11.06.1985
Sameinað þing: 93. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6224 í B-deild Alþingistíðinda. (5693)

Um þingsköp

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég trúi því ekki að ég sé einn alþm. um það að hafa áhyggjur af fréttaflutningi fjölmiðla af störfum Alþingis nú upp á síðkastið. Þetta á alveg sérstaklega við um ríkisfjölmiðlana sem að mínu mati hafa sérstöku hlutverki að gegna í upplýsingaskyldu við almenning í landinu. Við höfum veitt því athygli á liðnum vikum og mánuðum að það eru sérstök þingmál sem hafa verið á hægra brjóstinu á fréttamiðlum fjölmiðla og á það einnig við um ríkisfjölmiðlana. Þetta hefur þó raunar keyrt um þverbak nú upp á síðkastið og á síðustu sólarhringum, þegar miklar annir hafa verið á Alþingi og mörg stórmál til umræðu. Enn eru það sömu málin sem vekja athygli fréttamanna, þ. á m. og ekki síst fréttamanna ríkisfjölmiðlanna, og er þar fyrirferðarmest frv. til l. um breyt. á áfengislögum, svokallað „bjórmál.“

Við urðum vitni að því hér á síðasta sólarhring að ríkisfjölmiðlarnir og þá sérstaklega sjónvarpið, sem ekki er tíður gestur í sölum Alþingis, — og ég vil raunar taka það fram að ég tel að ríkisfjölmiðlarnir skipti sér allt of lítið af störfum þingsins og greini allt of lítið frá störfum þess, — sá ástæðu til að heimsækja hv. Ed. í gær og hafa þar nokkurra klst. stöðuga vakt á störfum þingdeildarinnar. Síst skal ég hafa á móti því að fjölmiðlar beini sviðsljósum að hv. Ed. og störfum hennar. En tilefnið sem gafst var hið sama og fyrr, bjórfrv. sæla sem þar var til umr. í þinginu. Síðan fengu hlustendur í fréttum sjónvarpsins þegar í gærkveldi frásagnir af þeim viðburðum og tíðindum sem þar höfðu gerst og enn ítarlegri fréttir í morgun. Út af fyrir sig skal ég ekki lasta það, en slíkar fréttir ætti að flytja af öðrum mikilvægum málum, sem eru til meðferðar og afgreiðslu á Alþingi, þannig að þjóðin fái rétta ímynd af störfum þingsins.

Á sama tíma og frv. um breyt. á áfengislögum var til umr. í Ed. var rætt um byggðamál vegna frv. til l. um Byggðastofnun í Nd. Það var ekki miklar fregnir að hafa af þeirri umr., sem er eitt stærsta mál í landinu um þessar mundir, byggðaþróunina, heldur var hreytt í Nd. og þm. Nd. ónotum í morgunsárið í fjölmiðlum og frá því einu greint að þar hefðu menn farið um víðan völl um þjóðmálin og verið að hita sig upp til eldhúsdagsumræðu. Ég tel fréttaflutning af störfum Alþingis, eins og þann sem ég hef hér lítillega drepið á. vera stórvarasaman fyrir virðingu Alþingis og fyrir þá ímynd sem þjóðin fær af störfum löggjafarsamkomunnar.

Ég óska eftir því vegna margítrekaðra tilefna í rauninni að hæstv. forsetar þingsins geri gangskör að því að hlutast til um það af sinni hálfu að hlutlægt sé skýrt frá störfum þingsins, upplýsandi, ekki með ritskoðunarhugarfari eða fyrirmælum heldur með þeirri eðlilegri kröfu, sem þjóðin á, að fá að frétta sæmilega hlutlægt af því sem er að gerast í sölum Alþingis og að myndin sem alþjóð fær sé ekki skekki með þeim hætti sem gert hefur verið á liðnum vikum og sólarhringum.

Ég treysti hæstv. forseta Sþ. alveg sérstaklega til þess að taka á máli sem þessu, honum er annt um virðingu þingsins, en ég tel einnig að þetta sé mál sem fulltrúar í útvarpsráði hljóti að láta sig nokkru varða. Ég ítreka að það á ekki að vera um íhlutun að ræða í sambandi við fréttir, heldur er það heildarmyndin af störfum þjóðþingsins sem hér er um að ræða og miklu ítarlegri fregnir af störfum löggjafarsamkomunnar en almennt tíðkast í ríkisfjölmiðlunum. Til þeirra gerum við allt aðrar kröfur en til annarra fjölmiðla í þessum efnum, svo ekki sé minnst á síðdegisblöðin og aðra þá sem eru að framleiða fréttir fréttanna vegna.