10.06.1985
Efri deild: 93. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6114 í B-deild Alþingistíðinda. (5564)

528. mál, jarðræktarlög

Frsm. minni hl. (Kolbrún Jónsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hl. hv. landbn. um frv. til l. um breyt. á jarðræktarlögum, nr. 79 29. maí 1982. Minnihlutanefndarálitið er á þskj. 1202.

Eins og fram kom hjá hv. frsm. meiri hl. n. hefur þetta frv. verið allskamman tíma í meðförum hjá hv. landbn. og er með ólíkindum hvað það hefur staldrað stutt við. Ég tók mér því tíma nú um helgina og fór betur í gegnum ákvæði þess því hér er verið að styrkja beint, gefa mönnum fjármagn og við tökum skv. því ákvörðun um það á hv. Alþingi hversu háar upphæðir hver og einn fær í sinn vasa sem gjöf frá ríkinu. Ákvæði VI er nýmæli, þ. e. að það má styrkja um al(t að 40% af innkaupsverði kælivéla vegna garðávaxtageymslna og rafstrengja sem lagðir eru sérstaklega í þessu skyni, svo og súgþurrkunarblásara með aflvél. Til þess að glöggva mig á þessu hafði ég samband við forsvarsmenn ræktunarmála í nágrenni stór-Reykjavíkursvæðisins, þ. e. á Suðurlandi, og bar undir þá hvort það væri virkilega mikil þörf á því að þeir væru styrktir meira en nú er í því skyni að koma upp varanlegum geymslum með kælivélum til þess að geyma kartöflur. Þeir tjáðu mér að flestallir þeir bændur sem hafa kartöflurækt sem aðalbúgrein væru nú þegar komnir með kælivélar í sínar geymslur þannig að þetta komi þeim ekki til góða. Þeir voru mjög mikið á móti því að nú væri verið að auka styrki til þessarar búgreinar þegar samkeppnin er orðin allmikil og uppskera nægir innanlandsmarkaði oftar en ekki. Þar af leiðandi væri verið að mismuna mönnum í þeirri samkeppni sem nú á sér stað. Þetta fannst mér reyndar líka bagalegt þegar litið er á þá staðreynd að hv. formaður þeirrar nefndar sem um þetta mál fjallar, hv. 11. landsk. þm. ef ég man rétt, Egill Jónsson bóndi á Seljavöllum, er einn af kartöfluræktendum hér á landi. Hann er bæði höfundur að þessu frv. og formaður þeirrar nefndar sem um þetta frv. fjallar. Þar af leiðandi gæti einhverjum dottið í hug að hér kæmu til eigin hagsmunir. Þó að ég vilji ekki halda því sérstaklega fram er mér þó kunnugt um að hann hefur ekki fram að þessu byggt sér geymslu og gæti því vel fengið aukinn styrk út á þetta lagafrv. verði það að lögum. Ég læt þetta hér með koma fram því að þessu er ég kunnug. (SkA: Ætli hann sé að byggja hlöðu kannske?) Já, þar að auki er rétt sú ábending sem hér kom fram, að sá ágæti bóndi mun vera að byggja votheyshlöðu. (DA: Turn.) Það er víst sama og hlaða eftir þeirri skilgreiningu sem hér kemur fram.

Til þess að glöggva mig nánar á hversu mikið þetta væri í upphæðum, miðað við þá styrki sem á undanförnum árum hafa gilt eða gilda, get ég tekið dæmi um 400 fermetra geymslu og þar er talað um styrki varðandi geymslu fyrir garðávexti en ekki votheyshlöðurnar. Út á 400 fermetra geymslu mætti fá um 240 þús. í beinan styrk, auk þess sem kælivél mun kosta í kringum 240–250 þús. með rafbúnaði. Þetta er verð frá því fyrr í vetur og hér ríkir verðbólga, þannig að hér er um 80–100 þús. kr. að ræða sem fást í styrk ef fullnýtt eru þau 40% af innkaupsverði sem kveðið er á um í þessari mgr.

Svo er það rafstrengurinn. Það fer náttúrlega eftir fjarlægð frá stofnstreng að kartöflugeymslu hvað sú upphæð gæti orðið há. En ekki er úr vegi að áætla, ef þetta eru um 400–500 metrar og er þá vægt tekið til orða, að kostnaðurinn við sjálfan strenginn sé í kringum 35 þús. kr. og það er beinn styrkur úr ríkissjóði.

Vegna þessa tel ég að hv. landbn. ætti að taka þetta frv. aftur til athugunar og fara náið ofan í hversu mikil þörf er á þessum styrkjum og hvort ekki megi beina því fjármagni, sem ég a. m. k. þori að fullyrða að er ekki þörf fyrir í mörgum tilfellum hér til nýrra búgreina án þess að hækka þá heildarupphæð sem við erum hér að skipta.

Í þeim kafla sem ég hef verið að fjalla um er áætlað að auka framlög um nær 11 millj. kr. frá því sem áður hefur gilt, bæði frá núgildandi lögum og þeim ákvæðum sem féllu úr gildi við síðustu áramót og þessum lögum er ætlað að taka við af ef samþykkt verða. Það er ansi há upphæð ef litið er til þess hvað miklu fé á að verja til loðdýrabúa, en það eru 18.8 millj. Skjólbeltin fá 400 þús. og gróðurhúsin 1.9 millj. En hækkunin varðandi heygeymslur o. fl., eins og þar stendur, er 11 millj. Þar er heildarupphæðin 35.2 millj.

Ég ætla ekki hér og nú að gera tillögur um í hvaða nýjar greinar ætti að verja þessu fjármagni, enda er ég ekki í stakk búin til þess, en ég tel það til vansa fyrir hv. landbn. að taka ekki frv. þó ekki væri nema til viku meðhöndlunar í nefnd og skoða það betur en hingað til hefur verið gert. Þess vegna legg ég til að málið verði tekið upp á nýjan leik. Að öðrum kosti mun ég ekki styðja þetta frv. og greiða atkv. gegn þeirri hækkun sem þarna kemur fram.