10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6207 í B-deild Alþingistíðinda. (5672)

86. mál, áfengislög

Frsm. minni hl. (Haraldur Ólafsson):

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir hefur alllengi velkst í meðförum Alþingis og þykir víst öllum tími til kominn að ganga frá þessu máli, að fá úrslit um það hvort leyfð skuli framleiðsla og sala á áfengu öli hér á landi eða ekki. Það eru, eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, flest rök með og móti þegar komin fram í hv. Nd., en í allshn. Ed. fór samt fram allmikil umræða og sérfróðir menn voru til kallaðir og þá að sjálfsögðu fyrst og fremst þeir sem lögum skv. ber að leita til í slíkum málum, þ. e. áfengisvarnaráð.

Skv. lögum hefur áfengisvarnaráð það hlutverk m. a. að stuðla að bindindissemi og vinna gegn neyslu áfengra drykkja og reyna í samráði við ríkisstj. og fleiri samtök að afstýra skaðlegum áhrifum áfengisneyslu. Það er skemmst frá að segja að áfengisvarnaráð hefur eindregið lagst gegn samþykkt þessa frv. Það hafa einnig gert nær allir þeir sérfræðingar um áfengismál sem til hafa verið kvaddir og sagt álit sitt á þessu máli. Ég vil leyfa mér að vitna til greinar sem dr. Tómas Helgason ritaði í Morgunblaðið 20. febr. s. l., en þar segir hann, með leyfi forseta:

„Menn tala fjálglega um áfengisvandamál, nauðsyn á meðferð, fyrirbyggjandi aðgerðum, fræðslu og stefnumótun. Jafnframt virðist næstum því kerfisbundið unnið að því að brjóta niður þá áfengisstefnu sem hér hefur ríkt um langt skeið og miðar að því að draga úr áfengisneyslu svo sem kostur er. Hefur Ísland verið forgönguland á því sviði og er Alþjóðaheilbrigðisstofnunin nú að leggja til við aðildarlönd sín að upp verði tekin ýmis af þeim stefnumiðum sem verið hafa í íslenskri áfengislöggjöf í marga áratugi, svo sem að banna auglýsingar á áfengi og gera áfengi eins óaðgengilegt og kostur er með háu verði og fáum útsölustöðum.

Hámarki hefur tvískinnungshátturinn náð á síðustu árum þegar Alþingi samþykkir að skipa skuli stóra nefnd til þess að móta áfengisstefnu, en um leið lætur ríkisvaldið óátalið skýlaus brot á áfengislögum eins og tollfrjálsan innflutning ferðamanna á áfengu öli. Í takt við þennan tvískinnungshátt eru síðan hunsaðar fyrstu tillögur nefndarinnar sem sett var eftir samþykkt þáltill.

Það þarf varla að lýsa fyrir þm. hve skipulagsbundið hefur verið unnið að því að brjóta niður þá áfengisstefnu sem hér hefur verið fylgt. Þetta hefur verið gert á þann hátt að slaka smátt og smátt á þeim lögum eða réttara sagt brjóta þau lög sem í gildi eru í landinu, brjóta þau niður næstum því án þess að eftir væri tekið og skapa það ástand sem hefur komið mörgum til þess að ætla að hér verði ekki lengur spyrnt við fótum, að það sé raunverulega sköpuð sú staða í landinu að ekki sé unnt annað en láta undan þessari skipulögðu skemmdarstarfsemi. Ég held að enginn geti velkst í vafa um að hér eru í húfi gífurlegir hagsmunir og það eru fyrst og fremst þessir hagsmunir sem hafa unnið að því að brjóta niður þá áfengisstefnu sem mótuð hefur verið og sem fram hefur komið í samþykktum Alþingis.

Ég vil einnig benda á að áfengismál eru ekki bara félagslegt mál, heldur einnig heilbrigðismál. Það er heilsuverndarmál. Það er spurning um lífsstíl. Það er spurning um gott eða vont mannlíf. Ég leyfi mér að vitna enn í grein dr. Tómasar þar sem hann segir, með leyfiforseta:

„Í þeim löndum þar sem bjórdrykkja er mest verða flestir alkóhólistar af bjórdrykkju. Í Bandaríkjunum er talið að 25–30% alkóhólista hafi orðið alkóhólistar eingöngu af bjórdrykkju.“

Þetta er vissulega umhugsunarefni þegar fjallað er um það mál sem hér er til umræðu í kvöld. Afengi er alltaf áfengi hvort sem það er í svokölluðum sterkum drykkjum eða veikum. — Og eins og dr. Þorkell Jóhannesson hefur sagt, með leyfi forseta: „Áfengur bjór er jafnskaðlegur eða gagnlegur og aðrar áfengistegundir. Ef lögleiða á neyslu áfengs bjórs hér verður það einungis gert vitsmunalega með því að hefta flæði annars áfengis þannig að heildarflæði aukist ekki. Þetta er meginatriði sem stjórnmálamenn, fjölmiðlamenn og aðrir sem móta vilja skoðanir fólksins í landinu skyldu síst gleyma.“

Ég vil einnig benda á að í 1. gr. laga nr. 82/1969, en það er einmitt til breytinga á þeim lögum sem þetta frv. er flutt, segir svo, með leyfi forseta:

„Tilgangur laga þessara er sá að vinna gegn misnotkun áfengis í landinu og útrýma því böli sem henni er samfara.“

Það hlýtur að vera fyrsta spurningin, sem vaknar í sambandi við það frv. sem hér liggur fyrir, hvort það sé til þess fallið að útrýma böli áfengisnotkunar eða vinna gegn misnotkun áfengis. Samdóma álit þeirra sérfræðinga sem á fund nefndarinnar komu er að svo sé ekki. Hér sé verið að auka flæði áfengis, hér sé verið að auka vandann, hér sé ekki verið að draga úr áfengisnotkun heldur auka hann, það sé verið að auka það magn sem framboð er á og þar með að hvetja til aukinnar áfengis-, neyslu. Með þetta í huga og jafnframt það að starfandi er nefnd skv. þál. sem á að gera tillögur í áfengismálum höfum við hv. 2. þm. Austurl. leyft okkur að skila svohljóðandi nál., með leyfi forseta:

„Þar sem stjórnskipuð nefnd er að störfum skv. einróma ályktun Alþingis til að fjalla um stefnumörkun í áfengismálum telja undirritaðir nm. allar meiri háttar breytingar á áfengislöggjöf okkar óeðlilegar meðan að þessu starfi er unnið.

Með skírskotun til þessa leggjum við til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Kristín Ástgeirsdóttir sat fundi nefndarinnar og er samþykk þessu áliti.“

Ég ætla ekki að hafa þetta mál öllu lengra. Við skulum gera okkur grein fyrir því að hér hefur verið unnið að á þann hátt að einungis verður um bætt með því að hverfa til þeirrar stefnu sem fylgt var áður en sú skemmdarstarfsemi hófst sem hér hefur verið framin undanfarin ár í sambandi við innflutning á nær óheftu magni af bjór og með því að setja upp sífellt nýja vínveitingastaði, bjórkrár o. s. frv. Það er það sem hefur komið mörgum til þess að gefast upp gagnvart þessu vandamáli, en ekki það að menn sjái í sölu og dreifingu áfengs öls á Íslandi einhverja bót á áfengisvandamálinu. Það eru hagsmunir sem hér eru að verki. Það eru hagsmunaöfl sem vinna að þessu en ekki þau öfl sem vilja vinna í anda 1. gr. þeirra laga sem hér er verið að gera verulega breytingu á.

Vilmundur Jónsson landlæknir skrifaði fyrir hálfri öld merkilega grein um þetta mál og ég held að hvert orð sem þar segir eigi við í dag. En hann sagði líka annað í sambandi við þann áróður sem rekinn var fyrir því að það ætti að kenna fólki að drekka. Hann sagði: „Það á ekki að kenna fólki að drekka. Það á að kenna fólki að drekka ekki.“