10.06.1985
Neðri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6148 í B-deild Alþingistíðinda. (5606)

456. mál, Byggðastofnun

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hér er á dagskrá frv. til l. um Byggðastofnun. Það á vel við að ræða almennt um stöðu og þróun byggðamála í landinu undir dagskrárlið sem þessum. Hér er um það að ræða að skoða hvernig til hefur tekist með þá stofnun sem hefur átt að sinna þessu hlutverki undangengin ár.

Nú gerir stofnunin út af fyrir sig, nafnið eitt, ekkert í þessum efnum og breytir þar engu um hvort viðkomandi heitir Framkvæmdastofnun ríkisins eða Byggðastofnun eins og hér er lagt til. Spurningin er og verður: Hver er stefnan og hver hefur hún verið?

Varðandi þetta frv. eins og það nú liggur fyrir er að mínu viti ekki um neitt annað að ræða en nafnbreytingu frá því sem nú er. Ég verð ekki til þess að halda því fram að Framkvæmdastofnun og Byggðasjóður hafi ekki gert ýmislegt gott í gegnum árin frá þeim tíma sem þau voru á fót sett. En við skulum skoða hver þróun þessara mála hefur verið t. d. undangengin tvö ár. Nú nálgast tveggja ára afmæli hæstv. ríkisstj. (Iðnrh.: Það er liðið.) Það er liðið, fyrirgefið þið, liðið. Ég vissi að hæstv. iðnrh. var klár á því hvenær það var. Það gat vart farið fram hjá jafngætnum og íhugulum hæstv. ráðh. og honum. Tvö ár. Og hvað hefur gerst?

Við vissum að vísu og vitum enn að nokkuð mörg undangengin ár hefur innan vébanda annars stjórnarflokksins, þ. e. Sjálfstfl., verið hópur sem menn hafa gjarnan kallað stuttbuxnadeild Sjálfstfl. og hefur viljað „báknið burt“, eins og menn hafa sagt, en hefur stundað það undangengin ár að láta það kjurt. Þetta eru engin ný tíðindi fyrir neinn hér innan dyra, að ég hygg. Eitthvað varð því hinn stjórnarflokkurinn að láta af hendi rakna til þess að ganga til móts að nafninu til við Sjálfstfl. Lokin urðu þau að skipta um nafn á stofnuninni.

Það hafa nokkuð marga undanfarna daga verið hér til umræðu á Alþingi mál sem snerta byggðaþróun í landinu og þau eru mörg málin sem heyra undir það að hafa áhrif á það hver þróun byggðar í landinu verður. Þó að oft hafi litið illa út hygg ég að nokkuð langt sé síðan jafnilla hefur litið út fyrir landsbyggðina og nú horfir í hennar málum. Það hefur gerst þrátt fyrir það að við höfum Framkvæmdastofnun. Það sem auðvitað ræður því hvernig þessi mál þróast er efnahagsstefnan í landinu, það er sú stefna sem stjórnvöld hafa á hverjum tíma að því er varðar efnahagsþróun og efnahagsmálin. Það skiptir engu máli þó að 2–3 slíkar stofnanir, sem hér er um talað og verið hafa eins og Framkvæmdastofnun, væru til staðar ef efnahagsstefnan er öll á þá lund, eins og verið hefur undangengin tvö ár, að draga skóinn niður af landsbyggðinni, að byggja efnahagsþróunina og efnahagsstefnuna á því að halda öllu hér á stór-Reykjavíkursvæðinu í spennitreyju og spenna þannig upp t. d. byggingariðnaðinn, verslunina, bankastarfsemina, svo að eitthvað sé nefnt, með erlendum lántökum sem eru á útsölu samanborið við það sem undirstöðuatvinnugreinar hér í landinu þurfa við að búa.

Nú fer það væntanlega ekki fram hjá neinum hv. þm. að það er fyrst og fremst landsbyggðin sem aflar þess gjaldeyris sem allt byggist á. Það er hún sem heldur uppi því kerfi sem við búum við. Það er fyrst og fremst sjávarútvegurinn og fiskvinnslan sem halda uppi þessu kerfi. Hver er staða sjávarútvegsins í dag? Ég hygg a. m. k. að þeim hv. þm. hér innan dyra sem eru frá sjávarútvegssvæðunum, sjávarplássunum, fiskvinnslustöðvum, ætti að vera nokkuð ljóst hver þessi staða er. Það er núna að skapast álíka ástand og var á áratugnum 1950–1960 þegar bátaflotinn var mannaður með útlendingum vegna lélegra kjara og besta fólkið úr fiskvinnslufyrirtækjunum gekk út vegna lélegra kjara og óöryggis í atvinnu. Ég hygg að hæstv. forsrh. sé um það kunnugt að t. d. í hans eigin kjördæmi, Vestfjarðakjördæmi, vantar a. m. k. 300 manns í fiskvinnslufyrirtækin. Talið er að vanti a. m. k. 1500 manns í fiskvinnsluna almennt yfir allt landið. Jafnframt er talið að vegna þess mannaskorts, sem þarna er um að ræða og rekja má til lélegra launakjara og óöryggis í atvinnu, tapi þjóðarbúið a. m. k. einum milljarði árlega vegna þess að ekki er hægt að vinna aflann í þær dýrmætu pakkningar sem við þyrftum á að halda.

Það er þegar brostinn á flótti bestu sjómanna úr sjómannastétt af báta- og togaraflotanum. Um það hygg ég að ekki þurfi að deila. Það er þegar brostinn á flótti besta og hæfasta fiskvinnslufólksins úr fiskvinnslufyrirtækjunum. Þetta ástand er sannarlega móðuharðindi af mannavöldum. Þrátt fyrir þessar staðreyndir gerist það eigi að síður nú fyrir nokkrum dögum hér í hv. deild að stjórnarliðið fellir að rétta hlut fiskvinnslufólks nokkuð í atvinnuöryggi frá því sem nú er. Þeir aðilarnir sem hafa launin sín tryggð, hafa atvinnuna trygga, standa að því hér á Alþingi að fella það að nokkuð sé gengið til móts við fiskvinnslufólk til þess að tryggja atvinnuöryggi þess stóra hóps sem þar er um að ræða. Það er mín skoðun að hv. þm., sem þannig haga sér, vilji annaðhvort ekki sjá það eða þeim sé Mátt áfram sama að hverju stefnir í þessum málum.

Er mönnum virkilega ekki ljóst að þegar er brostinn á fólksflótti frá landsbyggðinni hingað á suðvesturhornið, á Reykjavíkursvæðið? Hingað munu nú flykkjast t. d. iðnaðarmenn vegna yfirborgana sem þeir fá hér í sínu starfi en ekki er um að ræða úti á landsbyggðinni og svo mun um fleiri stéttir. Hér er fullur dampur á öllu á sama tíma og gífurleg lægð hefur átt sér stað úti á landi. Þetta vandamál er ekki bara vandamál sjómannanna, fiskvinnslufólksins eða þeirra byggðarlaga sem þarna er um að ræða. Þetta er ekki síður vandamál þeirra einstaklinga sem eru með fyrirtæki í fiskvinnslu og fiskveiðum. Ég hygg t. d. að hæstv. forsrh. sé um það kunnugt að á síðasta ári var tap á fiskvinnslunni bara við Ísafjarðardjúp á annað hundrað milljónir eða sem svarar andvirði eins skuttogara, bara á því tiltölulega litla svæði. Hrein eignaupptaka í þessari atvinnugrein hjá fyrirtækjum nam á annað hundrað millj. kr.

Hér er því um að ræða sameiginlegt vandamál verkafólks og sjómanna, íbúa þessara svæða og forsvarsmanna atvinnurekstrarins í þessari grein. Og hér er aðalbölvaldurinn sú efnahagsstefna sem rekin er af hálfu hæstv. ríkisstj. Það eru fyrst og fremst ráðherrarnir tíu og þeirra fylgdarlið sem hafa orðið þess valdandi með þeirri stefnu sem rekin hefur verið að nú er svo komið sem komið er. Það eru tveggja ára gömlu ráðherrarnir sem eru vandamálið ásamt hinum hlutanum sem þeim fylgir og skipar meiri hluta hér á Alþingi í þessum efnum. (Gripið fram í: Menn eru bjartsýnir.) Já, menn eru bjartsýnir. Það er gott. Jafnvel þeir sem eru búnir að missa niður um sig allt í atkvæðum og ört minnkar hjá, að því er síðustu fregnir herma, fylgi hjá almenningi í landinu. Enn hafa þeir trú á því að þeir verði til þess að vísa tímenningunum frá og skapa betri tíð og blóm í haga.

Við gætum líka farið lengra aftur í tímann. Þó að vandamálið sé vissulega slæmt núna og hefur trúlega sjaldan verið verra, þá var það líka slæmt að þessu leytinu til í tíð fyrrv. hæstv. ríkisstj. sem hv. 7. þm. Reykv. studdi og það dyggilega. Hún varð í mörgum tilfellum þess valdandi að byrjað var að halla undan fæti í þessum efnum á þeim tíma sem sú ríkisstj. var við völd. (KÓ: En þegar Alþfl. var lengst í ríkisstj.?) Það er gott að hv. 10. landsk. þm. er búinn að fá orðið. Honum er ábyggilega orðið mál eftir allan þann tíma sem hann hefur verið úti. Þetta er rétt hjá hv. þm. Hluta af því tímabili sem Alþfl. var við völd ásamt öðrum flokki var ástandið álíka og það hefur verið. Það skal ekkert utan af því skafið og ekkert borið í bætifláka fyrir það á nokkurn hátt. En það bætir ekki ástandið sem nú er eða það sem var í tíð þeirrar stjórnar sem hv. 10. landsk. þm. studdi dyggilega. Fólk lifir ekki á því núna þótt ástandið sé álíka vont og það var þegar hann sjálfur réði ferðinni. Hér eru menn að karpa um þessa mjög svo alvarlegu hluti eins og strákar. Þú varst ekki betri þegar þú varst.

Það er nauðsynlegt að breyta gersamlega um efnahagsstefnu. Vandinn við að ná því marki er það að þríeykið svokallaða, íhald, framsókn og kommar, hefur komið þessu ástandi á sem við búum við og virðist ætla að verða viðloðandi a. m. k. eitthvað enn um sinn. Það þarf því nr. eitt að losna við áhrifavald þessa þríeykis til þess að hægt sé að brjótast út úr þeim vanda sem í þessu máli er við að etja. (SJS: Er þm. kominn með geislabaug?) Ekki væri ég hissa þó að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sæi slíkan geislabaug í kringum þann flokk sem ég tilheyri nú, a. m. k. ef saman er borið við það sem gerist í hans eigin flokki. (PP: Samanborið við flokkana sem hann hefur verið í áður.) Var fjallkóngur þeirra framsóknarmanna eitthvað að segja þarna bak við tjöldin? (PP: Já, reyndar.) Það er nýtt að sjá hann hér í deildinni þessa dagana. Hann elur manninn yfirleitt annars staðar ef eyða á á hann orði hér í deildinni. En hann er greinilega hér nú, en þó bak við, að baki er hann. Eins og menn vita þarf ekki að nefna mann sem var að baki ákveðnum einstaklingi.

Einn er sá þáttur sem er stór í þessum efnum og hefur líka að verulegu leyti orðið valdur að þeirri þróun sem átt hefur sér stað. Það er kvótinn. Það er sú rússneska stefna í stjórnun fiskveiða sem einkaframtaksflokkurinn, Sjálfstfl., hefur haft að leiðarljósi undangengin tvö ár við stjórnun fiskveiða hér á landi. Alræðisvald hæstv. sjútvrh., sem Sjálfstfl. hefur nú afhent honum í tvö ár hér á hinu háa Alþingi til þess að ráðskast með, er einn þátturinn í þeirri óheillaþróun sem hér hefur átt sér stað.

Það er furðulegt ef hæstv. forsrh., sem a. m. k. mælti fyrir þessu hugarfóstri hér í fyrstu, er það ekki ljóst að nú er framið slíkt ranglæti í hans eigin kjördæmi undir handarjaðri flokksbróður hans, hæstv. sjútvrh., að því er varðar stjórnun fiskveiðanna að engu tali tekur. Þm. Vestfjarða hafa nú fengið í hendur undirskriftalista frá smábátamönnum á velflestum stöðum á Vestfjörðum sem núna eru að byrja róðra. Núna er vertíðin að hefjast þar en fiskveiðistefnan skipar svo fyrir að nú skuli þeir liggja í landi vegna þess að bátar annars staðar á landinu eru búnir að veiða þann afla sem hefði verið hægt að leyfa þessum aðilum að veiða. Tugir smábáta, ef ekki hundruð, liggja nú í landi dags daglega á Vestfjörðum vegna þess að stjórnvöld meina þeim að draga fisk úr sjó á handfæri. Hver hefði trúað því, þó ekki hefði verið farið langt aftur í tímann, að flokkur einkaframtaks og frjálshyggju stæði að þeirri löggjöf að það þyrfti sérstakt persónulegt leyfi framsóknarráðherra í ríkisstj. til þess að lifir bátar mættu fara á sjó til að draga fisk úr sjó með handfæri? Hver hefði trúað því að sá flokkur legðist svo lágt? Eigi að síður er þetta staðreyndin í dag. Ég hefði gaman af að spyrja hæstv. forsrh. — hann er að vísu farinn úr salnum — um þetta mál. Vonandi birtist hæstv. forsrh. áður en langt um líður. Meira að segja sá sem að baki var áðan er horfinn líka, hv. þm. Páll Pétursson. Eini ráðh., sem nú situr undir þessum umr., er hæstv. iðnrh. En hvað segir hv. þm.? Jú, honum finnst það tilkomumikið vissulega en það mættu gjarnan vera hér aðrir hæstv. ráðh. sem málið er skyldara en hæstv. iðnrh. þótt hann beri að vissu leyti sína ábyrgð á því.

Ætli hæstv. ráðh. sé það ljóst að nú er um 30% færra starfsfólk í fiskvinnslu en verið hefur undanfarið? Það vantar 30% af besta vinnuaflinu sem skilar mestu verðmætunum í landinu vegna þeirrar stefnu sem rekin hefur verið af hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum. Er von að vel fari þegar slíkt ástand er látið líðast. og ekki bara látið líðast heldur beinlínis að því er virðist markvisst að því unnið að ástandið verði með þeim hætti?

Þetta frv., sem hér er til umr., bjargar ekki þessum málum. Þetta frv. verður ekki til þess að besti starfskrafturinn í fiskvinnslufyrirtækjunum, bestu sjómennirnir á bátaflotanum eða togurunum, komi aftur til starfa. Það eina sem getur bjargað því er að augu stjórnvalda opnist fyrir því að þarna er breytinga þörf og breytingu verður að gera til þess að skapa þessum aðilum þær aðstæður, þau kjör og þann aðbúnað sem mönnum er sæmandi í nútímaþjóðfélagi.

Herra forseti. Við ríkjandi aðstæður dugar ekki nafnbreyting ein og sér til þess að bæta það ástand sem nú er orðið. Ef ekki verður snúið við af þessari óheillabraut á ástandið enn eftir að versna. Það eru ekki uppörvandi fréttir sem við Vestfjarðaþingmenn fáum úr okkar eigin kjördæmi að því er varðar þessi mál. Tugir íbúðarhúsa eru nú á söluskrá vegna þeirra aðstæðna sem búið er að bjóða þessu fólki upp á í eigin heimabyggð. Það gengur jafnvel svo langt að eigendur íbúðarhúsnæðis fara án þess að geta selt sitt eigið húsnæði, án þess að hafa von um að geta selt það. Hafa menn trú á því þegar slíkt ástand er orðið að til baka verði snúið nema róttækar ráðstafanir verði gerðar til að breyta frá því sem er?

Fyrst og fremst er þetta ástæðan, að stjórnvöld með sinni efnahagsstefnu hlúa fyrst og fremst að þjónustuatvinnugreinum í landinu en vanrækja framleiðsluatvinnugreinarnar. Á sama tíma og þetta er að gerast, verkafólki í fiskvinnslufyrirtækjunum, sjómönnunum á flotanum er neitað um réttarbætur, birtast með fárra daga millibili fregnir af annars konar réttarbótum sem einstaklingum í þessu þjóðfélagi er úthlutað. Er þar átt við bílafríðindi bankastjóra, nefndargreiðslur sumra hv. þdm., ég tala nú ekki um sjálft höfuðið á peningavaldinu í landinu sem virðist fá allnokkrar, svo ekki sé meira sagt, ívilnanir varðandi launagreiðslur á sama tíma og láglaunafólki er settur stóllinn fyrir dyrnar. Meðan slíkt siðgæði ræður ferðinni, annars vegar gagnvart launafólkinu í landinu og hins vegar gagnvart öðrum, er ekki við góðu að búast að því er varðar þróun byggðar í landinu, að því er varðar hina smáu og fáu úti á landsbyggðinni.

Herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað grennslast fyrir um það hvort hæstv. forsrh. sé ekki einhvers staðar hér á næstu grösum, þannig að hægt væri að beina að honum spurningu. (Forseti: Það verður athugað hvort hæstv. forsrh. er ekki í húsinu. Hæstv. forsrh. er á leið inn í salinn.) Ég þakka hæstv. forseta fyrir. Ég sé að hæstv. forsrh. gengur nú í salinn. Ég vildi gjarnan spyrja hann hér einnar eða tveggja spurninga sem mér finnst að varði stefnuna í byggðamálum og byggðaþróun og málið heyrir undir hæstv. forsrh. Ég sagði hér áðan að nú fengju þm. Vestfjarða undirskriftalista umvörpum frá trillubátasjómönnum á Vestfjörðum þar sem þeir bæðu um leiðréttingu þess ranglætis sem þeir eru nú beittir og birtist í því að þeim eru meinaðir róðrar vegna þess að aðrir eru búnir að veiða allt það magn, jafnvel meira en það, sem átti að veiða á fyrsta veiðitímabili þess hluta flotans sem ekki tilheyrir beinum kvóta.

Ég hef ekki trú á því að vestfirskir sjómenn uni þessu ástandi, að þeim sé með stjórnvaldsaðgerðum bannað að róa til fiskjar með handfæri og draga fisk úr sjó yfir hábjargræðistímann. Þá mundi ég gjarnan spyrja hæstv. forsrh. sem nú líklega gegnir störfum hæstv. sjútvrh.: Hvernig ætlar hæstv. forsrh., þm. Vestfjarðakjördæmis, að bregðast við þessum eðlilegu óskum vestfirskra trillubátamanna? Ætlar hæstv. ráðh. að einhverju leyti að beita sér fyrir því að hér verði breyting á? Eða ætlar hæstv. ráðh. að halda að sér höndum og gera ekki neitt?

Verði ekkert gert til að leiðrétta þetta mál sem kemur til viðbótar öðrum þeim sem snúa að landsbyggðarfólki þá fullyrði ég að vestfirskir sjómenn muni ekki una því. Þeir munu ekki una því að vera beittir slíku ranglæti. Það er nánast hlálegt að hugsa til þess að skektuhorn, sem kannske einn maður getur verið um borð í, verði að fá leyfi frá stjórnvöldum til þess að mega fara á sjó með handfæri og draga fisk. Þetta er slík ofstjórn og heimska að mínu viti að engu tali tekur. Ég vil gjarnan ítreka spurninguna til hæstv. forsrh.: Hvernig ætlar hann að bregðast við undirskriftalistum vestfirskra trillubátamanna sem ég hygg að hann hafi fengið eins og ég — hann getur fengið ljósrit hafi ekki svo verið? Ætlar hann að beita sér fyrir leiðréttingu? Eða eiga sjómenn vestra að búa við það sem þeir nú búa við, að vera bannað að róa til fiskjar?

Ég skal ekki, herra forseti, lengja þessa umr. meira að sinni. Vel má vera að eitthvað það komi fram hér í umr. síðar sem ástæða væri til að segja meira um, raunar full ástæða til þess þó að ekkert sérstakt kæmi fram frekar. En ég skal ekki verða til þess að lengja þessa umr. frekar að sinni.