15.10.1984
Efri deild: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í B-deild Alþingistíðinda. (57)

10. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Hv. 5. þm. Vesturl. sagði að hann legði ekki mikið upp úr því til hvaða n. þessu frv. yrði vísað. Ég verð að gera þá játningu að ég legg það mikið upp úr því að ég kvaddi mér hljóðs til þess eingöngu að ræða það atriði en ekki frv. efnislega. Og það er að gefnu tilefni. Það er af því sem hv. flm., hv. 8. þm. Reykv., sagði um sinn skilning á þingsköpum sem varðar þetta efni. Ég vil halda því fram að þau sjónarmið, sem hann túlkaði, byggist á misskilningi.

Það eru ótvíræð ákvæði þingskapa um þetta efni og það er ótvíræð framkvæmd þingskapa alla tíð um þessi efni. Það kemur stundum fyrir, en það er ákaflega sjaldan, að það getur orkað tvímælis til hverrar n. á að vísa ákveðnu máli. En í þessu tilfelli getur það ekki orkað tvímælis þar sem um er að ræða frv. sem varðar eina aðallöggjöf landbúnaðarins. Það hlýtur að eiga að vísa slíku máli til landbn. Það er í samræmi við 15. gr. þingskapa þar sem talað er um að hvor þingdeild skuli kjósa fastanefndir til að fjalla um ákveðnar tegundir mála, þ.e. hver n. á að fjalla um sína tegund mála. Ég tel að ekki skipti máli í þessu sambandi hvort það er frv. til heildarlöggjafar eða frv. til breytinga á löggjöf eins og hér er um að ræða.

Ég vek svo athygli á því að ef það væri horfið frá þessari venju, að hafa fastbundið í hvaða n. mál eigi að fara, þá yrði harla erfitt að framkvæma það ákvæði þingskapa í sömu grein þar sem gert er ráð fyrir að venja sé sú að sama máli sé vísað til sömu n. í báðum deildum. Það yrði erfitt að framkvæma það ef breytt yrði þeirri framkvæmd sem verið hefur.

Auk þess er þess að geta að það getur ekki verið sjálfgefið, þó að eitthvert frv. feli í sér útgjöld fyrir ríkissjóð, í hvaða formi sem kann að vera, að það frv. eigi að fara til fjh.- og viðskn. Það eru hreinustu undantekningar ef frv. fela ekki í sér einhver útgjöld í einhverri mynd. Ef slíkri reglu væri framfylgt er ég hræddur um að það yrði yfirþyrmandi starf hjá fjh.- og viðskn. og harla lítið að gera í öðrum n.

Hv. 8. þm. Reykv. vísaði til stjórnarskrárinnar, að því er mér virtist, til stuðnings sjónarmiðum sínum og nefndi 40. gr. stjórnarskrárinnar og 41. gr. Ég tel að það sé fráleitt að hægt sé að leita neins stuðnings í stjórnarskrá ríkisins fyrir þeirri skoðun sem hv. þm. setti fram varðandi afgreiðslu á þessu frv. í n. Ef hv. þm. vill meina að mál sem heyra undir 41. gr. stjórnarskrárinnar eigi að fara til fjh.- og viðskn. — ég skildi hann svo — þá er það misskilningur því að samkvæmt þingsköpum mega engin mál sem heyra undir 41. gr. stjórnarskrárinnar fara í fjh.- og viðskn. Samkvæmt þingsköpum eiga þau öll að fara í fjvn.

Ég skal ekki fara að ræða hér um það hvort æskilegt væri að breyta þeim reglum sem hafa gilt. Það þarf að breyta ýmsu í þingsköpum og það vinnur sérstök n. að því verki. En mér fannst það liggja í orðum hv. 8. þm. Reykv. að hægt væri að breyta framkvæmd þingskapa í þá átt sem hann var að túlka. Ég tel að það sé ekki hægt nema með því að breyta þingsköpum, en það verður ekki gert nema með lögum.