10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6193 í B-deild Alþingistíðinda. (5648)

280. mál, rétt skil afurðasölufyrirtækja til bænda

Helgi Seljan:

Herra forseti. Það skulu ekki verða mörg orð um þetta þó mikilvæga mál, þ. e. rétt skil afurðasölufyrirtækja til bænda.

Hugur 1. flm. þessarar till. hefur komið fram áður í þinginu og hefur komið fram á þann hátt að hann hefur viljað breyta fyrirkomulaginu á þessu kerfi öllu og fengið m. a. s. um það samþykkta till. á Alþingi sem reyndar hefur ekki verið framkvæmd (Gripið fram í: Á sex árum.) á sex árum. Þess vegna veit ég að það fylgir mikill og góður hugur að baki hjá hv. þm. Eyjólfi K. Jónssyni þegar hann flytur till. af þessu tagi.

Nú er það auðvitað rétt að afurðasölufyrirtækin eru misjafnlega í stakk búin til að ganga frá skilum til bænda. Það er hins vegar staðreynd, sem við þekkjum mætavel, að allir sem koma að sölu þessara vara og þjónustu á einhvern hátt hafa allt sitt á þurru. Ég hef ekki heyrt um að neinir þeir aðilar þyrftu að kvarta undan því að þeir fengju ekki fullt verð fyrir sína þjónustu. Það sem á hefur skort hefur alltaf verið látið bitna á bændum sjálfum. Skilin til þeirra, ef ekki hefur tekist að ná fullu grundvallarverði, hafa setið á hakanum, en aðrir aðilar hafa haft allt sitt á hreinu.

Það hefur oft verið talað um að slátrunarkostnaður á haustin hjá sláturhúsunum væri mikill og ylli þar miklu um vöruverð á landbúnaðarvörum, dilkakjötinu. En ég sá það nýlega skjalfest að umboðskostnaður SÍS, heildsölu- og skrifstofukostnaður ýmiss konar, var mun hærri á hvert kg en sá margumtalaði kostnaður sem fer til verkafólksins sem vinnur að því að slátra fénu á haustin. Vitanlega er þetta allt umhugsunarefni og von að menn þreytist á því að sjá svo farið að málum eins og hér hefur verið gert ár eftir ár. Hins vegar er það rétt, sem kom fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., að vitanlega þarf að vera tryggt fjármagn til afurðasölufyrirtækjanna svo að þau geti að þessu staðið, eðlileg lánsfyrirgreiðsla þannig að þau geti staðið við sínar skuldbindingar. Það hefur skort.

Hér hefur verið vitnað til þess að batnandi tíð með blóm í haga sé að renna upp ef menn beri gæfu til að samþykkja það frv. sem enn er í Nd. og enginn veit enn þá um hve margar brtt. fæðast við og verða samþykktar, ef það nær fram að ganga, og það er talað um að þar sé skýrt að orði kveðið á pappírnum um að full skil til bænda séu tryggð á afurðaverðinu. Sannarlega skulum við vona að svo verði. En enn þá veit ég ekki til þess að neinar bindandi yfirlýsingar liggi fyrir um það að svo verði nema þá að ríkisstj. gefi út um það ótvíræða yfirlýsingu að hún ábyrgist þessa hluti að fullu og öllu. Ég veit ekki til að fyrir liggi yfirlýsingar frá bankakerfinu um að þetta sé tryggt. Og enn þá er það mín skoðun að það fyrirkomulag, sem hv. 4. þm. Norðurl. v. lagði til í till. á árum áður sem hann fékk samþykkta, hefði átt að athuga miklu betur og kanna hvort ekki væri unnt að hrinda því í framkvæmd þannig að bændur fengju örugglega það verð sem þeim er ætlað að lifa af og byggja sína lífsafkomu á, en ekki tryggja að allir aðrir aðilar, sem koma að þessu máli, hafi sitt á þurru.