10.06.1985
Efri deild: 93. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6118 í B-deild Alþingistíðinda. (5568)

528. mál, jarðræktarlög

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Ég hafði að vísu kvatt mér hljóðs áður en hv. 8. landsk. þm. tók til máls, en ég verð að styðja það mjög eindregið að ekki sé skilið svo við þessa umr.hv. þm. Egill Jónsson fái ekki að svara hér til saka því vissulega voru bornar á hann sakir. Það má náttúrlega ekki við svo búið standa, að hann fái ekki tækifæri til þess, enda grunar mig að til máls hefði hann tekið að aflokinni ræðu hv. 8. landsk. þm.

Ég ætlaði að segja að mér finnst frv. sem hér liggur fyrir vissulega spor í rétta átt. Að mínum dómi er þó e. t. v. ekki gengið jafnlangt og ég hefði vænst með tilliti til svokallaðs samkomulags formanna stjórnarflokkanna frá því í haust. Skv. mínum skilningi á því samkomulagi skyldi stefnt að því, kannske ekki í einu lagi en það skyldi stefnt að því að framleiðsluaukandi aðgerðir yrðu ekki styrktar. Nú má sjálfsagt deila um hvað séu framleiðsluaukandi aðgerðir, en ég vildi spyrja annaðhvort hv. varaformann landbn. eða þá hæstv. landbrh. hvort vitað sé um hve mikla tilfærslu á fjármunum yrði að ræða á þessu ári frá framleiðsluaukandi aðgerðum, — hvað sem það nú er, væntanlega þá jarðræktarstyrkir, styrkir til áburðarkjallara og þess háttar,— til nýrra búgreina, og þá helst í krónum, ekki í prósentum, ef þessi áætlun er til sem ég ekki veit. Vera má að þetta hafi komið fram í umr. einhvers staðar, en ég hef þá misst af því.

Mér finnst líka að fyrst verið var að endurskoða þessar greinar á annað borð þrátt fyrir að eftir sé, eins og upplýst hefur verið, að endurskoða lögin í heild sinni hefði annaðhvort mátt fella niður eða umorða eitthvað fleira í greinunum. Ég vek athygli á lið III í 1. gr. frv.: „Grjótnám úr ræktunarlandi, þar sem grjót er ekki seljanlegt, kr. 65 or. m3.“ Ég veit nú ekki hvað or. þýðir. og ég veit ekki heldur hvort seljanlegt grjót numið úr ræktanlegu landi er mikið, hvort mikið er selt af grjóti slíku. Vera má að svo sé. Ekki veit ég það.

Um annað vildi ég spyrja, annaðhvort hæstv. ráðh. eða hv. þm. Davíð Aðalsteinsson: Vita þeir hvort mikið er veitt til kölkunar á túnum í dag og hvort þörf sé á sérstakri grein um það í lögum?