10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6221 í B-deild Alþingistíðinda. (5684)

Um þingsköp

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Heldur þykir mér nú bleik brugðið þegar glæsimennin í hv. Ed. treysta sér ekki til að vaka um stund á bjartri júnínóttu til þess að ræða um áhugamál sín.

Ég legg það auðvitað á vald hæstv. forseta hvernig hann ákveður að fundahaldi skuli hagað, en óneitanlega er ekki hægt að segja að hv. þm. hafi verið þjakaðir með mörgum kvöld- og næturfundum. Margur treystir sér til þess að vinna a. m. k. drjúgan hluta dags og jafnvel allan daginn og næsta kvöld á eftir þegar svo nærri er komið þinglokum og jafnvel þó ekki væri svo.

Það undrar mig auðvitað ekki, herra forseti, að hv. þm. sem er andvígur því frv. sem hér var ætlunin að ræða reyni að fá því sem lengst frestað. Mér finnst það ósköp eðlilegt því að honum þykir auðvitað leitt að þurfa að láta það koma í ljós að hann skuli vera mótfallinn jafnsjálfsögðu og nútímalegu máli. Þess vegna finnst mér ofurskiljanleg sú afstaða að hann vilji reyna að ýta málinu sem allra lengst á undan sér og helst komast hjá því að tala í kvöld. En ég held þó að það væri tilvalið tækifæri fyrir hv. þm. að tala um frv. að næturþeli þegar ýmsir þeir, sem vilja nú hafa sinn átta eða níu tíma svefn og engar refjar, eru farnir heim.

Ég hlaut að láta í ljós undrun á þessu og þá því fremur sem ég veit að hv. 5. landsk. þm., sem og margir þm. þessarar virðulegu deildar, er hinn vaskasti maður. En það eru ýmsir þeir tilbúnir að ræða þetta mál sem þurfa að eiga langan vinnudag, ekki bara á morgun heldur marga aðra daga, en eru reiðubúnir að sitja hér svo lengi sem forseti ákveður að störfum sé haldið áfram, enda var það svo að þessu máli var skipað neðst á lista meðal dagskrármála. Í fyrra dagskrármáli tóku margir þm. til máls og lýstu því yfir að þeir teldu að það væri ekki meðal merkustu mála þingsins. Það má vel vera að margir telji að þetta mál sé það ekki heldur, ekki veit ég það, það kemur vafalaust í ljós, en hins vegar eru margir líka sem telja að svo sé.

Ég mun, herra forseti, auðvitað algjörlega hlíta úrskurði hæstv. forseta um þessa umr., en ég stóðst ekki freistinguna að láta í ljós undrun yfir afstöðu hv. 5. landsk. þm. sem ég veit að er mjög vel heima í þessu máli og hefur raunar haft undanfarin þrjú ár til að kynna sér það, en það eru þrjú ár síðan gengið var frá tillögum að þessu máli.