10.06.1985
Neðri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6175 í B-deild Alþingistíðinda. (5622)

456. mál, Byggðastofnun

(Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hef því miður ekki átt kost á því að taka þátt í umræðum um þetta mál fyrr en nú fyrir utan það að ég gerði stuttlega grein fyrir nál. mínu og brtt. sem birtast um mál þetta, 456. mál þingsins. Ég tel hins vegar ástæðu til þess, í framhaldi af upplýsingum sem fram hafa komið og umr. um það, að ítreka nokkur aðalatriði í þessum málum sem hér eru á dagskrá eins og þau horfa við af minni hálfu.

Ég vil þá fyrst víkja hér aðeins að brtt. sem flutt er af mér og hv. þm. Halldóri Blöndal á þskj. 1053 við frv. til l. um Byggðastofnun. Till. er á þessa leið:

„Við 1. gr. bætist ný mgr. sem orðist svo: Byggðastofnun hefur heimili og varnarþing á Akureyri.“

Þessi till. hefur vakið upp hér miklar umr. þar sem þm. Norðurl. e. hafa rætt málið allítarlega og sömuleiðis hefur hæstv. forsrh. komið inn á þetta mál hér í kvöld. Ég verð að segja eins og er að ég varð fyrir mjög miklum vonbrigðum með afstöðu hæstv. forsrh. í þessu efni og get ég þó ekki sagt að ég geri mér yfirleitt háar vonir um þann mann í seinni tíð. En skv. útvarpsfréttum núna nýlega mátti skilja hæstv. forsrh. svo að hann teldi eðlilegt að Byggðastofnun yrði komið fyrir á Akureyri.

Þegar svo er gengið á hæstv. ráðh. hér í umr. í Nd. Alþingis og hann spurður í þaula þá kemur í ljós að hann þvælist undan með ótrúlega framsóknarlegu orðalagi. Það er þetta orðalag: „Málið þarf að skoða miklu betur“ og „Ég gæti vel sætt mig við það að stofnunin væri á Akureyri.“ Þetta eru nú sterkar pólitískar yfirlýsingar í lagi, herra forseti, af formanni Framsfl. sem jafnframt er forsrh. þessa lands. Auðvitað er það alveg rétt sem hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur bent á. Auðvitað á Alþingi að taka um það ákvörðun hvar þessi stofnun verður staðsett. Auðvitað er það okkar hlutverk hér á hv. Alþingi að taka um það ákvörðun. Til þess erum við hér. Það er fáránlegt, að ekki sé meira sagt, að vísa máli af þessu tagi eingöngu á stjórn stofnunarinnar eins og hæstv. forsrh. hefur gert.

Ég held að það væri ráð, herra forseti, þó að ég beri mikið traust til forseta Nd., að fara þess á leit við þm. stjórnarliðsins, einn eða tvo auk forseta, að þeir séu hér viðstaddir þessa umr. Og ég vil fara fram á það að hæstv. forsrh. verði kallaður hér inn í þessa umr. Þarna er hann mættur, já. Hann er að fylgjast með bjórnum í efri, hann leggur eyru við stórmálin frekar en þessi smámál sem hér eru á dagskrá.

Ég var að spyrja hæstv. forsrh.: Er það ekki hlutverk Alþingis að taka ákvörðun um það hvar stofnun eins og Byggðastofnun verður staðsett? Auðvitað hlýtur það að vera verkefni Alþingis. En ég verð hins vegar að segja það að ég tel að hin þvælulega afstaða hæstv. forsrh. í þessu máli bendi til þess að stjórnarliðið og Framsfl. ætlist til þess að stofnunin verði hér í Reykjavík. Það sé ákvörðun þessara aðila en þeir þori ekki að segja það. Ég fullyrði að það er ætlun þessara aðila að hafa þessa stofnun í Reykjavík. Meðan þeir ekki styðja till. okkar Halldórs Blöndals á þskj. 1053, meðan þeir ekki skammast til að styðja þá till. og taka afgerandi af skarið í því efni, þá er það ætlun þeirra að stjórna byggðastefnunni í landinu áfram frá Rauðarárstígnum í Reykjavík. En þetta verður að liggja fyrir. Okkur duga ekki svona loðnar formúleringar eins og þær, sem við heyrðum hér í kvöld: „Það þarf að skoða málið miklu betur“ og „Ég gæti vel sætt mig við það að stofnunin væri á Akureyri.“ Ja, fyrr mætti nú rota en dauðrota, að forsrh. sætti sig ekki við það að stofnunin væri á Akureyri. Fyrr mætti nú rota en dauðrota.

Ég held að í þessum efnum sé nauðsynlegt líka, herra forseti, að líta hér aðeins yfir víðara svið þessara mála og spyrja þessarar spurningar: Hvað er það sem skapar mestan vanda í hinum dreifðu byggðum landsins um þessar mundir? Hvaða eitt atriði er hægt að nefna sem veldur þeim stórfellda vanda sem við er að glíma um allt land um þessar mundir og alveg sérstaklega í dreifbýlinu? Hvert er efnahagsvandamál á Íslandi nr. eitt um þessar mundir? Efnahagsvandamál á Íslandi nr. eitt um þessar mundir eru lág laun sem eru að keyra niður sjálfsvirðingu fólks í stórum stíl. Efnahagsvandamál nr. tvö á Íslandi um þessar mundir er vaxtaokrið sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar kom hér á vegna þess að hún hlýddi frjálshyggjuofstækinu í Sjálfstfl. Stuttbuxnadeildin í Sjálfstfl. er með hæstv. forsrh. í tjóðurbandi, hefur verið allan tímann frá því að þessi stjórn var mynduð og er enn — og nú með hv. þm. Pál Pétursson í bandinu líka.

Þessi staðreynd liggur fyrir og það er þessi vandi sem blasir nú við byggðarlögunum í landinu, við bændum, við útvegsmönnum og við húsbyggjendum. Staðan er þannig í hinum dreifðu landbúnaðarhéruðum hér á Íslandi að það liggur við landauðn vegna þess að menn eru að gefast upp fyrir vaxtaokrinu, sem ríkisstj. Steingríms Hermannssonar, leiftursóknarríkisstjórnin hefur komið á. Það liggur við landauðn vegna þessarar fjármagnsokurstefnu Framsfl. Það liggur við landauðn vegna þess að Framsfl. hefur látið undan frjálshyggjuliðinu sem hefur heimtað það að niðurskurður yrði verulegur á niðurgreiðslum landbúnaðarafurða. Þær hafa nú hækkað svo í verði að almenningur, láglaunafólkið í landinu treystir sér ekki lengur til að kaupa þessar vörur. Á fyrri hluta ársins 1985, aðeins á örfáum mánuðum er samdrátturinn í sölu landbúnaðarafurða orðinn slíkur að talað er um að það jafngildi ársframleiðslu 200 grundvallarbúa. Stjórnarstefna ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar hæstv. forsrh. er m. ö. o. að leggja heilu landbúnaðarhéröðin í rúst. Hvað ætli séu margar bújarðir á Vestfjörðum? Hvað ætli séu margar bújarðir samanlagt í kjördæmi hæstv. forsrh.? Samdrátturinn í sölu búvara jafngildir því að búið sé að leggja í rúst verulegan hluta landbúnaðarins í kjördæmi hæstv. ráðh. Þetta er byggðastefnan sem Framsfl. beitir sér fyrir.

Tökum annað dæmi, herra forseti. Tökum stöðuna hjá útgerðinni. Hvaða vandi er það sem er að sliga útgerðarfyrirtæki um allt land? Hvaða vandi er það sem veldur því að fiskvinnslan telur sig ekki geta borgað hærra kaup? Það eru stórkostlega hækkandi fjármagnskostnaður og sú staðreynd sem liggur fyrir að nú eru greiddir hæstu raunvextir sem hafa verið greiddir á Íslandi nokkurn tíma. Það er þetta sem blasir við og það er þetta sem fólkið er að flýja. Það eru afleiðingar af frjálshyggjuofstækinu í framkvæmd, því það verður engri byggð haldið uppi í landinu á grundvelli markaðsofstækisins. Það er ljóst að markaðsofstækið, sem núv. stjórn er að framkvæma, og félagsleg byggðastefna eru ósamrýmanleg. Og það er ömurlegt að horfa á að þm. Framsfl., sem maður heldur að einn og einn hafi kannske einhvern tíma í fortíðinni haft snert af æru, skuli leggja nafn sitt við þessa andstyggð sem er framkvæmd núv. ríkisstj. á byggðamálum í þessu landi. Ég lýsi ábyrgð á hendur þm. Framsfl., sem ganga hér glottandi um sali, gera sér ekki grein fyrir því að þeir eru að leggja dreifbýlið hér meira og minna í rúst. Það er þetta sem menn skulu athuga. Og það er þetta sem þessir menn skulu svara fyrir frammi fyrir sínum kjósendum þegar tækifæri gefst til.

Herra forseti. Fyrir fáeinum dögum var hér á dagskrá mál sem á heima í þessari umræðu um byggðamál og byggðastofnun. Það var mál sem í rauninni var prófsteinn á vilja meiri hluta Alþingis til þess að stuðla að byggð í landinu, prófsteinn sem er miklu, miklu meira virði og merkilegri en þetta frv. um Byggðastofnun sem hér liggur fyrir. Það var prófsteinn á það hvort stjórnarmeirihlutinn hefði skilning á þeim lífskjörum sem fólkið í landinu býr við, fiskverkunarfólkið sérstaklega. Hverjir eru það sem standa undir meginhluta þeirra verðmæta sem þessi þjóð lifir á? Hverjir eru það sem standa undir meiri hluta þeirra verðmæta sem við lifum á, hvort sem við erum þm., læknar eða kennarar? Það er fólkið í sjávarútveginum sem skapar meginhluta þeirra gjaldeyrisverðmæta sem þjóðin lifir á.

Það var flutt hér lítil till. af hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni, formanni Verkamannasambands Íslands, um það að ekki væri hægt að reka þetta fólk með viku fyrirvara úr störfum í fiskverkunarhúsum, jafnvel eftir 30 ára starf. Þessi till. var felld. Hún var felld hér af meiri hl., lögð í líkkistu ríkisstj., eins og hv. 7. þm. Reykv. orðaði það. Vissulega kom það fram að hjá meiri hl. ríkir samúð með þessu fólki. Það kom fram hjá frsm. meiri hl. Og vissulega er það mikil gæfa fyrir fiskverkunarfólkið að vita af hinni ríku samúð sem um er að ræða hjá meiri hl. hér á hv. Alþingi. (FrS:Þetta er rangt haft eftir.) Þetta er nákvæmlega rétt haft eftir, hv. þm. (FrS: Eins rétt og þm. er vanur að hafa eftir.) Vill hv. þm. ekki bara fletta upp í ræðu sinni og koma með hana hér á eftir? Ég veit að hæstv. forseti er tilbúinn að skrá hann á mælendaskrá úr því að hann óskar eftir að gera grein fyrir máli sínu. (FrS: Það hefur þegar verið gert.) Það hefur ekki verið gert með nægilega skýrum hætti. (FrS: Ekki fyrir hv. þm.)

Það sem skiptir máli í þessu efni er að stjórnarmeirihlutinn hafnaði þessu máli, sem er byggðamál, sem er jafnréttismál, sem er mannréttindamál. Það er byggðamál vegna þess að meiri hluti fiskvinnslunnar í landinu fer fram úti um hinar dreifðu byggðir landsins, og meginástæðan til fólksflóttans og öryggisleysisins þar er ástandið í sjávarútveginum, þar sem fólk býr við stöðuga óvissu um vinnu sína frá degi til dags, þar sem fólk býr við þær aðstæður um þessar mundir að það eru stöðugt að koma nýjar og nýjar kröfur á prentarann, tölvuprentarann frá þessum söluhringjum í Bandaríkjunum, Long John Silver og öllu því gengi, nýjar og nýjar kröfur til starfsfólksins í frystihúsunum um það að það geri meiri og meiri og meiri kröfur til sjálfs sín um leið og það hefur lægra og lægra og lægra kaup. Og þessu fólki er um leið boðið upp á það að búa ekki við frumstæðustu mannréttindi. Það má henda því út með viku fyrirvara, jafnvel þó það hafi unnið í frystihúsunum eða fiskverkunarstöðvunum í 30 ár. Þetta frv. var fellt, því var hafnað hér af meiri hl. og þar með afhjúpaði hann stéttareðli sitt. Hann gengur við hliðina á Vinnuveitendasambandinu gegn verkafólki í landinu, hann gengur við hliðina á Verslunarráði Íslands, sem auðvitað ræður stefnu þessarar stjórnar þegar allt er skoðað niður í kjölinn.

Herra forseti. Þetta var mannréttindamál og þetta var byggðamál. En þetta var líka jafnréttismál vegna þess að meiri hluti þess fólks sem starfar í sjávarútveginum í landinu, í fiskverkunarhúsunum allt í kringum landið, eru konur. Í þessari afstöðu meiri hl. er sérstök lítilsvirðing sýnd þeim konum sem starfa við sjávarútveginn. Ég hef oft velt fyrir mér, herra forseti, hvað gæti gerst í þessu landi ef einmitt þessar konur tækju sig saman og skynjuðu það afl sem þær hafa þegar þær leggja saman. Það þarf að gerast. Það þarf að skapa aðstæður til þess að þær geti litið upp úr þrældómnum og bónuskúguninni sem þær búa við, litið upp og skynjað að í sameiningu eru þær afl sem getur ráðið þessu landi svo að segja ef þær vilja, vegna þess að þær halda um sjálfa lífæðina, framleiðsluna, útflutningsframleiðsluna sem þjóðin lifir á, útflutningsframleiðsluna sem er seld fyrir gjaldeyri sem heildsalarnir í Verslunarráðinu fá á færibandi þó þeir leggi aðeins inn litlar nótur til bankans. 11 þúsund manns starfa í fiskvinnslunni í landinu. 5500 manns starfa við heildverslunina. Á móti hverjum tveimur í fiskvinnslunni er einn heildsali. Það má segja líka, herra forseti, að á bakinu á hverjum sjómanni á Íslandi sé einn heildsali. Það er þetta þjóðfélag sem núv. ríkisstjórn Verslunarráðsins og leiftursóknarinnar er að byggja hér upp. En þegar kom að þessu máli þá sýndi meiri hl. hér á Alþingi raunverulegan skilning sinn á byggðastefnunni, á byggðavandamálum á Íslandi, því þarna var komið að kvikunni, lífskjörum þess fólks sem lifir í hinum dreifðu byggðum Íslands.

Herra forseti. Ég held að þetta mál hafi kannske verið betri prófsteinn á afstöðu ríkisstj. til byggðamála en flest annað.

Ég leyfi mér þessu næst að rifja það upp, herra forseti, að á þskj. 1079 flyt ég nokkrar brtt. auk þeirrar till. sem ég hef nú rætt um í sambandi við flutning á stofnuninni til Akureyrar. Ég geri till. um það í fyrsta lagi að Byggðastofnun heyri undir félmrh. Og hvaða rök skyldu nú vera fyrir því að stofnunin heyri undir félmrh.? Jú, félmrh. fer samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands með málefni sveitarfélaganna. Hann fer með jöfnunarsjóð sveitarfélaganna og ber þannig ábyrgð á veigamiklum þætti byggðamála í landinu. Ég tel eðlilegt að byggðamálin verði í félmrn. svo að þar fáist yfirsýn yfir byggðamálin öll, en ekki sé verið að slíta þau í sundur á milli rn. eins og gert er með núverandi skipan.

Mér er kunnugt um það að auk þess sem Alþb. hefur lagt á það áherslu í gegnum árin að félmrh. fari með þessi mál, þá hefur Alþfl. flutt frv. á Alþingi þar sem gert hefur verið ráð fyrir því að Byggðastofnun heyri undir félmrh. Og af þeim sökum er það, herra forseti, að ég flyt þessa till. og að einnig í fjórðu brtt. minni á þskj. 1079 er gert ráð fyrir því að félmrh. fari með þessi málefni.

Nú skulum við ímynda okkur, herra forseti, að svo ólíklega færi að fyrsta brtt. mín á þskj. 1079 yrði felld og þá stæði eftir að stofnunin heyrði undir forsrh. Ef svo færi, herra forseti, þá væri eðlilegt að víkja við einu orði í 2. málsgr. 4. brtt. minnar. Ég mundi sem sagt ekki líta svo á að sú till. væri sjálffallin þó að fyrsta till. væri fallin, heldur líta þannig á að þá breyttist sjálfkrafa í fjórðu brtt. orðið „félmrh.“ í „forsrh.“

Önnur brtt. mín gengur út á það að þóknananefnd ákveði kjör stjórnar Byggðastofnunar fyrir nefndarstörf og stjórnarsetur. Það held ég að sé skynsamlegt. Það gæti að vísu þýtt það að laun stjórnarmanna Byggðastofnunar yrðu eitthvað lægri en nú er um að ræða í Framkvæmdastofnun, um það skal ég ekki segja, ég þekki ekki hvaða laun þeir menn eru með sem sitja í stjórn Framkvæmdastofnunar. En það gildir mig einu, ég tel að það væri eðlilegra að þóknananefnd hefði með þessi mál að gera.

Í þriðja lagi legg ég svo til að 6. gr. orðist svo: „Stjórn Byggðastofnunar ræður einn forstjóra til sex ára í senn til að annast daglega stjórn stofnunarinnar. Kjaradómur ákveður laun og starfskjör forstjóra.“ Hér er ég með till. um að stjórn Byggðastofnunar ráði bara einn forstjóra, en í frv. eins og það liggur fyrir frá meiri hl. er greinilega opnað fyrir það að forstjórar geti orðið tveir. Það stafar af því að stjórnarflokkarnir ætla að fá hvor sinn forstjóra. Það er þessi fræga helmingaskiptaregla, framsókn fær einn og íhaldið einn. Og þá er ekki verið að spekúlera í því hvort stofnunin er lítil eða stór. Það er sem kunnugt er erfitt að skipta einum manni í tvennt milli íhaldsins og framsóknar, þó að það sé nú margt líkt með skyldum í seinni tíð, og þess vegna er hér gerð till. hjá stjórninni um að stofnunin hafi forstjóra, eða eins og það stendur hér, herra forseti: „Verkefni stjórnar Byggðastofnunar eru m. a. þessi: 1. Að ráða forstjóra.“ Þetta orð lítur eins út bæði í eintölu og fleirtölu. Á bak við þessa orðmynd leynist sú hugmynd stjórnarflokkanna að hola einum manni hvor inn í Byggðastofnunina.

Ég hef ekki upplýsingar um það, herra forseti, hver það er sem á að fá þennan bitling. En það væri fróðlegt að vita það því að ég geri ráð fyrir því að stjórnarflokkarnir séu fyrir löngu búnir að braska um það. Þeir eru vanir að vera fljótir að semja um svona lagað þó annað vefjist fyrir þeim. Hvaða þm. ætli það séu sem stjórnarflokkarnir þurfa nú að losa sig við á næstunni? Hvaða þm. ætli það séu sem stjórnarflokkarnir þurfa helst að losa sig við? Hvaða þm. eru óþekkastir við stjórnarmeirihlutann af þm. stjórnarliðsins hér á hv. Alþingi? — Það skyldi þó ekki vera að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson eigi að vera annar forstjóri Byggðastofnunarinnar? Eða það skyldi þó ekki vera hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson? Þarna færu tveir góðir saman, eins og hv. 5. þm. Austurl. bendir á, það er rétt hjá honum. Hvaða menn eru það sem stjórnarliðið þyrfti helst að koma af höndum sér núna hið fyrsta? Mér detta helst í hug þessir menn vegna þess að þeir eru stundum uppi með röfl við stjórnarmeirihlutann og eru ekki tilbúnir að samþykkja hvað eina sem stjórnarmeirihlutanum dettur í hug.

En það er bersýnilega ætlunin, herra forseti, að búa hér til tvær góðar stöður, eins og það heitir, til þess að geta komið mönnum fyrir þannig að það fækki á listunum einhvers staðar í næstu kosningum og það auðveldi aðeins prófkjörsslaginn hjá íhaldsflokkunum tveimur. Ég hef enga trú á því að það séu hv. þm. Ólafur G. Einarsson og hv. þm. Páll Pétursson sem ætla sér að verða forstjórar Byggðastofnunar. Það skyldi ekki vera? Það skyldi þó ekki vera að formenn þingflokka stjórnarliðsins ætli sér að fara í þetta? Það er a. m. k. örugglega vissara fyrir framsóknarmenn að reyna að tryggja sér góðar stöður eins og þetta er kallað í stjórnarbraskinu með stöður og bitlinga um þessar mundir.

Ég geri till. um það, herra forseti, að ráðinn verði einn forstjóri því að það er nóg. Og ég geri till. um það að forstjórinn verði ráðinn til sex ára í senn þannig að gert verði ráð fyrir því að það gildi um þennan forstjóra endurnýjunarregla, að ekki verði hægt að ráða mann þarna til eilífðar heldur aðeins til takmarkaðs tíma og miðað við að ráðningartíminn verði sex ár. Ég held að þetta sé í raun og veru ein nauðsynlegasta endurbót á okkar stjórnkerfi sem hægt er að gera, að setja þá allsherjarreglu að forstjórar ríkisstofnana verði ráðnir til eins og sex ára í senn.

Það hefði t. d. verið gott hjá Alþfl. þegar hann réð Jóhannes Nordal á sínum tíma, en Jóhannes var sérstaklega ráðinn af Alþfl. eins og kunnugt er, það hefði verið gott fyrir Alþfl. að ráða þá Jóhannes Nordal til sex ára. Það hefði verið skynsamleg niðurstaða t. d. miðað við yfirlýsingar núv. formanns Alþfl. um að það þurfi að reka Jóhannes sem Gylfi réð á sínum tíma.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar í fullri alvöru, herra forseti, að eitt brýnasta og erfiðasta úrlausnarefni stjórnkerfisins sé þráseta æðstu embættismanna er skapi stórkostlega erfiðleika við að knýja fram pólitískar breytingar jafnvel þó að sterkur pólitískur vilji sé á bak við, meiri hluti Alþingis. Ég held þess vegna að hér sé skynsamlegt að staldra við og setja þá reglu að forstjóri Byggðastofnunar (eða forstjórar) verði ráðinn til sex ára í senn. Það verði ekki byrjað á eilífðarráðningu eins og nú virðist vera gert ráð fyrir.

Síðan legg ég til að Kjaradómur ákveði laun og starfskjör forstjóra. Það geri ég til þess að þeir ákveði ekki laun og starfskjör hvor hjá öðrum, þessir tveir forstjórar stjórnarflokkanna sem þarna er víst meiningin að setja. Ég treysti þeim ekki til þess. Reynslan af því hvernig þeir skammta sjálfum sér kaup og kjör er ekki þannig að Alþingi geti verið sæmandi að horfa á slíkt gerast.

Í fjórða og síðasta lagi, herra forseti, flyt ég eftirfarandi brtt.:

„Í starfi sínu skal Byggðastofnun hafa samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga, sveitarstjórnir, þróunarfélög og aðra heimaaðila eftir atvikum. Stofnunin getur gert samstarfssamninga við slíka aðila um áætlanagerð og aðra skipulega starfsemi.

Áætlanir, sem fela í sér tillögur um aðgerðir á sviðum sem heyra undir ýmis rn., skulu sendar félmrh. sem gerir ríkisstj. grein fyrir þeim. Viðkomandi rn. skulu síðan fjalla um tillögur Byggðastofnunar.

Byggðastofnun fylgir eftir framkvæmd samþykktra byggðaáætlana. Áætlanir skal endurskoða eftir því sem tilefni eru til.“

Nú vil ég upplýsa, herra forseti, að ástæðan til þess að ég flyt þessa till. er fyrst og fremst sú, að það liggur fyrir sú ákvörðun frá meiri hl. á Alþingi, að óbreyttu frv., að höggva algerlega á samskiptin við landshlutasamtök sveitarfélaga. Það er vísvitandi stefna meiri hl. framsóknar og íhaldsins að höggva alveg á tengslin við landshlutasamtök sveitarfélaganna. Hv. þm. þekkja það að landshlutasamtök sveitarfélaganna hafa haft ákveðinn stuðning frá Byggðasjóði við áætlanagerð, hver í sínu kjördæmi og umdæmi. Nú er það ætlun ríkisstj, að höggva algerlega á þessi tengsl. Ég tel að með þessari afstöðu sinni sé ríkisstj. að ganga á svig við þær víðtæku kröfur sem uppi eru um valddreifingu og lýðræði í þessu landi. Ég gagnrýni harðlega þessa stefnu sem þannig birtist hjá ríkisstj. í því í raun og veru, herra forseti, að þrengja enn starfssvið og valdsvið Byggðastofnunar frá því sem þó hefur verið. Ég skora á hv. þm. stjórnarmeirihlutans að íhuga þessa till. af vinsemd og sanngirni og gera sér grein fyrir því að þetta er í raun og veru aðeins till. um að staðfesta þann hátt sem tíðkast hefur í sambandi við landshlutasamtök og heimaaðila.

Herra forseti. Þetta mál þarfnast auðvitað vandaðrar umræðu og það hefur verið gerð tilraun til hennar hér í kvöld þó að stjórnarþm. eins og hv. 5. þm. Norðurl. v. hafi kosið að hafa allt á hornum sér hér fyrr í kvöld af litlu tilefni. Það er athyglisvert að á sama tíma og Nd. Alþingis ræðir um þessi mál, þá er verið að fjalla um önnur mál í Ed. Alþingis. Og það er bersýnilegt að áhugi fjölmiðla á því máli sem verið er að fjalla um í Ed., þ. e. bjórmálinu, er meiri en á þeim stóru byggðamálum sem við erum að ræða um hér í Nd. Þetta dæmi frá kvöldinu í kvöld segir mér meira um fréttamenn á Íslandi en um Alþingi Íslendinga, herra forseti.