri þá að skapa sér svigrúm til þeirra hluta frekar en að spenna hér allt þannig í fjárfestingu að það er allt of þröngt um til þess að bæta kjör fólksins í landinu? Röng fjárfesting hefur vafalaust rýrt lífskjör okkar á undanförnum árum. Það hafa margir tekið undir það að þessi ranga fjárfesting væri eitt af því sem stæði hagvexti á Íslandi fyrir þrifum og þar með kjarabótum.

Nýlega var haldin ráðstefna á vegum landsmálafélagsins Varðar. Hún var haldin í Valhöll hinn 1. des. 1984 og hét „Fjárfestingar á Íslandi“. Á þessari ráðstefnu voru haldin ýmis gagnmerk erindi sem í sjálfu sér er ástæða til að benda á. M. a. hélt Ólafur Björnsson prófessor erindi á þessari ráðstefnu. Menn hafa sýnt þann myndarskap að gefa þessi erindi út í hefti sem ég trúi að hafi verið dreift til allra þm. Í þessu erindi prófessors Ólafs Björnssonar, þar sem hann fjallar um afleiðingar fjárfestingarmistaka, koma fram sjónarmið sem ég tel eðlilegt og rétt að vitna hér eilítið til, með leyfi hæstv. forseta. Ólafur Björnsson prófessor segir m. a. í þessu erindi sínu:

„Þegar talað er um mistök í fjárfestingu getur slíkt haft tvenns konar merkingu. Annars vegar þá að skipting þjóðarframleiðslunnar milli neyslu og fjárlestingar sé röng, þannig að of mikið eða of lítið sé fjárfest og neysla þá að sama skapi of lítil eða mikil. Hins vegar getur verið átt við það, að sú fjárfesting sem á sér stað sé ekki svo hagkvæm sem æskilegt væri. Algengast mun að það sé síðari merkingin, sem í það er lögð, þegar talað er um mistök í fjárfestingunni.

Hitt er þó í rauninni ekki síður mikilvægt fyrir efnahagslega velferð þjóðarinnar, að réttar ákvarðanir séu teknar um skiptingu þjóðarframleiðslunnar milli fjárfestingar og neyslu. Ákvarðanir um þetta. hvort heldur þær eru teknar af einstaklingum eða opinberum aðilum, byggjast á mati á því hvort mikilvægari sé fullnæging þarfa líðandi stundar eða framtíðarinnar. Ef gert er ráð fyrir því að öll framleiðsluöfl þjóðfélagsins séu nýtt verður fjárfesting, eða aukning framleiðslutækjanna alltaf á kostnað neyslunnar. Verður þá að meta það hvort sú framleiðsluaukning, sem fjárfestingin skapar skilyrði fyrir, sé verð þeirra fórna sem leiða af minni neyslu meðan á fjárfestingunni stendur. Hvað er vert að fórna miklu í þágu aukins hagvaxtar? Í fljótu bragði virðist e. t. v. sem svo, að því meiri sem fjárfestingin sé, því meiri verði hagvöxturinn og því betra. Ef betur er að gáð ætti þó að vera ljóst að þetta er fjarstæða, því að ef við hugsum okkur að öllum þjóðartekjunum væri ráðstafað til fjárfestingar, þá dæju allir úr hungri og það jafnvel þó eingöngu væri um skynsamlega fjárfestingu að ræða í þeirri merkingu, að hún skapaði skilyrði fyrir aukinni framleiðslu síðar.“

Síðan fjallar prófessor Ólafur Björnsson nokkuð um það, sem hann telur vera eðlilega viðmiðun og menn hafi sýnt fram á í þessum efnum og kemst að þeirri niðurstöðu að fjárfesting sé hér miklu meiri en eðlilegt sé að gera ráð fyrir í íslensku þjóðfélagi og reyndar, eins og kunnugt er, meiri að hlutfalli við þjóðarframleiðslu heldur en hjá flestum grannlöndum okkar.

Hann bætir síðan við: „Ein af fleiri skýringum á þeim átökum á vinnumarkaðinum. sem hafa átt sér stað undanfarnar vikur.“ — þetta segir hann 1. des. s. l. —„er vafalaust sú, að fólk vill ekki bera þær byrðar sem hin mikla fjárfesting leggur því á herðar.“

Í framhaldi greinarinnar bendir hann líka á að mistökin séu í því fólgin að fjárfestingin hafi ekki skilað þeim arði sem nauðsynlegt sé. Þannig heldur prófessor Ólafur Björnsson því fram að ekki einasta sé fjárfestingin óeðlilega mikil heldur líka að hún skili ekki þeim arði sem eðlilegt sé.

Að nákvæmlega sömu niðurstöðu kemst Vilhjálmur Egilsson, hagfræðingur Vinnuveitendasambandsins, í erindi sem hann flutti á þessari ráðstefnu og í erindi sem dr. Pétur Blöndal flutti á hinni sömu ráðstefnu er niðurstaðan hin sama, fjárfestingarmistök hafa verið okkur dýr.

Þó það væri vissulega hollt að rekja þessi erindi frekar ætla ég að stilla mig um það að þessu sinni. En það er eitt sem ég hlýt að vekja sérstaka athygli á í sambandi við fjárfestingu og fjármögnun hennar. Það er vaxandi tilhneiging til þess að taka erlend lán í verkefni sem menn treysta sér ekki til að nota skattfé í. sem menn treysta sér ekki til að leggja skattá borgarana til að greiða. Með þessum hætti læðast fjárfestingarmistökin áfram í íslensku efnahagslífi. Og í þessu efni ber Alþingi ríka ábyrgð.

Ég sagði áðan. herra forseti. að tillögur mínar gerðu ráð fyrir því að erlendar lántökur yrðu 940 millj. kr. lægri en meiri hlutinn gerir ráð fyrir. Í nál. er rakið hvernig þessi frávik eru. Ég ætla hér að rekja þessa lækkun í fáeinum atriðum.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að lán ríkissjóðs vegna A- og B-hluta verði 96 millj. kr. lægri en gert er ráð fyrir í tillögum meiri hluta fjh.- og viðskn. Ég geri ráð fyrir því að í það verkefni sem hefur verið kallað vegna rannsóknarverkefna og nýrra atvinnugreina í landbúnaði verði upphæðin 70 millj. kr. lægri en í tillögum meiri hlutans. Það felur í sér að það framlag sem ætlað er til landbúnaðar sérstaklega verði ekki 60 millj. heldur verði það skorið niður og í annan stað að með tilliti til þess hversu langt er liðið á árið láti menn sér nægja 40 millj. til svonefndra rannsóknarverkefna. enda hafa reglurnar um það hvernig þessu fé eigi að verja ekki enn þá séð dagsins ljós.

Ég geri líka ráð fyrir lækkun hjá Byggðasjóði um 26 millj. kr. af þeirri einföldu ástæðu að þegar menn standa frammi fyrir því að vinna það verk sem vinna þarf í því að draga úr erlendri skuldasöfnun þá kemur það auðvitað við alla. Og þeirra á meðal verður Byggðasjóður að vera.

Ég geri jafnframt tillögur um það að hjá fyrirtækjum með eignaraðild ríkissjóðs verði lántökur lækkaðar um 294 millj. kr. frá því sem er í tillögum meiri hl. Mestu munar þar um Landsvirkjun þar sem ég geri ráð fyrir lækkun upp á 230 millj. kr. frá tillögum meiri hl. Vitaskuld þýðir það að Landsvirkjun verður að gera nýja samninga um þau verkefni sem eru í gangi. En ég tel að á meðan við getum ekki selt orkuna og meðan við höfum mikla umframgetu í raforkuframleiðslu þá sé með öllu ótækt að auka erlendar skuldir með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Við stöndum einfaldlega frammi fyrir því verkefni að við getum ekki tekið á okkur svona gífurlega vaxtabyrði og það verður að endursemja um þessar framkvæmdir og draga úr framkvæmdahraðanum.

Menn geta spurt: Stendur hér á einhverjum ákveðnum áfanga hjá Landsvirkjun? Nei, það gerir það ekki. En áramót eru ekkert merkilegri dagur en einhver annar dagur í verktakastarfsemi. Og hér er um það að ræða að draga úr framkvæmdahraða og stilla hann af þannig að þessu markmiði verði náð.

Ef hins vegar hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni og nefnd hans skyldi takast að selja raforku, þá tel ég að sé nægilegt svigrúm til þess að auka framkvæmdahraða, því að sú verksmiðja sem þá yrði selt til rís ekki á einni nóttu, hún er mörg ár í byggingu.

Í annan stað geri ég ekki ráð fyrir neinum framlögum til grænfóðurverksmiðja. Þar munar um 24 millj. kr. Menn segja að þessar verksmiðjur hlaði upp birgðum, þær geti ekki selt vörur sínar. Þær verða þá að gera samkomulag sín í milli um verkaskiptingu. En við skulum ekki fara sömu leið með grænfóðurverksmiðjurnar og Áburðarverksmiðjuna. Hún er nánast sett á hausinn og henni stefnt í vandræði með erlendum lánum. Ég geri jafnframt ráð fyrir heldur lægri lántöku til þróunarfélagsins en gert er ráð fyrir í tillögum meiri hl. Þar skeikar um 40 millj. Ég geri ráð fyrir 150 millj. á sama tíma og meiri hl. gerir ráð fyrir 190 millj. Á hinn bóginn geri ég ráð fyrir að þessa lánsfjár verði aflað á innlendum markaði, enda tel ég að þegar um svo gott og þarft verk er að ræða sem þetta þróunarfélag er, sem á að verða hér til atvinnusköpunar, þá eigi menn að geta fengið innient fé til þeirra verka og það eigi að vera innlent fé. Þá er það hlutverk stjórnvalda að vekja þjóðina til vitundar um það að í þetta verkefni verði að afla innlends fjár.

Afgangur tillagna minna varðar sjóðakerfið. Ég geri ráð fyrir heldur lægri framlagi til Stofnlánadeildar landbúnaðarins en gert er ráð fyrir í tillögum meiri hl. Þar skeikar 40 millj. kr. Ég geri ráð fyrir heldur lægra framlagi til Iðnlánasjóðs. Þar skeikar 190 millj. kr. Ég geri ráð fyrir 10 millj. lægra framlagi til Verslunarlánasjóðs og 10 millj. kr. lægra framlagi til Stofnlánadeildar samvinnufélaganna og til Sjávarútvegssjóðs 50 millj. kr. lægra og til Stofnlánadeildar vegna loðdýraræktar 50 millj. kr. lægra.

Þetta er hugmynd að lánaúthlutun Framkvæmdasjóðs sem er 350 millj. kr. lægri en gert er ráð fyrir í tillögum meiri hl. Engu að síður mun Framkvæmdasjóður skv. þessum tillögum mínum hafa rúmlega 400 millj. kr. meira fé til ráðstöfunar en á lánsfjárlögum 1984 þannig að engu að síður er um að ræða frá árinu 1984 mjög verulega aukningu á framlögum til hinna ýmsu greina sem Framkvæmdasjóður leggur til. Árið 1984 voru þetta 1112 millj. kr. en skv. áætlun minni eru það 1532 millj. kr.

Loks geri ég ráð fyrir að Útflutningslánasjóður láti sér nægja 70 millj. kr. í stað 120 millj. kr., en á síðasta ári var hann með langtum lægri tölu. Hér er um margföldun á framlagi að ræða sem ekki verður séður rökstuðningur fyrir.

Þetta er meginefni tillagnanna. Hafi menn hug á að bera þær saman við frv. eins og það liggur fyrir deildinni, eins og Ed. gekk frá því, þá er slíkan samanburð einnig að finna í nál. mínu á þskj. 1171. Ég skal ekki rekja þann samanburð þó að ég teldi rétt að láta hann fylgja með með tilliti til þess að það er út frá þeirri gerð lánsfjárlánafrv. sem deildin vinnur.

Ég hef í þessum tillögum mínum jafnframt gert ráð fyrir því að sá liður sem venjulega er nefndur Til atvinnufyrirtækja og var 1500 millj., þegar Ed. gekk frá honum, hækki í 1600 millj. Það er sama tillaga og meiri hl. nefndarinnar gerir og þá er tekið mið af nýjum upplýsingum sem varða lántökuáform þessara aðila.

Þessu nál. fylgir jafnframt fskj. I sem sýnir heildaryfirlit yfir lántökur skv. þessum tillögum, sundurliðaðar erlendar og innlendar lántökur. Í fskj. II. er lánsúthlutun til opinberra aðila sundurliðuð með sama hætti og venjulega er gert í lánsfjáráætlun og í þriðja lagi er í fskj. III lánsfjáráætlun Framkvæmdasjóðs skv. þeim tillögum sem ég hef hér rakið.

Ég hef nú, herra forseti, gert allnokkra grein fyrir þeim tillögum sem varða einstakar tölur í þeim lánsfjárlögum sem hér eru til umfjöllunar. Ég hef líka bent á fáein atriði sem fella rök að því að nauðsynlegt sé að það skref verði nú stigið að draga úr lántökum eftir því sem frekast er unnt eða a. m. k. að ná þeim áfanga sem ég geri hér ráð fyrir um það að erlend lán okkar vaxi ekki sem hlutfall af þjóðarframleiðslunni milli áranna 1984 og 1985. Það er það markmið sem sett hefur verið með þessum breytingum.

En auk þessa, herra forseti, flyt ég tvær aðrar till. sem eru á sérstökum þskj. Á þskj. 1173 flyt ég till. ásamt Svavari Gestssyni. Sú till. gerir ráð fyrir sérstakri nýrri grein sem bætist við lánsfjárlögin. Þessi till. fjallar um það að fjmrh. fái heimild til þess að gefa út á árunum 1985 og 1986 verðtryggð ríkisskuldabréf, en án vaxta, sem nýta megi til þess að flýta verkáföngum sem gert hefur verið ráð fyrir að vinna síðar skv. vegáætlun. Gjalddagi bréfanna yrði á því ári sem verk það, sem fyrir var greitt, skyldi unnið skv. vegáætlun. Notkun þessarar heimildar er bundin því skilyrði að fengnar hafi verið tillögur frá Vegagerð ríkisins og samþykki fjárveitinganefndar. Þessi heimild er um allt að 150 millj. kr. og tekur bæði til áranna 1985 og 1986.

Ég tel að með þessu ákvæði mundu skapast auknir möguleikar til þess að nýta slaka í verktakastarfsemi til þess að vinna að vegagerð. En verktökunum yrði hins vegar einungis greitt fyrir slík verk sem yrði flýtt með þessum skuldabréfum og þau yrðu að bjóða í verkin út frá því. Það má segja að hér sé í rauninni um að ræða nokkra útvíkkun á því fyrirkomulagi sem hefur viðgengist varðandi það að verktakar hafa flýtt verkum milli ára þótt greiðsla ríkissjóðs bærist ekki fyrr en síðar.

Í öðru lagi er till. á þskj. 1174 um heimild til fjmrh. til að veita einfalda ríkisábyrgð vegna lána fiskeldisstöðva hjá Norræna fjárfestingarsjóðnum.

Það er tillaga mín að lánsfjárlögin verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef hér rakið. Ég tel að með þeim hætti megi ná auknu jafnvægi í efnahagslífinu og stuðla að því að skapa sjávarútveginum þá um leið betri rekstrarstöðu. Við værum þá ekki að hætta efnahagslegu sjálfstæði okkar með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í tillögum meiri hl. og við værum að vinna að betri lífskjörum á Íslandi jafnframt því að auka svigrúm til kjarabóta með því að draga úr fjárfestingu. Vitna ég um þetta atriði m. a. til þess erindis sem Ólafur Björnsson prófessor hélt nýlega og ég rakti hér fyrr.

Ég hef nú, herra forseti, rakið þessar tillögur allar og rökstuðning fyrir þeim. En ég vil að lokum geta þess varðandi tvær hinar síðari tillögur sem ég reifaði hér, varðandi ábyrgðarheimild vegna lántöku hjá Norræna fjárfestingarsjóðnum vegna lána sem fiskeldisstöðvar geta þar fengið, og eins varðandi heimild til að gefa út ríkisskuldabréf til þess að flýta verkáföngum í vegáætlun, að ég hyggst draga þessar tillögur til baka, eins og sagt er, til 3. umr.