06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

95. mál, skattsvik

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég sat nú og hugsaði, þegar ég hlustaði á hv. 2. landsk. þm., að kannske væri ekki svo vitlaust að fara að leita í aðra átt að þessum skattsvikum en við höfum verið að beina athygli okkar að hingað til, úr því að árangurinn er ekki betri en fram kemur í upptalningu í athyglisverðri ræðu hennar. Talað er um laun reiknuð af eigin atvinnurekstri og gerður samanburður á atvinnutekjum atvinnurekenda, 116 þús. að meðaltali á ári, og 196 þús. kr. meðaltekjum launþega. Ég hefði gaman af að fá að sjá þennan útreikning, sjá hvernig er komist að þessari niðurstöðu og hvort þarna er tekinn með sá gríðarlegi fjöldi af atvinnurekendum sem verður að greiða laun þó að afrakstur af atvinnurekstrinum hrökkvi ekki til, fé sem fyrirtækin og einstaklingurinn, sem er ábyrgur fyrir atvinnurekstrinum. þarf kannske að fá lánað hjá peningastofnunum, bönkum o.fl., og standa einn eftir ábyrgur þegar fyrirtækið fer fallit.

Við skulum átta okkur á því að það er ekki alltaf hægt að sækja gull í greipar annarra. Það verður svolítið að líta sjálfum sér nær. En það getur vel verið, og ég efast ekkert um það, að þarna er brotalöm sem þarf að athuga. Ég get ekki svarað öðruvísi en að vinna sú sem hefur verið sett í gang skv. þáltill. er í gangi og meðan hún er í gangi vil ég biðja hv. þm. að bíða eftir niðurstöðum. Það gat ég um áðan — og svara nú kannske kjarna í þessu skattsvikatali — að virðisaukaskattur verður vonandi samþykkur og settur á og þá losnar um alls konar kontrol sem gert er ráð fyrir í þessari till.

En oft finnst mér fullyrðinga- og meiningasamar ræður um skattsvik annarra kalla á rannsókn á okkur sjálfum hér. Við skulum ekki ætla öðrum að þeir geri eitthvað annað en við gerum sjálf. Við skulum þá bara láta rannsaka okkur um leið og við látum rannsaka aðra.