10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6221 í B-deild Alþingistíðinda. (5683)

Um þingsköp

Eiður Guðnason:

Það hefur verið fallist á að hér verði fundur á milli kl. 2 og 4 á morgun. Hér á að fara að ræða eitt af stórmálum þessa þings. Ég geri ráð fyrir að ýmsir þm. þurfi að mæta á nefndarfundi í fyrramálið, sumir sjálfsagt kl. 9, aðrir kl. 8. Ég minni á að í gildi er löggjöf sem Alþingi hefur sett um hvíldartíma. Ég geri ráð fyrir að hún gildi um alþm. eins og aðra starfsmenn. Ég er ekki endilega að færast undan því að þessi umr. fari fram. Ég bendi bara á að þetta er ekki alveg í samræmi við gert samkomulag. Það var talað um kvöldfund og mér skildist á forseta að það yrði haldið hér áfram til miðnættis. Nú er kl. farin að ganga tvö. Ég skil ekki hvaða nauður rekur til þess að halda hér áfram umr., sem áreiðanlega verður löng, um þetta útvarpsmál. Ég sé ekki hvers vegna það má ekki bíða morgundagsins. Þetta eru mjög óvenjuleg vinnubrögð. Ég vek athygli á því.