10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6193 í B-deild Alþingistíðinda. (5647)

280. mál, rétt skil afurðasölufyrirtækja til bænda

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var til umræðu hér í Ed. fyrr á þessu þingi hafði ég uppi efasemdir um það og hef raunar enn. Ég benti á það þá og geri það raunar enn — reyndar hafa aðrir gert það — að fjölmörg afurðasölufyrirtæki eru í eigu bænda og um vörurnar hefur verið fjallað í umboðssölu eins og kunnugt er, þ. e. vörurnar hafa verið eign bænda nánast þangað til þær eru komnar á borð neytandans.

Nú má enginn skilja orð mín svo að ég standi með einum eða öðrum hætti gegn því að bændur fái sínar vörur fyrr greiddar en verið hefur, síður en svo, enda gefa tillögur tilefni til að ætla allt annað sem fram koma í því frv. til l. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum sem ég hef átt aðild að að semja með fleiri mönnum. Hins vegar snýr þessi till. þannig við mér að málarekstur af því tagi sem hugsanlega leiddi af' samþykkt hennar og framkvæmd, yrði í meginatriðum af því tagi að bændur hitti sig sjálfa fyrir í þeim málarekstri. Ég benti á þetta fyrr á þinginu og geri það enn. Þess vegna tel ég að samþykkt þessarar till. sé raunar út í hött.

Hér hafa hv. ræðumenn vikið —eins og ég hef raunar gert sjálfur — að nýju frv. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Ég held, enda þótt ég hafi minnst á þetta mál, að ekki sé ástæða til að blanda þessari till. saman við það sem þar er gert ráð fyrir. Hér er að mínum dómi fyrst og fremst verið að víkja aftur í tímann. Við eigum fyrst og fremst að horfa fram á við og það gerum við — sem e. t. v. verður — með samþykki frv. um landbúnaðarmálin.

Hv. 4. þm. Austurl. Jón Kristjánsson er með sérálit í þessu máli. Ég mun fylgja honum að málum og er sú liðveisla mín í takt við þá afstöðu sem ég lét uppi við umr. fyrr á þinginu.