06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (571)

107. mál, skráning og mat fasteigna

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér fsp. á þskj. 111 ásamt Karvel Pálmasyni, sem er svohljóðandi:

„Hvað líður framkvæmd þál. þeirrar sem samþykki var á Alþingi 21. maí 1981 þar sem ríkisstjórninni var falið að láta hraða undirbúningi þess að koma á samræmingu og hagræðingu hjá þeim aðilum sem annast mat og skráningu fasteigna í landinu?“

Fsp. þessari er beint til fjmrh. þar sem Fasteignamat ríkisins heyrir samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands undir fjmrn.

Ástæðan til þess að þessi fsp. er fram borin af mér og Karvel Pálmasyni, sem var annar flm. till. 1981, er sú að nú þegar á allan hátt er verið að leita leiða til sparnaðar í rekstri ríkisins og ríkisstofnana, sem á ýmsan hátt hefur komið illa við þegna landsins, þá er eðlilegt að kannað verði m.a. rækilega hvort unnt sé að koma við sparnaði og hagræðingu hjá þeim aðilum sem annast mat og skráningu fasteigna í landinu og jafnframt að koma í veg fyrir að þar eigi sér stað tvíverknaður á nokkru sviði þar sem fleiri en einn aðili hafi um mörg undanfarin ár átt hér hlut að máli.

Þegar fyrrgreind þál. var flutt var því í framsöguræðu haldið fram að mikill tvíverknaður ætti sér stað og mikill aukakostnaður við mat fasteigna í landinu. Annars vegar brunabótamat og hins vegar fasteignamat. Öll nýbyggð hús eru metin brunabótamati strax og þau eru tilbúin til notkunar. Kostnað við það greiða húsbyggjendur sjálfir. Þau tryggingafélög sem annast brunatryggingar fasteigna láta svo gjarnan á fimm til átta ára fresti endurskoða brunabótamat í hinum ýmsu byggðarlögum eftir því sem tilefni er talið til. Kostnað við það greiða tryggingafélögin. Auk þess getur svo hver og einn hvenær sem er óskað eftir endurmati á húseign sinni, en að öðru leyti fylgir brunabótamatið ársfjórðungslegum breytingum á byggingarvísitölu.

Ekki er vitað nákvæmlega um heildarkostnað við brunabótamat á landinu öllu, en áætla má, samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá forstjóra Brunabótafélags Íslands, að hann sé tæplega 5 millj. kr. á þessu ári. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 1985 er hins vegar áætlaður kostnaður við Fasteignamat ríkisins 13.1 millj. kr. Auk þess leggja sveitarfélögin fram talsverða vinnu við undirbúning fasteignamatsins.

Halda má því fram að hér sér að mestu leyti um óþarfan tvíverknað að ræða og miðaði þessi þál. á sínum tíma að því að draga mjög verulega þar úr, brunabótamat hvers húss sé miðað við endurbyggingarkostnað sams konar húsnæðis. Fasteignamatið gengur í stórum dráttum út frá því sama, en matsupphæðin er lækkuð með fyrningarstuðli. Einn höfuðtilgangur fasteignamatsins er að meta eignir sem grundvöll skattlagningar: eignarskattur til ríkissjóðs, fasteignaskattur til viðkomandi sveitarfélags, vatnsskattur og fleira. Spurningin er því einfaldlega sú, hvernig nota megi grundvöll brunabótamatsins í sama tilgangi. Það ætti að vera auðvelt að nota fyrningarstuðul við ákvörðun skatta ef það á annað borð er talið æskilegt. Það ætti einnig að vera auðveli að setja inn ákveðinn verðbreytingarstuðul fyrir hvert byggðarlag. Þegar meta þarf til skatts nýjar lóðir og lendur og endurskoða matið á nokkurra ára fresti þá er það einnig unnt samkvæmt þessu. Þar eð hér er fyrst og fremst um að ræða mat til skattlagningar er eðlilegt að ríkisskattstjóri annist það og endurskoðun þess á nokkurra ára fresti í samráði við viðkomandi sveitarfélög eða samtök þeirra og með aðstoð Þjóðhagsstofnunar, sem hefur m.a. yfir að ráða öllum nauðsynlegum upplýsingum sem varða landbúnað í því tilviki. Allir útreikningar og upplýsingar, bæði hjá Fasteignamati ríkisins og tryggingafélögum, eru unnar og geymdar í tölvum og því ætti að vera auðvelt að samræma þær og sameina.

Svo sem ég sagði hér í upphafi er tilgangur þessarar fsp. sá að hvetja til sparnaðar á þessu sviði í rekstri ríkisins. Það mun ekki af veita og mörg eru þau mál sem ekki hafa náð fram að ganga vegna fjárskorts hins opinbera. Ég vil í því sambandi minnast hér sérstaklega á eitt mál sem var mjög til umr. hér í þinginu á síðasta vetri — mál sem strandaði á skorti á fjármagni til framkvæmda. Ég tek það aðeins sem dæmi hér. Það var stofnun hjartaskurðlækningadeildar við Landspítalann. Ég skal ekki fara að rekja hér þá miklu nauðsyn sem er á því að það mikilvæga mál nái fram að ganga sem allra fyrst. En vel má vera að þær millj. sem hér mætti e.t.v. spara nægðu til þess að koma slíkri hjartaskurðlækningadeild á laggirnar, svo aðeins eitt ákveðið dæmi sé tekið. Um það efast enginn að slíkt væri hið mesta þjóðþrifaverk og er raunar dæmi um það hve mikilvægt það er að því fjármagni sem ríkið hefur yfir að ráða sé á hverjum tíma ráðstafað til þeirra þarfa sem brýnastar eru.