10.06.1985
Neðri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6132 í B-deild Alþingistíðinda. (5604)

456. mál, Byggðastofnun

Frsm. 3. minni hl. (Guðmundur Einarsson) (frh.):

Herra forseti. Þar sem réttilega hefur verið úrskurðað að ég sé hér í tæplega miðri ræðu þá ætla ég að halda áfram máli mínu um Byggðastofnun. Þar var komið sögu að leikurinn hafði borist til þess að ræða hið almenna efnahagslega umhverfi sem fólk og fénaður í þessu landi býr við. Því hafði verið lýst í stuttu máli að sá hefði verið skikkur stjórnvalda nú lengi að reyna að hafa stjórn á efnahagslífi með ýmiss konar stórvirkum aðgerðum í efnahagsmálum. Þar má nefna aðgerðir eins og miðstýrða kjarasamninga, samninga sem eru gerðir á einum stað fyrir mikinn fjölda fólks og hafa þýðingu mjög víða í efnahagskerfinu. Þar má einnig nefna fiskverðssamninga sem sömuleiðis eru gerðir fyrir landið svo að segja í heild með aðild ríkisvaldsins. Þar má nefna búvöruverð sem er eitt dæmið enn um þessar algildu stórvirku stjórnunaraðgerðir í efnahagsmálum. Enn má nefna gengi sem er önnur aðferðin sem aftur og enn virkar almennt og víða.

Menn geta hugleitt hver áhrif þessi siður hinnar stórvirku efnahagsstjórnunar hafi á rekstur einstakra eininga. Menn geta t. d. velt fyrir sér hvaða áhrif þetta efnahagsumhverfi hefur á bóndann og hver hvatning það verður honum til að standa vel að rekstri sínum og framleiðslu. Þættir eins og afurðaverð, áburðarverð, lánskjör, þ. á m. vextir, ýmiss konar styrkir og ýmiss konar aðgerðir eru gersamlega utan áhrifasvæðis hins einstaka bónda. Hann má teljast heppinn ef hann hefur vitneskju um þessar aðgerðir sama árið og framleiðslan fer fram. Sumar þessara ákvarðana eru ekki teknar fyrr en eftir að framleiðslan er löngu komin af stað og eftir að til hefur verið sáð. Þess eru dæmi, trúi ég, að verð á áburði hafi verið ákvarðað eftir að búið var að bera á og menn vita mætavel um afurðaverð og lánskjör og styrki, hversu handahófslega oft er staðið að þessum málum og hversu mjög það gerist úr tengslum við hið daglega rekstrarumhverfi bóndans.

Herra forseti. Mér þætti ekki verra ef forsrh. væri viðstaddur þessa umr. Þetta er líklega eitt af óskabórnum hans sem hér er rætt um. (Forseti: Þá skal ég gera ráðstafanir til þess að kanna hvort hæstv. forsrh. er í húsinu.)

Við getum spurt okkur svipaðra spurninga fyrir iðnfyrirtæki í útflutningi. Þar eru laun ákveðin á einhverjum kontórum, ekki í fyrirtækinu sjálfu. Lánskjör, eins og í dæminu um bóndann, eru ákveðin gersamlega einhvers staðar annars staðar. Gengi er ákveðið án tillits til þess hvernig á stendur. Afurðalán og hlutföll einstakra mynta, þ. e. SDR, eru ekki í neinu samhengi við það hvernig framleiðslu viðkomandi er háttað.

Mér er kunnugt um eitt ágætt dæmi um iðnfyrirtæki norðan heiða sem neyddist skv. venjum skrifræðisins til að taka afurðalán í SDR. Gengistapið á afurðalánunum nam um 10% launakostnaðar í fyrirtækinu. M. ö. o., eins og forstjóri þessa fyrirtækis sagði, ef hann hefði fengið að ráða vægi hinna einstöku mynta sem að baki afurðaláninu stóðu hefði hann getað hækkað laun starfsfólksins um 10%. Og eins og hann sagði áfram: Ég er ekki í gengisspekúlasjón, ég er að framleiða hérna ákveðnar vörur og ég vil útrýma gengisáhættunni úr mínum rekstri. — Það er ekki hægt vegna þess að á einhverjum kontór hér í Reykjavík sitja náungar með reiknistokka og reikna út það sem þeim finnst þægileg viðmiðun, að fólk og fyrirtæki um allt land taki afurðalán í SDR, það er svo þægilegt að reikna það.

Þetta er eitt dæmi um efnahagsstjórnun sem er gersamlega úr takt við það sem menn telja að eigi að gerast í dag þar sem áherslur allar eru að beinast frá hinum stórvirku, alhæfu efnahagsstjórnunaraðgerðum til fyrirtækjanna sjálfra. Eins og forstjórinn fyrir norðan segir, ef hann fengi t. d. að ráða erlendum lántökum og fengi að taka lán sjálfur hjá erlendum bönkum þá hefði hann getað hækkað laun starfsfólksins í sínum fyrirtækjum um 10%. Á heimavellinum vita menn hvar skórinn kreppir og auðvitað eiga þeir að fá að ráða þessum málum.

Það má rekja um þetta mörg dæmi. Það sem ég held að menn eigi virkilega að fara að spyrja sig er hvort tímabil hinna stórvirku, alhæfu aðgerða í efnahagsstjórn sé ekki liðið. Ég tel að raunveruleg byggðastefna, eins og ég hef lýst fyrr í þessu máli mínu og gerði þegar umræða fór fram um þetta síðast, verði til á þann hátt að vald og verkefni flytjast heim í héruð. En um leið og slíkri fylkjaskipan yrði komið á er nauðsynlegt að breyta algerlega um stefnu í efnahagsstjórn ríkisins almennt. Þess vegna á að gefa gengisskráningu frjálsa og koma upp gjaldeyrismarkaði. Það eitt út af fyrir sig mundi færa stórkostleg verðmæti á heimavöll þar sem framleiðendur fengju raunverulegt sannvirði þeirrar framleiðslu sem þeir hafa upp á að bjóða. Fyrirtækin ættu sjálf að geta fengið lán í erlendum bönkum og samið um lánskjör í stað þess að eiga nú lánskjörin undir því hvernig misvitrir sjóðsstjórar í Reykjavík semja við erlendar fjármálastofnanir og velta síðan afleiðingunum af óskynsamlegum lántökum yfir á varnarlausan atvinnurekstur í landinu. Dæmi um þetta er það sem ég nefndi áðan um SDR-lánin og stórkostlegasta dæmið eru dollaralánin þar sem óhagstæðri lántöku var beinlínis neytt upp á fólk út um allt land. Atvinnurekstur er víða í stórkostlegum öngum vegna þess núna.

Það þarf að verða gerbreyting á bankastarfsemi í landinu þannig að í landshlutum verði til raunverulegar fjármálastofnanir en ekki svona innheimtukontórar fyrir gíróseðla eins og nú er. Ofan á þennan grundvöll, ofan á þessa gerbreyttu stefnu í efnahagsstjórn, þarf síðan að byggja kerfi valddreifingar, kerfi fylkisstjórna og frumkvæðis í heimahéraði. Þá breytist kannske til batnaðar. Stjórnarskrárbreytingar í átt til fylkjaskipulags verða einskis nýtar ef ríkisvaldið sleppir ekki ofstjórnartaumunum í þessum dæmum sem ég rakti áðan.

Hvaða áhrif hefur það fyrirkomulag sem nú er? Það skapar og byggir upp paradís alls kyns fyrirgreiðslustarfsemi, enda sést það á því að nú kjósa flokkarnir í allar dreifingarstöðvar fjármagnsins í landinu, bankaráðin og alla sjóðina, og þeir kalla það lýðræði. Það er kallað lýðræði að þingflokkar kjósi menn í bankaráð.

Duglegir menn á heimaslóð þurfa síðan milligöngu þingmanns síns til að koma óskum sínum um fjárhagsaðstoð eða hugmyndum sínum í atvinnumálum til skila. Þeir þurfa milligöngu þingmannsins. Hvar stendur í íslenskri stjórnarskrá að þetta sé lýðræði? Þetta er ekkert lýðræði. Það stendur alls ekki í stjórnarskránni að það þurfi að kjósa menn á Alþingi til þess að vera sjóðsstjórar eða bankastjórar. Af hverju eiga t. d. Akureyringar að fara í gegnum póstlúguna hjá hv. þm. Halldóri Blöndal ef þeim dettur eitthvað gott í hug í atvinnumálum? Alls ekki, þeir eiga að geta sótt vald, fé og aðstoð á heimavelli. Þeir þurfa ekkert á stórbankastjórum eins og hv. þm. Halldóri Blöndal og Stefáni Valgeirssyni að halda í þeim efnum enda voru þeir alls ekki kosnir til þeirra erinda. Þeir voru kosnir til að vera löggjafarmenn og setja öllum landslýð almenn lög en ekki bara fólki Norðurlands eystra.

Þetta breytist ekki við það að þetta frv. um Byggðastofnun verði að lögum. Þess vegna m. a. er þetta ónýtt frv. Þetta frv. er þvert á móti að viðhalda tryggð kjósenda við póstlúgur þingmanna sinna. Mætti þess vegna kannske kalla það „Tryggðastofnun“ fremur en Byggðastofnun vegna þess að enn þá stendur ósjálfræðið á heimaslóð og enn þá stendur þetta valdarán þeirra sem hafa sest að kjötkötlunum. Þess vegna þarf allt aðra stefnu. Manni virðist reyndar að með þessu frv. um Byggðastofnun séu menn að leita allra annarra leiða en þeirrar einu sem getur gengið, sem er sú að ljá fólkinu sjálfu völd og áhrif.

Ef ég sný mér nú, herra forseti, að frv. sjálfu nánar og ef ég gef mér að þetta frv. um Byggðastofnun verði samþykki þá vantar algerlega móttökustöðvarnar heima í héraði. Þetta er eins og að byggja sendistöð fyrir útvarp en það eru engin útvarpsviðtæki til að taka við þessum útsendingum. Það sem menn eru að tala um hérna með Byggðastofnun er að setja upp glæsilegan kontór með djúpum stólum og fínum skrifborðum — sem við skulum þó vona að verði innlend smíð — en það er hvergi einu orði vikið að því hvernig þessari dýrð eigi að koma til skila til fólksins. Það eru engin viðtæki, það eru engin móttökutæki heima í héraði, eins og framkvæmdastjórar landshlutasamtakanna bentu í raun og veru á með þögn sinni um þetta frv. Þeir mættu á fund nefndarinnar og þeir höfðu í raun og veru ekki neitt um þetta frv. að segja almennum orðum. Þeir sögðu ósköp einfaldlega: Okkur þykir miður að það er búið að þurrka út einu greinina sem við gátum byggt raunverulega fjárhagsaðstoð frá Framkvæmdastofnun á. Með ákveðinni grein, sem var í frv.. fengu landshlutasamtökin fjárhagsaðstoð frá Framkvæmdastofnun. Nú er búið að taka þá grein út. Þetta var þeirra eina efnislega afhugasemd. Þögn þeirra um önnur atriði sagði í raun og veru: Okkur þykir þetta frv. að öðru leyfi einskis nýtt og ekki umræðuvert. Þeir sögðu t. d. að ef menn væru að velta fyrir sér raunverulegri byggðastofnun kæmu þeir strax auga á það að það vantar allan lagaramma utan um starfsemi landshlutasamtaka. Sá lagarammi hefur ekki verið settur vegna þess að menn geta ekki komið sér saman um hvort eigi að styðja og styrkja starfsemi landshlutasamtakanna eins og hún er núna eða hvort gera eigi róttækar stjórnkerfisbreytingar eins og að byggja upp héraðsstjórnir eða koma á fylkisstjórnum. Þetta er hið raunverulega viðfangsefni í byggðamálum á Íslandi.

Viðfangsefnið er ekkert uppi á Rauðarárstíg 25, 3. hæð t. v. Það skiptir engu máli hvað menn kalla kontórinn og það skiptir engu máli hvernig þeir snúa skrifborðunum þar. Þetta frv. gengur bara út á innanhússarkitektúr í Framkvæmdastofnun. Það kemur ekki að kjarna málsins sem er valddreifing, sem er sjálfræði og völd fólks á heimaslóð og hvernig viðtæki eigi að setja upp á heimavelli til að taka við útsendingum hinnar dýrlegu Byggðastofnunar þegar þar að kemur.

Þetta er eitt meginatriði í þessu máli. Þegar að því kemur að velta því fyrir sér hvernig þessum málum skuli hagað heima fyrir þá vil ég benda á enn og aftur tillögu BJ um þróunarstofur landshlutanna sem var flutt á þinginu í fyrra og endurflutt á þinginu í vetur, þar sem bent er á raunverulega leið til að koma þessu valdi heim og þar sem fjallað er um hvers kyns frumkvæði — (Forseti: Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann eigi miklu ólokið af ræðu sinni. Ef svo er mundi fundi verða frestað.) Já, ég á þó nokkuð eftir að ræða og ég á líka eftir að eiga orðaskipti við hv. þm. Halldór Blöndal sem ég sé að er ekki hér núna í skrifarasæti sínu. Ég tel að fyrst þessi tími er útrunninn að sinni sé rétt að við hefjum þessa umræðu aftur síðar þegar hann er við. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Nú hefjum við lesturinn þar sem greinir frá þróunarstofum landshlutanna og nú þætti mér vænt um ef hv. þm. Halldór Blöndal væri viðstaddur. (Forseti: Forseti gerir reka að því að ná í hv. þm.)

Herra forseti. Ég get svo sem rakið aðdraganda þessa máls. Ég var að ræða um það að ég tel það lykilatriði í sambandi við Byggðastofnun og byggðastefnu að menn taki til þess greinilega afstöðu hvernig frumkvæði og forræði þessara mála eigi að vera á heimaslóð. Það sem ég tel vera stærsta ágalla frv. um Byggðastofnun er að því máli er þar alls ekki sinnt. Eins og kom fram þegar framkvæmdastjórar landshlutasamtakanna mættu á fund fjh.- og viðskn. er enginn lagarammi til í landinu um það hvernig samstarfi manna á heimaslóð skuli vera háttað. Þetta hefur gengið vandræðalaust, a. m. k. vandræðalítið, fram að þessu þar sem samstarf þessara aðila, sveitarstjórna og sveitarfélaga, hefur ekki tekið til mjög fjárfrekra mála, þ. e. það hefur yfirleitt verið um samstarf að ræða, skrifstofuhald af einhverju tagi, áætlanagerðir og annað þess háttar þar sem ábyrgðir eru ekki stórar og menn greinir ekki á vegna þess að leiðir hagsmuna kunna að skerast. En þegar verkefnin, sem tekin eru heim, verða stærri og fjármunirnir, sem fjallað er um, verða meiri er nauðsynlegt að um það séu settar ákveðnar reglur.

Eins og nú stendur er samstarfið í landshlutunum farið að gjalda þess að ekki eru til raunverulegar reglur um það og virk lög. Ástæðan er sú að menn tvístíga yfir því: Eigum við að lögleiða landshlutasamtökin eða eigum við að fara þá leiðina að gera þar miklar breytingar á í formi héraðsstjórna eða fylkisstjórna? Nú sé ég að hv. þm. Halldór Blöndal er genginn í salinn og þá ætla ég að víkja máli mínu þangað sem eru þróunarstofur landshlutanna.

Í framsögu minni fyrir nál. mínu minntist ég á það að þróunarstofur landshlutanna væri tillaga BJ um það hvernig þessum málum ætti að vera hagað á heimaslóð. Hv. þm. Halldór Blöndal hafði þau orð um það að þessar stofur væru raunar lítils virði, stássstofur eða puntstofur nokkrar, og virðist halda því fram að Akureyri væri best borgið með honum sjálfum háttvirtum og Byggðastofnun þegar hún yrði þangað komin, eða „Tryggðastofnun“ eins og hún ætti kannske frekar að heita. Mér þótti heldur miður hversu lítilsvirðandi orðum hv. þm. fór um frumkvæði og sjálfstæði heimamanna í þessum efnum.

Það sem tillögur BJ um þróunarstofur landshlutanna leggja áherslu á er einfaldlega það að heimamenn í samtökum sem þeir raða sér í og skipa sér í sjálfir taki ákvörðun um þessi mál og þurfi ekki að fara í gegnum póstlúgu hv. þm. hérna fyrir sunnan. Það er nefnilega lykilatriði þessa máls, að það þarf ekki að gera lítið úr því að settar séu sjálfstæðar stofur í landshlutunum til þess að sinna þessum verkefnum.

Um orðavalið „stofur“ vil ég segja það að ýmsar merkar stofnanir í þessu landi, sem sinna miklum og merkilegum verkefnum, hafa hlotið þetta nafn og eru ekki til stáss heldur sinna mikilvægum og verðugum verkefnum. Ég nefni Reiknistofu Háskólans sem dæmi og verkfræðistofur ýmsar. Orðavalið er því vel við hæfi.

Þar sem um er að ræða samstarfsvettvang þeirra sem heima í héraði fjalla um þessi mál, iðnþróun og skipulag ýmiss konar sem varða landshlutana, og af því að mér heyrðist á hv. þm. að hann hefði ekki lagt vandlega niður fyrir sér þessar hugmyndir BJ vil ég lesa þessa þáltill., með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta semja frv. til l. um þróunarstofur landshlutanna. Frv. þetta feli m. a. í sér eftirtalin atriði:

1. Þróunarstofur hafi forgöngu um mótun byggðastefnu og veiti alhliða ráðgjöf á öllum sviðum atvinnulífs.

2. Stjórnir þróunarstofa séu skipaðar fulltrúum lýðræðislega kjörinna landshlutasamtaka og vísast þar til hugmynda Bandalagsins um fylkisstjórnir.

3. Þróunarstofur hafi sjálfsforræði um áætlanagerð, ákvarðanatöku og fjármagnsútvegun.

4. Þróunarstofur standi í nánum tengslum við byggða- og áætlunardeild núverandi Framkvæmdastofnunar sem verði sjálfstæð stofnun undir umsjón félmrn.

5. Þróunarstofur skulu m. a.:

a) sjá um gerð og framkvæmd byggðaáætlana. Sé leitað til Alþingis eftir fjármagni til stuðnings byggðaáætlunum og það fjármagn samþykki á fjárlögum, skulu þróunarstofur bera ábyrgð á veitingu fjárins í samræmi við áætlanir,

b) vera sameiginlegur vettvangur þess ráðgjafarstarfs sem þegar fer fram á ýmsum sviðum,

c) varðveita iðnþróunarsjóði landshlutasamtaka og

d) starfa í tengslum við landshlutastofur ríkisfyrirtækja.“

Það sem gert er með þessum tillögum er að forma raunverulegan samstarfsvettvang allra þeirra aðila sem að þessum málum vinna heima í héraði og að þeir vinni undir forræði lýðræðislega kjörinna stjórna. Þetta er nefnilega lykill málsins og það er skorturinn á einhverju þessu formi sem gerir það frv. um Byggðastofnun sem liggur hér fyrir algerlega ónýtt.

Eins og ég sagði í umr. fyrr í dag er Byggðastofnun, eins og hún er skv. fyrirliggjandi frv., eins og útvarpsstöð sem sendir út en hefur engin viðtæki til móttöku. Það vantar viðtæki. Það sem þarf að gera er að byggja byggðastefnuna þannig upp að úti í landshlutunum séu sendistöðvarnar og þar geri menn prógrömmin og þar sendi þeir út innan síns svæðis. Síðan þarf að vera í Reykjavík eða einhvers staðar eins og segir í till., byggða- og áætlanadeild, þ. e. að safnað sé saman upplýsingum, gengið sé að því að henda reiður á þeim upplýsingum sem varða miklu á landsvísu og að þessi stofnun sé upplýsingamiðlunarstofnun fyrir orkubú byggðastefnunnar úti í landshlutunum, það er grundvallaratriðið. Slíka lausn á þessum málum verða menn að finna. Annað er algerlega til einskis. Mér finnst ekki við hæfi að tala lítilsvirðandi um stofu sem leggi áherslu á frumkvæði og sjálfstæði heimamanna.

Sumir hafa haft á orði að það sé ekki beinlínis árennilegt að láta heimamenn leysa þessi mál sín vegna þess að þeim komi yfirleitt það illa saman að þeir vilji helst hafa fjarlægt vald til viðureignar. Málið er það að þeir verða einfaldlega að leysa úr þessum málum, þeir verða að finna til þess form og þeir munu finna til þess form og það er leiðin sem á að fara. Þetta var innlegg um þróunarstofur landshlutanna og það er hreint ekkert skoplegt í þessari hugmynd. Þetta er leið sem hefur verið farin víða erlendis þar sem menn hafa sett upp staðbundnar byggðastofur sem þessar og lagt einmitt á það ríka áherslu að þær hafi frelsi og frumkvæði. Byggðastofur sem þessar hafa margar hverjar náð mjög miklum og merkilegum árangri.

Nú vildi ég víkja máli mínu frá þróunarstofum og að tiltekinni grein þessa frv. hér, nánar tiltekið 4. gr. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Stjórn Byggðastofnunar skal skipuð sjö mönnum, kosnum hlutfallskosningu í Sþ. að afstöðnum almennum þingkosningum. Kosnir skulu jafnmargir varamenn. Forsrh. skipar formann og varaformann úr hópi hinna þingkjörnu stjórnarmanna. Formaður stjórnarinnar boðar hana til funda. Á stjórnarfundum ræður afl atkvæða. Forsrh. ákveður þóknun stjórnarinnar.“

Þarna er komið að mjög mikilvægu atriði. Þarna er komið að því að það virðist vera um það nokkuð gott samkomulag hjá hinum gömlu flokkum þingsins að það sé engum efasemdum háð að löggjafarvaldið geti framlengt sig eftir kosningar inn í hinar ýmsu stofnanir samfélagsins. Þar er um að ræða stjórnir ýmissa stofnana og félagssamtaka, stjórnir fyrirtækja eins og sementsverksmiðju, áburðarverksmiðju og fleiri slíkra. Það er aldeilis furðuleg stefna að gera svona sjálfvirkt ráð fyrir því að hlutföll. sem fást í kosningum til löggjafarþings, séu á þennan hátt framlengd inn í hinar ótrúlegustu stofnanir eins og Sementsverksmiðju ríkisins. Hvers vegna á það að birtast í stjórn Sementsverksmiðju ríkisins hvernig atkvæði skipast í almennum kosningum á landinu til löggjafarþings? Sumir munu telja þetta lýðræði og þeir munu segja að það sé skerðing lýðræðis ef þingflokkar á Alþingi fá ekki lengur að kjósa í stjórn Sementsverksmiðju ríkisins. Ég segi: Það er rugl. Lýðræði er ekki það að framlengja þessi hlutföll úr alþingiskosningum inn í hinar ólíklegustu stofnanir og inn á hina ólíklegustu kontóra samfélagsins. Lýðræði er það að meiri hlutinn fær að ráða og minni hlutinn hefur til þess formlegar aðstæður að hafa áhrif og hann nýtur ýmiss konar réttinda, fundafrelsis, málfrelsis, prentfrelsis o. fl. til að reyna að verða meiri hluti og reyna að láta það lánast að betur gangi næst. En það þarf ekki að vera lýðræði í þeirri framkvæmd sem gert var ráð fyrir, allavega í árdaga, að það fylgi sjálfkrafa ef menn eru kosnir sem fulltrúar á löggjafarsamkundu þjóðarinnar að umboð þeirra framlengist, angar þessa valds framlengist inn í hina ýmsu kontóra framkvæmdavaldsins. Alþingi framlengir sig á þann eina hátt að það getur af' sér ríkisstj. og það er ríkisstj. sem ræður þessum kontórum. Það er ríkisstj. sem skipar stjórn sementsverksmiðjunnar og það er ríkisstj. sem skipar útvarpsráð ef menn á annað borð vilja vera með útvarpsráð. Til þess eru þeir kjörnir, til þess eru þeir settir upp. Þeir eru framkvæmdavaldið. Það sem Alþingi getur síðan gert er að hafa með því þinglegt eftirlit í gegnum nefndir sínar og réttindi til þess að kalla menn fyrir að eftir lögum og reglum sé farið og að engir séu misrétti beittir. En það er misbeiting þessarar aðferðar að kjósa á Alþingi inn á þessa kontóra.

Það sem við þekkjum að gerist er það að þegar búið er á Alþingi að kjósa í þessar stjórnir, hvort sem það er stjórn sementsverksmiðjunnar, bankaráð eða hvað sem er, mynda þessir fulltrúar flokkanna á Alþingi skjaldborg um þessa starfsemi og varna því að eðlilegt eftirlit af hálfu þingsins fari fram vegna þess að fulltrúi tiltekins flokks í tiltekinni stjórn kemur í veg fyrir að flokkssystkini hafi þarna eftirlit, poti þarna í, stingi kannske á einhverjum kýlum. Í stað þess að tryggja opna framkvæmd lýðræðis lokar þessi aðferð virku lýðræði og virku eftirliti. Það er það sem er svo rangt. Það á að leggja á það áherslu að það er ríkisstj., hvort sem hún er til þess nefnd af Alþingi eða kosin í sérstökum kosningum eins og annars staðar tíðkast, sem hefur framkvæmdavaldið og hún hefur fullt umboð til þess að fara með það og hún á að skipa í stjórnirnar og ráðin, eins og ég segi.

Ef við tökum t. d. dæmi af útvarpsráði þá er mér kunnugt um að t. d. í Bretlandi eru tvær stofnanir. Annars vegar er ráð sem er kannske hliðstætt útvarpsráði hér og hins vegar er nefnd sem er aftur hliðstæð áformaðri útvarpsréttarnefnd hér. Þetta ráð og þessi nefnd eru skipuð af Home Office sem er innanríkisráðuneytið. Já, það er innanríkisráðuneytið sem skipar útvarpsréttarnefnd og útvarpsráð þeirra. Starfsmenn eða nefndarmenn í viðkomandi nefndum eru ábyrgir gagnvart ráðherra sem síðan er ábyrgur gagnvart þingi. En engar krókaleiðir í gegnum þingflokka á þingi. Þetta er grundvallaratriði. Með þessari framkvæmd er tryggt að aðilar á þingi eiga virkan aðgang til eftirlits með framkvæmd. Þetta er mál sem ástæða er til að vekja athygli á vegna þessarar 4. gr. þar sem enn er farið þá leiðina að láta kjósa á þingi til þessa máls.

Af því að ég var að tala um útvarpsráð eða útvarpsréttarnefnd þeirra Bretanna eða hliðstæðurnar við það sem við höfum hér, þá er mér líka minnisstætt þegar fyrrv. þýskur útvarpsstjóri lýsti göllum kerfisins sem var við tiltekna útvarpsrás þar í Þýskalandi. Ég man nú ekki lengur hvaða rás það var nákvæmlega en hann lýsti því hvernig sama hugmynd og framkvæmd var þar og hérna, þ. e. að pólitískir flokkar á þingi og síðan fulltrúar ýmissa samtaka úti í þjóðfélaginu í þokkabót hjá þeim höfðu hreinlega eyðilagt heilbrigða framkvæmd útvarpsstefnu hjá þeim. Í staðinn fyrir að fylgt væri ákveðinni stefnu á ábyrgð einhvers tiltekins aðila, sem mætti síðan taka á beinið ef mönnum sýndist svo, varð úr þessari framkvæmd vonlaus samsuða, enginn ábyrgur, ekki neinni raunverulegri stefnu fylgt, heldur gutlað við eitt og annað allt eftir því hvernig samkomulagi menn náðu í hrossakaupum í útvarpsráði. Ég held að mjög mikilvægt sé að menn geri sér grein fyrir þessu og hugsi sig vandlega um hvort þessari viðteknu venju hér, að láta Alþingi kjósa inn á kontórana, skuli haldið áfram eða hvort menn séu í raun ekki sannfærðir og sammála um að þetta sé ekki rétt beiting lýðræðis heldur geti miklu frekar orðið hrein misbeiting þess. Framkvæmdavaldið á að hafa með framkvæmd þessarar stefnu að gera og Alþingi á að hafa eftirlit með þessu. Ábyrgðin er ríkisstjórnarinnar en á ekki að dreifast milli fulltrúa hinna einstöku þingflokka sem þarna kunna að eiga setu. Þetta var um 4. gr. og það sem henni tilheyrir.

Herra forseti. Ég læt nú þessum kafla ræðu minnar lokið en mun væntanlega koma hér aftur þegar mér finnst ástæða til vegna þess að það er margt sem þörf er að ræða í sambandi við byggðastefnu og Byggðastofnun. Ég legg áherslu á að þar þarf að huga að heildarskipulagi þessara mála, það þarf að huga að því hvernig að þessu er staðið á heimaslóð. Það þarf að tryggja sjálfræði og frumkvæði heimamanna og það þarf að búa svo um hnútana að stjórn Byggðastofnunar, ef af verður, verði þannig saman sett að Alþingi hafi einhverja möguleika á að hafa eðlilegt aðhald og eftirlit með henni.