06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

92. mál, sérdeild við sakadóm Reykjavíkur

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Í svari mínu kom fram að ég hefði lagt það til að farin væri sú fljótvirkasta leið sem hægt væri til að bæta úr þessum málum fyrir sakadómi, þ.e. með fjölgun starfsliðs, án þess að tekin væri afstaða til þess hvernig skipulagningunni yrði háttað í framtíðinni. Og ef það er einhver skortur á pólitískum vilja þá held ég að ekki sé rétt að ásaka dómstólana um það. Þeir eru sjálfstæðir og óháðir. En að því leyti sem komið gæti til greina að pólitískur vilji hefði áhrif á þetta væri það í sambandi við fjárveitingar til dómstólanna. Það er Alþingi sem ákveður þær fjárveitingar. Því hefur dómsmrn. ekki eitt forráð yfir.

Ég vil taka undir það að ákaflega nauðsynlegt sé að reyna að hraða afgreiðslu mála hjá dómstólunum og hef látið þá skoðun mína oft í ljós. Hins vegar verðum við að gæta þess að gera ekki þá kröfu svo stífa að þar sé ekki gætt fyllsta réttaröryggis í meðferð mála. Við vitum það að ýmis mál, fjársvikamál sérstaklega, eru það flókin að það tekur því miður alltaf langan tíma að fara rækilega í gegnum þau. En varðandi þetta sérstaka atriði, hvort það mundi greiða fyrir framgangi mála að hafa deild innan sakadóms sem sérstaklega hefði þetta með höndum, þá hefur það verið stefnan hér undanfarin ár að fækka dómstólum. Þess vegna væri það stefna í öfuga átt að fara að búa til sérdómstóla. Nú er að vísu ekki svo langt gengið í þessu. Þarna er aðeins lögð til sérdeild og þarna væri því um að ræða verkaskiptingu innan sakadóms sem ætla mætti að gæti verið jákvæð að sumu leyti, en þó hafa dómarar sem sagt verið á móti því að sérhæfa það algerlega. Og þess vegna hef ég óskað eftir því að fá afstöðu réttarfarsnefndar til þessa og leggja það að því búnu fyrir Alþingi. (JS: Hvenær lýkur þeirri endurskoðun?) Ég get ekki fullyrt það eins og er en ég mun reyna að ýta á eftir því eins og kostur er.