11.06.1985
Sameinað þing: 93. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6227 í B-deild Alþingistíðinda. (5697)

519. mál, fiskiðnskóli á Siglufirði

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Það er ekki nema allt gott um það að segja að á þessu máli sé gerð athugun og mér sýnist að hæstv. menntmrh. hafi staðið rétt að því að þessu leyti. Auðvitað var fyrirspyrjanda í lófa lagið í sinni tíð sem menntmrh. að kippa þessu í liðinn ef hann hefði viljað taka til þess afstöðu. Ég man vel eftir þessu máli frá því að ég var í skólanefnd Fiskvinnsluskólans. Það voru ýmsir aðrir staðir en Siglufjörður nefndir. Ísafjörður t. d. Það kom sendinefnd frá Ísafirði sérstaklega til skólanefndar til þess að láta athuga þetta fyrir Ísafjörð. Akureyri var að sjálfsögðu nefnd og fleiri. Það er auðvitað hægt að staðsetja fiskvinnsluskóla nánast hvar sem er svo fremi að hráefni fáist og nægilegt sé framboð af kennurum en þar mun skorta mjög á á Siglufirði.

Ég efast um að það mundu fást nema 2–3 nemendur árlega til að sækja fiskvinnsluskóla á Siglufirði. Aðsóknin hér að skólanum hefur ekki verið meiri en svo að hún gefi það til kynna. Það er svo núorðið að fisktæknanám er nánast dautt, einkum vegna þess að nemendur sækja það ekki, telja það ekki svara kostnaði, þeir bæti ekki það mikið við sig, hvorki tekjulega né menntunarlega. Ég held að okkur væri fremur nær að hyggja að því að búa almennilega að þeim fiskvinnsluskóla sem til er. Það hefði ég viljað styðja nú og hef reyndar gert.

Ýmis fyrirtæki, stofnanir og samtök í sjávarútvegi hafa á að skipa sérhæfðum starfskröftum sem nýtast sérstaklega vel við kennslu í sérhæfðum fiskvinnslugreinum. Það má nefna það að þeir aðilar sem grípa inn í starf skólans hér eru t. d. SÍS, Sölumiðstöðin, Ríkismat sjávarafurða, Síldarútvegsnefnd, Baader-þjónustan, Framleiðni, Rekstrartækni, IBM, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Hafrannsóknastofnun og margir fleiri. Það yrði æðidýrt að koma upp loftbrú milli Siglufjarðar og Reykjavíkur til þess að koma þeirri sérhæfðu kennslu á framfæri sem nú virðist þurfa í Fiskvinnsluskólanum. 25% af kennslu í fisktækni eru núna beinlínis háð þessum kennslukröftum og á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins fer fram um það bil helmingur af öllu verklegu námi skólans í efna- og gerlafræði.