10.06.1985
Efri deild: 93. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6115 í B-deild Alþingistíðinda. (5565)

528. mál, jarðræktarlög

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Á síðustu dögum þingsins Í fyrra áttum við hv. 11. landsk. þm. Egill Jónsson og sá sem þetta mælir nokkur orðaskipti í þessari hv. deild um kartöflumál og ég átti eiginlega ekki von á því að það yrði mitt hlutskipti síðustu daga þessa þings að koma upp og taka upp hanskann fyrir hv. þm. Egil Jónsson í þeim málum.

Það má vera að þau ummæli, sem hv. 8. landsk. þm. viðhafði í ræðustól áðan, hafi verið fremur sögð í gamni en alvöru. Öllu gamni fylgir þó nokkur alvara. Þegar beinlínis er látið í það skina að þm. í þessari deild, og í þessu tilviki hv. þm. Egill Jónsson, styðji frv. og flytji hér mál vegna þess að hann hafi af því persónulegan hag og hagsmuni, þá get ég ekki orða bundist, einkanlega þar sem umræddur þm. er ekki einu sinni staddur í deildinni og hefur ekki tækifæri til að svara þessum ásökunum sem vera má að hafi frekar verið settar fram í gamni en alvöru. Ég vildi eiginlega mælast til þess að umr. yrði ekki lokið öðruvísi en að hv. þm. Egill Jónsson ætti þess a. m. k. kost að heyra hvað hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir sagði um hann og hans afstöðu til málsins og svara því þá ef hann telur svaravert.

Ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara og skal gera nokkra grein fyrir því í hverju hann er fólginn. Hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir hefur gert grein fyrir þeirri afstöðu sinni að hún leggur til að frv. verði fellt. Ég skal játa að ég get tekið undir eitt og annað í sambandi við þær röksemdir sem liggja að baki því að rétt væri að fella þetta frv., en þá verða menn að gera tillögur um einhverja aðra skipan mála vegna þess að þetta mál er þannig vaxið að verði frv. fellt núna hækka framlögin skv. jarðræktarlögunum mjög verulega frá því sem verið hefur í gildi að undanförnu, þ. e. þá falla öll skerðingarákvæði niður og framlögin hækka, fara í gamla vitlausa farið ef ég má leyfa mér að segja sem svo.

Þetta frv. er engan veginn gott og ég er langt frá því að vera ánægður með það. Það er rétt að koma ætti meira til móts við nýjar búgreinar og það ætti að lækka ræktunarframlög meira en gert er, en við getum sagt að það séu þrír kostir í málinu.

Í fyrsta lagi er hægt að flytja nýtt frv. um enn þá meiri skerðingu. Ég hef enga von til þess að slíkt frv. mundi ná fram að ganga þannig að það er ekki raunhæfur kostur.

Þá er næsti kostur að fella þetta frv. Þá mundu framlögin hækka mjög verulega.

Þriðji kosturinn, sem er engan veginn góður, er að samþykkja þetta frv., samþykkja þær breytingar sem það gerir ráð fyrir sem eru í rétta átt þótt þær nái allt of skammt og séu hvergi nærri nógu róttækar. Með því er a. m. k. nokkurn veginn haldið í horfinu um þetta mál.

Nú eru jarðræktarlögin öll í heildarendurskoðun, það hefur komið hér fram, og ég vil bíða með miklar mótmælaaðgerðir þangað til ég sé þá endurskoðun, í hverju hún er fólgin. Ég vona að henni ljúki sem fyrst. Þá er rétt að gera brtt. og kappkosta að fá fram breytingar. En eins og þetta mál stendur núna mundi það að fella frv., þó að það hljóði eins og öfugmæli að fella frv. um þau framlög sem frv. gerir ráð fyrir, hafa í för með sér hækkun framlaganna. Svo öfugt sem það hljómar, þá er það staðreynd. En með því að samþykkja frv. yrði um að ræða nokkra lækkun.

Ég endurtek að ég er alls ekki sáttur við þetta frv., en af þeim þremur kostum sem ég hef hér lýst og ég tel að séu fyrir hendi í málinu er þessi skömminni skástur eins og málið stendur núna og þess vegna mun ég ekki leggjast gegn afgreiðslu þessa frv., en hvet hæstv. landbrh. til þess að gera nú þær ráðstafanir er duga mega til þess að flýta endurskoðun jarðræktarlaga þannig að endurskoðað frv. um þau efni geti legið fyrir þinginu sem fyrst.