10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6192 í B-deild Alþingistíðinda. (5646)

280. mál, rétt skil afurðasölufyrirtækja til bænda

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í nál. hefur n. rætt þetta mál ítarlega og fengið til viðtals við sig ýmsa snjalla menn og gáfaða sem hafa veitt ýmsar nytsamlegar upplýsingar.

Ég er því eindregið hlynntur eins og meiri hl. n. að afurðasölufyrirtækin skili bændum fullu verði og geri það fljótt og vel. Þess vegna styð ég efni till. Hins vegar skrifa ég undir með fyrirvara. Ég hefði kannske kosið að gera grein fyrir þeim fyrirvara mínum með skriflegum hætti, en ekki varð þó af því og verð ég því að láta duga að gera grein fyrir fyrirvara mínum munnlega og vonast til að það komist jafnvel til skila fyrir því.

Minn fyrirvari er ósköp einfaldlega sá að ég vænti þess að jafnhliða því sem þessari nýskipan sé komið á sé afurðasölufyrirtækjum og samvinnufyrirtækjum gert kleift með fjármagnsútvegun að standa undir þessari stefnumörkun. Ég hygg nefnilega að að öllu óbreyttu og án frekari fjármagnsfyrirgreiðslu sé ekki unnt að ná þessu markmiði með auðveldum hætti. Mér er t. d. fullljóst að skyld ákvæði í frv. um Framleiðsluráð landbúnaðarins eru þess eðlis að þau verða aldrei annað en nafnið tómt nema til komi aukið rekstrarfjármagn í þessu skyni.

Ég harma að rekstrarfé til landbúnaðarins hefur verið skorið niður á liðnum tveimur árum. Þetta var viðurkennt í svari hæstv. viðskrh. við fsp. sem ég bar fram í desember s. l. og hefur raunar víðar komið fram. Rekstrarfé til landbúnaðarins hefur verið á niðurleið og með sama áframhaldi verður enn vonlausara en áður að ná því sjálfsagða markmiði sem þessi till. gengur út á.

Ég styð efni og markmið þessarar till., finnst sjálfsagt að veita henni brautargengi, en vara við því — og í því er fyrirvari minn fólginn — að án sérstakrar fjárútvegunar, lánsfjárútvegunar, verður efni till. ekki framkvæmt.