06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (562)

94. mál, ólöglegur innflutningur og dreifing ávana- og fíkniefna

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. mjög greinargóð og ítarleg svör við þeirri fsp. sem ég hef hér lagt fram. Ég tel að af svörum hæstv. ráðh. megi ráða að þessi verkefni séu vel á veg komin og ef vel verður staðið að framkvæmdinni jafnhliða megi vænta árangurs í því máli að skipulagðar aðgerðir geti fyrirbyggt frekar ólöglegan innflutning og dreifingu ávana- og fíkniefna. Alli kostar þetta fjármagn og hæstv. dómsmrh. hefur leitað eftir því að fá fjármagn núna á fjárlögum til ýmissa þessara verkefna.

En ég sé ástæðu til þess að spyrja hæstv. dómsmrh. að því, þar sem við fjárlagaafgreiðslu á s.l. Alþingi var samþykkt að heimilt væri að ráðstafa upptækum hagnaði af ólöglegri fíkniefnasölu til fyrirbyggjandi aðgerða í fíkniefnamálum, hvort einhverjar tekjur hafi komið af því á þessu ári, hve miklar þær hafi verið og hvernig þeim hafi þá verið ráðstafað.