10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6200 í B-deild Alþingistíðinda. (5662)

525. mál, fjáröflun vegna húnsæðismála á árunum 1985 og 1986

Helgi Seljan:

Herra forseti. Það væri vissulega, eins og hv. 5. landsk. þm. kom inn á, ástæða til allsherjarumræðna hér um húsnæðismálin. Þar hafa vandamálin vissulega hrannast upp, seinkun lána, óvissa um lán og lánsupphæðir, og lánabyrðin þó þyngst alls sem hefur afdrif hinna ótalmörgu heimila í greip sinni. En okkar ágæti hæstv. félmrh. er fjarverandi og því er óviðeigandi að fara mjög náið út í það mál hér. Ég kann því ekki þegar hæstv. ráðh. er fjarri og er með fjarvistarleyfi. Ég bendi hins vegar á að öll svör hans varðandi vanda fólks hafa verið miklar talnaþulur um prósentuaukningu útlána og fleira í þeim dúr.

Hitt er kannske ekki síður merkilegt, hversu hann hefur borið samráðherrum sínum söguna. Ég hef tekið eftir því að hæstv. félmrh. hefur margítrekað að hann hafi lagt fram fullmótaðar tillögur til að leysa vanda húsbyggjenda, hann hafi lagt fram fullmótað frv. í ríkisstj. um þessi mál. Ég man eftir því að í janúar var í fjölmiðlum ágætis kynning á miklum aðgerðum sem hæstv. félmrh. hugðist þá beita sér fyrir. Ég efast ekki um að hæstv. félmrh. fer þarna með rétt mál, hann hafi lagt þessar tillögur fram í ríkisstj., en hann hafi hreinlega ekki komið þeim í gegn. Einhverjir samráðherrar hans hafi hindrað að þær tillögur, sem hann gjarnan stærir sig af að hafa flutt fullmótaðar, næðu fram að ganga. Þeir hafi komið í veg fyrir það.

En almenn umræða um þessi mál verður ekki hér og nú að honum fjarverandi þó að freistandi væri því það er vösk liðsveit að baki hæstv. félmrh. í þessu máli öllu, nánar tiltekið eru það flokkarnir tveir sem nú standa að stjórn landsins sem í síðustu kosningahríð lofuðu öllum 80% lánum til langs tíma með vægum kjörum og eru einhver gullvægustu ásýndum en jafnframt léttvægustu loforð sem menn hafa kynnst í kosningum og er þá mikið sagt.

Hv. 5. landsk. þm. hefur tekið af mér það ómak að fara í úttekt hv. þm. Eyjólfs Konráðs á þessum þætti mála hjá hæstv. ríkisstj. Uppgjör hans er skýrt og afdráttarlaust eins og hans er von og vísa. Lýsing hans á vanefndum í meginatriðum stjórnarstefnunnar er vissulega hörð og óvægin. Það kemur manni ekkert á óvart þó að hæstv. forsrh. dæsti hér þunglega á dögunum og kvartaði yfir óþekktaröngunum í þingliði stjórnarflokkanna sem hann þyrfti að glíma við nætur og daga. Eitt er ljóst, að sú glíma verður áreiðanlega örðug ef hann ætlar að leggja hv. 4. þm. Norðurl. v. á klofbragði í þeim efnum eða hvaða bragð sem hann hyggst nú nota til að ná sér niðri á hinum óþekku stjórnarliðum sem gera honum svo erfitt fyrir að ná í gegn þeim málum sem hann vill nú böðla í gegnum þingið.

Það er ástæða til að benda á það við þessa umr. að húsnæðismál okkar öll eru í ógöngum. Við þekkjum þá sögu. En það ber líka að hugleiða í tengslum við þetta mál hvað hefði í raun og veru gerst, hvað væri á borðum okkar þm. ef sameinuð stjórnarandstaða hefði ekki krafist aðgerðar. Ég lít svo til að það frv. sem er hér á borðum okkar einnig núna, um greiðslujöfnuð fasteignaveðlána, hefði verið það eina sem við hefðum haft núna fyrir þinglokin til að fjalla um í þessum málum. Ég veit ekki til þess að án þessarar kröfu hefði sú lausn til handa þúsundum sem stynja undan okurvöxtum og ránskjaravísitölu fengist sem hér er áfangi að, sbr. orð hæstv. félmrh. að það hefði ekkert verið gert þó hann hefði lagt fram í ríkisstj. fyrir löngu fullbúin frv. og fullmótaðar tillögur til lausnar þessa vanda.

Það þarf ekki að rifja það upp hver ástæða er fyrir því að svo er komið málum. Aðgerðir hæstv. ríkisstj. vorið 1983 valda hér auðvitað mestu um. Þá er uppfundin sú mikla lausn á öllum efnahagsvanda þjóðarinnar sem menn þekkja nú reyndar best af orðum hæstv. forsrh. sem segir að þar hafi menn gert gífurlega vitleysu. Það hafði sem sagt einhver platað hæstv. forsrh. eins og löngum áður því það er ekki í fyrsta skipti sem hann hefur verið plataður til að gera vitleysur. — Lausnin var sem sagt fundin með því að taka kaupið úr sambandi á meðan allt annað æddi upp. Misgengið var fullkomnað og vinnustundum fyrir lánsafborgun fjölgaði jafnt og þétt. Þetta er allt rétt að rifja upp, ekki síst með tilliti til þess hvað sagt var fyrir síðustu kosningar um það að við leystum vanda okkar efnahagslífs, okkar þjóðlífs í raun með því að taka kaupgjaldsvísitöluna í burtu. En það fór bara svo að hún var ein tekin úr sambandi. Allt hitt hélt áfram.

Hv. 11. þm. Reykv. Kristín Ástgeirsdóttir fór um þetta frv. nokkrum orðum í 1. umr. og minnti þá á vanda leigjenda ekki síður en vanda húsbyggjenda. Um það skal ég fara örfáum orðum. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að áherslan á að menn ættu eigið húsnæði og ættu það sem allra fyrst, að vísu á pappírnum eins og verið hefur nú um stundir, hafi verið óeðlilega mikil og sterk hér. Að vísu er það bein afleiðing af hinum erfiða og um leið takmarkaða leigumarkaði sem verið hefur og sem sums staðar er tæplega til. Það ætti því að leggja eðlilega áherslu á framboð leiguhúsnæðis og aðlögun ungs fólks og undirbúningstíma að því að eignast eigið húsnæði með því að ævinlega væri allgott framboð á viðunandi húsnæði til leigu — ekki með þeim okurkjörum sem eru í dag heldur eðlilegri leigu. Með þetta hafa vissulega verið gerðar tilraunir. Sveitarfélögin voru á sínum tíma með í þeirri tilraun, en ég hygg að flest þeirra hafi gefist upp og selt sínar leiguíbúðir, hafi ekki treyst sér til að reka þær á þann hátt sem hefði þurft. Enn þá er ofuráhersla lögð á eigið húsnæði og ég vil segja oft allt of stórt húsnæði, allt of viðamikið því að okkur hættir til þess, okkur Íslendingum, að vilja hafa rúmt um okkur og er ekkert nema gott um það að segja, en fyrr má nú aldeilis fyrr vera eins og sums staðar er byggt.

Ég hlýt nú að leggja áherslu á, fyrir utan nauðsynlegt framboð á leiguhúsnæði og skipulag þeirra mála, hið félagslega byggingarform sem er eina ráð mjög margra, dugar reyndar ekki í dag. Ég þekki þar til mikils fjölda fólks sem ekki einu sinni treystir sér inn á þann hagstæða lánamarkað sem þó er gagnvart félagslegu byggingunum miðað við almennar byggingar. Einnig held ég að við ættum að reyna að ýta undir, og það er reyndar gert nú og ber að fagna þeirri viðleitni sem þar er á ferðinni, að nýta eldra húsnæði sem allra best.

Ég bendi þar t. d. á að auðvelda þarf mörgu eldra fólki, sem situr í of stóru húsnæði og vill losna og ég þekki mörg dæmi um það, að skipta, geta komist í húsnæði sem er því viðráðanlegra, auðveldara í rekstri. Svo er auðvitað aftur til mikið af fólki sem vill vera í sínum gömlu húsum og við því er heldur ekkert að segja. En heildarkönnun á sem bestri nýtingu eldra húsnæðis þyrfti vitanlega að fara fram og í kjölfar þess aðgerðir til að auðvelda fólki bæði að kaupa það og eins að gera það þannig úr garði að betra væri til íbúðar en oft er um þetta húsnæði.

Ég skal ekki orðlengja frekar um þetta mál. Ég fagna þeim árangri sem hér hefur unnist með samstilltu átaki stjórnarandstöðunnar, áfangasigri, þó ótalmargt sé óunnið, en ég ítreka að við verðum að koma okkur upp heildstæðri húsnæðismálastefnu sem kemur til móts við fjöldann með ólík form, ólíka möguleika þar sem hver og einn getur valið það form og þá hætti sem hann helst kýs varðandi sitt húsnæði.