10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6204 í B-deild Alþingistíðinda. (5668)

480. mál, greiðslujöfnun fasteignaveðlána

Frsm. minni hl. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Svo sem fram hefur komið varð fjh.- og viðskn. hv. Ed. ekki sammála í afstöðu sinni til þessa máls og ég mæli hér fyrir áliti minni hl., en í nál. segir, með leyfi forseta:

„Um það leyti sem umfjöllun þessa máls var að ljúka í fjh.- og viðskn. Nd. hafði stjórnarandstaðan frumkvæði að viðræðum fulltrúa allra þingflokka um neyðina í húsnæðismálum. Í fréttum og greinargerðum frá þeim fundum hafa þegar birst upplýsingar um hugmyndir sem stjórnarandstaðan hélt þá fram. Þar voru gerðar tillögur um ýmis atriði, m. a. breytingar á þessu frv., sem meiri hl. n. hafnaði.

Umræðugrundvöllur, sem stjórnarandstaðan lagði fram í upphafi viðræðna, og grg., sem birt var að þeim loknum, eru prentuð sem fskj. með nál.

Minni hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt með brtt. sem fluttar eru á sérstöku þskj.“, þ. e. þskj. 1201 og þar eru brtt. í fimm liðum.

Það segir enn fremur í nál. að Stefán Benediktsson, þm. Bandalags jafnaðarmanna, hafi verið viðstaddur fundi nefndarinnar og sé samþykkur þessu áliti.

1. brtt. er við 1. gr. frv. Í stað orðsins „launa“ komi: kauptaxtavísitölu.

Þá er brtt. við 1. mgr. 2. gr. til að taka af tvímæli um til hverra þessi lög taki. Þar segir, með leyfi forseta: „Lög þessi taka til lána einstaklinga sem tekin eru til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota hjá byggingarsjóðum ríkisins og sams konar lána hjá öðrum sjóðum og innlánsstofnunum [þ. e. þetta sé víðar en hjá byggingarsjóðum ríkisins]. Seðlabanka Íslands skal skylt að endurkaupa skuldabréf af öðrum aðilum en byggingarsjóðum ríkisins vegna samninga um greiðslujöfnun skv. þessum lögum.“

Síðan er hér brtt. við 4. gr. Í stað orðsins „fullverðtryggðum“ komi: verðtryggðum.

Við 5. gr. er sú brtt. gerð að í stað orðsins „launavísitölu“ komi: kauptaxtavísitölu. Enn fremur er þar lagt til að 3. mgr. orðist svo sem hér segir: Sé greiðslumark hærra en gjalddagafjárhæð skal heildargreiðslan miðuð við gjalddagafjárhæð.“ Sem sagt: lægri upphæðin gildi.

Við 6. gr. er sú brtt. að þar séu ákvæði um að kauptaxtavísitala skv. 1. og 5. gr. skuli reiknuð út mánaðarlega af Kjararannsóknarnefnd.

Þetta er sem sé afstaða minni hl. til málsins. Hann leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef nú gert grein fyrir.

Ég vil þá jafnframt gera grein fyrir brtt. sem ég flyt hér sérstaklega, en hún er á þessa leið, með leyfi forseta:

„Við ákvæði til bráðabirgða bætist ný mgr. svohljóðandi:

Viðskrh. skal þegar í stað, í samráði við félmrh., beita sér fyrir skuldbreytingu til a. m. k. tíu ára á skammtímalánum í bönkum og sparisjóðum vegna ölfunar eigin húsnæðis.“

Nú hygg ég að þm. öllum muni hafa borist í dag bréf frá hópi áhugamanna um úrbætur í húsnæðismálum. Ég ætla að leyfa mér að vitna til þess bréfs í stuttu máli. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við leggjum sérstaklega áherslu á að þegar á næsta ári komi til framkvæmda þær leiðréttingar aftur í tímann sem nú eru gefin fyrirheit um. Hins vegar stendur vanleystur bráðavandi fjölda fólks sem bíður skjótrar úrlausnar. Þess vegna beinum við þeim eindregnu tilmælum til þín að þú beitir þér fyrir að gefinn verði kostur á almennri skuldbreytingu í bönkum og jafnframt verði framlengdur frestur til að sækja um viðbótarlán hjá Húsnæðisstofnun. Þá verði settar skýrari reglur um þessa lánafyrirgreiðslu stofnunarinnar sem sætt hefur verulegri gagnrýni.“

Þessi till., sem var raunar flutt í Nd. áður en þetta bréf barst, hnígur mjög í sömu átt og hér eru bornar fram óskir um.

Það hefur verið mikið talað um ástandið og erfiðleika húsbyggjenda. Ég hef hér fyrir framan mig dæmi um íbúð sem keypt var árið 1981 og sú íbúð, sem hér um ræðir, er ósköp venjuleg íbúð. Hún er 100 fermetrar að flatarmá!i og er í blokk. Dæmið lítur svona út: Kaupverðið var 400 þús. kr. og það var fjármagnað með þeim hætti sem hér segir: G-lán 59 þús., yfirtekið lán 51 þús., lífeyrissjóður 120 þús., og bankalán 50 þús. Eftir fjórðu afborgun 1. júní 1985 er staðan þannig, að af láni A hefur afborgunin verið 17 þús., vextir 6 þús., eftirstöðvar eru 191 þús. Af láni B eru eftirstöðvar 185 þús., af láni C eru eftirstöðvar 471 þús., af láni D sama tala. Heildareftirstöðvarnar eru 1365 þús. 743 kr.

Eftirstöðvarnar af þessum lánum nú eru svipuð upphæð og fæst fyrir þessa íbúð ef hún væri seld núna. Sem sagt: fjögurra ára erfiðleikar og streð þessara einstaklinga, sem eiga þessa fjögurra herbergja blokkaríbúð, hafa ekki aukið eign þeirra um eina einustu krónu. Miðað við upphaflegar forsendur þurfti 4.8 mánaða laun skv. 15. launaflokki BSRB til að greiða ársafborgun og vexti. En hvað þarf núna? 9.2 mánaða laun í sama flokki til að greiða afborganir og vexti.

Það er alveg ljóst að þeir einstaklingar sem hér eiga í hlut, venjulegt launafólk sem hefur keypt fjögurra herbergja íbúð í blokk árið 1981, er að glíma við algerlega vonlaust dæmi. Það er engin leið út úr þessu fyrir þetta fólk. Ef það selur íbúðina núna eru allir þessir fjármunir farnir, glataðir.

Ef reiknað er með 35% hækkun vísitölu og sömu kjörum og í dag verða afborganir á næsta ári 161 þús. kr., en vextirnir 82 þús. kr. Samtals þarf 243 þús. kr. til að borga af þessari einu litlu íbúð. Eftirstöðvarnar verða 1682 þús. kr. Ég held að þessar tölur segi allt sem segja þarf.

Ég hef enga ástæðu til að rengja þetta. Ég held að þetta sé alveg hárrétt reiknað og hef raunar ærna ástæðu til að vita það. Og hver getur sagt að fólk, sem kaupir fjögurra herbergja íbúð í blokk, sé að reisa sér hurðarás um öxl í húsnæðismálum? Það er ekki verið að tala um nein villukaup hér. Það er ekki verið að tala um neinn lúxus. Þarna er venjuleg fjölskylda að fullnægja sínum frumþörfum. Svo þrjóskast menn við og þverskallast þegar bent er á hvernig komið er og bent á raunhæfar leiðir til úrbóta og það er lítið sem ekkert gert!

Það má vel vera að þessar brtt., sem hér hefur verið mælt fyrir, bjargi svo sem ekki öllu í þessum efnum. Mér er það alveg fullljóst. En a. m. k. gera þær málið ögn betra en það var. Auðvitað er staða þessara mála slík nú, eins og allir vita, að það dugar ekkert kák. Það verður að gera uppskurð á kerfinu og gerbreyta því. En það er eins og raddir fólks eins og þess sem keypti 100 fermetra íbúð í blokk hafi bara alls ekki náð eyrum ríkisstjórnarinnar.