10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6186 í B-deild Alþingistíðinda. (5636)

236. mál, stálvölsunarverksmiðja

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir þetta nál. með fyrirvara. Ég hef raunar frá upphafi og frá því að þetta mál kom fyrst til umfjöllunar hér á Alþingi haft megnustu vantrú á þessu fyrirtæki. Það hefur svo sem oltið á ýmsu um þetta mál, yfirlýsingar ráðh. hafa gengið fram og til baka, og það hefur verið ákaflega erfitt að fá sannfærandi rök fyrir því að hér væri um arðbært og gott fyrirtæki að ræða. En síðan ítarleg umfjöllun átti sér stað í hv. fjh.- og viðskn. Ed. um þetta mál hefur það gerst að fram hefur komið opinberlega að aðstandendur þessa fyrirtækis telja sig eiga von í hlutafjárloforðum eða loforði sem nemur 17–19 millj. kr. og það ber óneitanlega vott um, ef rétt reynist, að einhverjir hafi mikla trú á þessu fyrirtæki, einkanlega ef rétt er að þetta hlutafé muni koma frá einum aðila.

Eins og frv. var þegar það var lagt hér fram var það að mínu mati ekki aðgengilegt og ég hefði ekki treyst mér til að greiða því atkv. eins og það þá lá fyrir. Nú hefur formaður fjh.- og viðskn., hv. 4. þm. Norðurl. v. Eyjólfur Konráð Jónsson, gert grein fyrir þeim breytingum sem lagt er til að gerðar verði á frv. Ég vek athygli á því að í fyrsta lagi er aðeins um að ræða heimild til hæstv. fjmrh. til að veita ríkisábyrgð gegn tryggingum sem hann metur gildar, þ. e. þótt illa kunni að fara, svo illa takist til, á ríkið að vera tryggt þar sem tryggingar eiga að standa að baki þessu láni, en auk skilyrða laganna um ríkisábyrgð eru í frv., eins og það liggur nú fyrir breytt, tekin upp önnur skilyrði sem eru miklum mun strangari en venja er til þegar heimild til ríkisábyrgða er veitt með þeim hætti sem hér er verið að gera. Og hver eru þessi skilyrði?

Þau eru í fyrsta lagi að hlutafé fyrirtækisins sé a. m. k. 30% af stofnkostnaði verksmiðjunnar.

Í öðru lagi, það sem á hefur skort og ekki hafa fengist upplýsingar um enn sem komið er, að tryggt sé að þetta væntanlega fyrirtæki fái inni í einhverri bankastofnun, þ. e. fái bankaviðskipti sem tryggi fyrirtækinu rekstrarfé. Það kom í ljós í umfjöllun nefndarinnar að ekki hefur tekist enn sem komið er að tryggja slíkt.

Í þriðja lagi er tekið sérstaklega fram hér að gæta skuli náttúruverndarsjónarmiða. Nefndin fékk á sinn fund, eins og fram hefur komið hér, formann Náttúruverndarráðs, Eyþór Einarsson, og ræddi ítarlega við hann um staðsetningu verksmiðjunnar.

Í fjórða og síðasta lagi eru felld út úr frv. síðustu orðin sem stóðu í því upphaflega, þ. e. „við Fögruvík í Vatnsleysustrandarhreppi“, og segir aðeins: stálvölsunarverksmiðju í Vatnsleysustrandarheppi.

Ég veit að flestir hv. þm. vita hvar ætlunin er að reisa þessa verksmiðju. Fagravík er það sem flestir þekkja undir nafninu Kúagerði, þar sem Reykjanesbrautin liggur næst sjó og þar sem hálfnaður er vegur frá Reykjavík til Keflavíkur eða þar um bil. Þetta er einn af fallegustu stöðum á leiðinni suður með sjó þótt víða sé fallegt þar, eins og hv. þm. Karl Steinar Guðnason réttilega segir um sína heimabyggð. Ég átti þarna leið um síðast í gærdag. Það er raun að horfa á þennan ljóta steinsteypukumbalda sem risið hefur á hraunbrúninni þarna niður við sjó. Ekki mun það batna þegar þarna verður búið að hrúga upp haugum af hvers kyns brotajárni, ónýtum bílum, ónýtum skipum og hvers konar rusli sem nöfnum tjáir að nefna. Það verður enginn yndisauki á leiðinni milli Reykjavíkur og Suðurnesja. Ekki aðeins mun þetta stinga okkur í augun, sem eigum þarna leið um sem heimamenn, heldur munu þessir ruslahaugar fagna öllum erlendum gestum sem til landsins koma um Keflavíkurflugvöll.

Mér finnst það satt að segja frágangssök að láta sér detta það í hug að reisa þessa verksmiðju á þessum stað og ég vona og bind við það miklar vonir að Náttúruverndarráð láti þetta mál til sín taka. Eins og komið hefur fram í ræðu hv. 11. þm. Reykv. Kristínar Ástgeirsdóttur eru þarna ýmis merk náttúrufyrirbæri, ekki kannske nákvæmlega þar sem þessari verksmiðju er ætlað að rísa, heldur í næsta nágrenni. Ég hafði jafnvel hugsað mér að flytja brtt. þess efnis að eitt af skilyrðunum væri að verksmiðjan risi ekki við Fögruvík, heldur einhvers staðar annars staðar. Nóg land á Vatnsleysustrandarhreppur þarna og ætti það ekki að standa í vegi fyrir því að verksmiðjuna væri hægt að reisa einhvers staðar annars staðar. Sem ég sagði bind ég vonir við að Náttúruverndarráð láti þetta mál til sín taka með þeim hætti að ekki komi til að verksmiðjan verði þarna reist.

Ég tel að þau skilyrði sem búið er að setja í þeirri brtt. sem meiri hl. fjh.- og viðskn. flytur séu svo ströng að verjandi sé að greiða atkv. með þessu og sjá hvort starfsemi þessi geti farið af stað. En ef það kemur í ljós að þeir stálfélagsmenn halda fast við þá ætlun sína að reisa verksmiðjuna á þeim stað þar sem steypuskúrinn stendur nú á fjörukambinum mun ég gera allt sem í mínu valdi stendur til að koma í veg fyrir að sú framkvæmd komist á koppinn, ef svo má segja.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa um þetta fleiri orð, en vildi að þessi sjónarmið mín kæmu skýrt fram við 2. umr. málsins.