15.10.1984
Efri deild: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

10. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Hér fer auðvitað fyrst og fremst fram umræða um það frv. sem lagt hefur verið fram og mælt fyrir, þ.e. frv. um breytingar á framleiðsluráðslögunum, að sölulaun verði aldrei hærri en 2% af útflutningsverðmæti.

Ég vildi koma því að í þessari umræðu að fyrir 1965 voru þegin sölulaun af verðmæti útfluttra mjólkurafurða miðað við verðmæti þess útflutnings, en ekki miðað við óniðurgreitt heildsöluverð eins og ég hygg að raunin sé nú. Ég vil taka undir þau sjónarmið, sem ég hygg að liggi fyrst og fremst að baki þessum tillöguflutningi, þ.e. að það fyrirkomulag sem nú gildir hvetji ekki til þess að reynt sé að fá hærra verð fyrir viðkomandi vöru á erlendum mörkuðum. Á hitt er að líta að þegar t.d er um að ræða sölu á sauðfjárafurðum, á dilkakjöti, þarf að selja fleira en aðeins lærin og hrygginn, það þarf helst að selja allan skrokkinn. Það gefur auga leið að hæst verð fæst fyrir þá hluta skrokksins sem ég nefndi. Þá leiðum við aftur hugann að því: Er einhver fáanlegur til að selja þá hluta skrokksins sem augljóslega fæst miklu, miklu lægra verð fyrir? Ég efast ekki um að flm. hefur hugað að þessu og hefur sjálfsagt uppi tillögur um hvernig því sem og öðru í þessu sambandi verði fyrir komið.

En vegna prósenta sölulaunanna ætla ég að segja nokkur orð. Svo ég taki dilkakjötið, þá hefur verið miðað við óniðurgreitt heildsöluverð að hausti. Sú verðviðmiðun hefur alla jafna gilt út viðkomandi söluár þannig að þegar dæmið hefur verið gert upp í lok söluárs hefur prósentan í raun verið 1.65% og upp í 1.85%, en ekki 2% eins og alltaf hefur verið um talað í umr. nú. Ég skal ekkert um það segja hvort þetta breytir einhverjum viðhorfum að því er varðar frv., enda gildir það mig einu.

Á liðnu þingi var aðeins vikið að útflutningi sauðfjárafurða, dilkakjöts. Þar er einmitt að því vikið að frá 15. sept. og til og með ágúst 1983 hafi ein og sama verðviðmiðunin gilt að því er varðar töku sölulauna.

Virðulegi forseti. Ég held ég fari ekki fleiri orðum um þetta atriði. Ég vil ekki gera mikið úr því hvert þetta mál fer, hvort það skuli fara til fjh.- og viðskn. Hins vegar læt ég mér til hugar koma að ástæðan fyrir þeirri till. að málinu skuli vísað til fjh.- og viðskn. séu atvikin á liðnu vori, ég geri frekar ráð fyrir því. En enda þótt svo fari að málinu verði vísað til fjh.- og viðskn. munum við í hinni frægu endurskoðunarnefnd um framleiðsluráðslögin — og ég á þann heiður að sitja í nefndinni og hv. 11. landsk. þm., hann kemur mikið við sögu í þessu máli öllu, — ekki gleyma afurðasölumálunum eins og útflutningnum á landbúnaðarafurðum og hvernig honum verður best fyrir komið, m.a. með tilliti til þeirrar þóknunar sem aðilar fá fyrir umfjöllun á þeim varningi, enda þótt mótuð hafi verið framleiðslustefna, ef ég má svo að orði komast. Við hv. 11. landsk. þm. biðum nú nokkuð eftir henni því að þar þurftu að okkar dómi óhjákvæmilega fleiri menn að koma við sögu en ágætir nm. í endurskoðunarnefnd framleiðsluráðslaga. Við vildum að fleiri bændur tækju þátt í þeirri stefnumörkun en við hv. þm. Egill Jónsson. (EJ: Það mundi nú duga.) Já. – Það varð að ráði að bíða eftir áliti og óskum heildarsamtaka landbúnaðarins, ekki síst með tilliti til þess að við værum sem flestir saman ábyrgir fyrir því sem væri verið að gera, og kannske ekki síst til að ítreka þann vilja okkar hv. 11. landsk. þm. að um þessi mál myndaðist þjóðarvilji. Ég vona að hv. 2. þm. Austurl. misskilji ekki fyrri hluta orðsins og niðurlag raunar líka.

Ég vil taka undir það, sem hv. þm. hafa komið að, að endurskoðun framleiðsluráðslaganna þurfi að hraða. Ég vil endurtaka að forsendan fyrir skynsamlegum vinnubrögðum og forsendan fyrir því að gera eitthvað í þeim málum var óhjákvæmilega að marka heildarramma. Það er tilgangslaust að setjast niður og lesa saman lagatexta án þess að vita hvert menn stefna. En ég vil þó vara við því að menn séu of bráðlátir. Við skulum ekki gleyma því að við ætlum að vanda það sem lengi skal standa þó ég sé ekki þar með að segja að þessi endurskoðun verði gerð af slíkum myndugleik að hún muni standa á meðan land rís úr sæ. Það má enginn taka það þannig. Flest mannanna verk verða ævinlega til endurskoðunar með tilliti til framþróunar.

Ég geri frekar ráð fyrir að það komist meiri skriður á þessa endurskoðun en hingað til hefur verið af ástæðum sem þegar hafa verið tíundaðar og ég vænti þess að menn skilji.

Það má e.t.v. segja að mesta vandaverkið fyrir margumrædda endurskoðunarnefnd framleiðsluráðslaga sé að leitast við í sínum tillöguflutningi að standa að þessu máli öllu þannig að samdrátturinn verði ekki einn og sér, heldur komi eitthvað í staðinn. Það fer ekki hjá því að við verðum að hafa hugfast að framleiðslustefna í hefðbundnum búgreinum, sem sett hefur verið fram, varðar ekki einvörðungu bændur. Það er langt frá því. Þessi mál öll varða í mjög ríkum mæli fjölmörg byggðarlög og afkomu þeirra. Þetta veit ég að öllum hv. alþm. er fullkunnugt um. Þess vegna er mikilvægt að í öllu þessu starfi myndist ríkur skilningur fyrir því að þarna þarf eitthvað að koma í staðinn sem fólkið hefur atvinnu við, en jafnframt þokkalega lífsafkomu af.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að fara út í almennar umræður um landbúnaðarmál. Hér var fyrst og fremst verið að tala um einn lítinn þátt, en þó nokkuð stóran samt, þátt sem ekki má gleymast, söluþóknun af útflutningi landbúnaðarafurða. Þrátt fyrir að stefna hefur verið sett fram um samdrátt af því tagi að framleiðsla hefðbundinna landbúnaðarafurða verði í sem ríkustum mæli miðuð við innanlandsþarfir er augljóst að um nokkur næstu ár — raunar felur stefnan það í sér — verði töluverður útflutningur á landbúnaðarafurðum. Því er nauðsynlegt að huga að þessu máli.

Mér skildist á hv. þm. Stefáni Benediktssyni — og er ég þá að lesa milli línanna — að þessi prósenta sé í sjálfu sér ekki aðalatriðið. Prinsippið er það að taka prósentu af söluverðmæti útflutnings. 2% eru ekki föst í hendi hv. þm. ef ég skil hann rétt. Og ég sé að hann kinkar til mín kolli.