11.06.1985
Neðri deild: 92. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6285 í B-deild Alþingistíðinda. (5719)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Frsm. 1. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það er nú kominn 11. júní og það er verið að algreiða hér lánsfjárlög fyrir árið 1985 og frv. á eftir að fara til einnar umr. í Ed. vegna breytingar sem meiri hl. lét gera á því hér á dögunum. Allt er þetta frv. með endemum. Tölur í frv., í einstökum greinum þess, hafa ekki staðist stundinni lengur. Þeim hefur verið breytt svo að segja mánaðarlega frá því að frv. var lagt fyrir hér á hv. Alþingi. Vinnubrögðin með þetta frv. lýsa ákaflega vel hvernig staða ríkisfjármálanna er undir forustu núv. ríkisstj. Það stendur ekki steinn yfir steini.

Við umr. og atkvgr. um þetta mál við 2. umr. tókum við þm. Alþb. þá ákvörðun að greiða ekki atkv. um þetta frv. eins og það liggur fyrir. Ég vildi, herra forseti, við 3. umr. málsins koma því sjónarmiði okkar á framfæri að við munum ekki gera það heldur við 3. umr. Stjórnin verður að bera þessa skömm, sem þetta frv. er orðið, og bera ábyrgð á því að fara með það hér í gegnum þingið. Það eru engin dæmi þess frá síðari árum að Alþingi hafi staðið jafnlengi sumars og nú virðist vera ætlunin og það eru engin dæmi þess að lánsfjárlög hafi verið afgreidd með öðrum eins endemum, öðrum eins handabakavinnubrögðum og hér er um að ræða af hálfu hæstv. ríkisstj.

Það er svo eins og til þess að kóróna sköpunarverkið að þegar lánsfjárlög hæstv. fjmrh. eru til síðustu umr. hér í hv. Nd. og eiga eftir að fara til hv. Ed. til einnar umr., 7. umr. í þinginu, er hæstv. fjmrh. farinn úr þinginu. Það er skiljanlegt út af fyrir sig að hann skuli blygðast sín fyrir að vera nærstaddur við afgreiðslu á þeirri smán sem ferill þessa máls er orðinn, það er eðlilegt og skiljanlegt út af fyrir sig, en slíkur flótti frá verkinu er ekki stórmannlegur.

Herra forseti. Ég hef fjöldamargar aths. að gera við þetta frv. Ég kom þeim ítarlega á framfæri við 2. umr. málsins. Ég lagði þá fram upplýsingar m. a. um innlenda lánsfjáröflun þar sem fram kemur að hana er að bera upp á sker. Allar áætlanir varðandi innlenda lánsfjáröflun 1985 virðast ætla að verða tóm vitleysa. Það er því sama hvar er borið niður. Og hér er enginn maður til andsvara. Hæstv. fjmrh. er flúinn úr landi og þó að hæstv. ráðherrar, Matthíasarnir tveir, ráðherrar viðskipta og heilbrigðis, eigi að svara fyrir verða þau svör í skötulíki. Það veit ég fyrir fram vegna þess að þeir vita ekkert um málið.