11.06.1985
Neðri deild: 92. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6289 í B-deild Alþingistíðinda. (5721)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Við 2. umr. vék hv. 3. þm. Reykn. að einum lið sérstaklega í sambandi við lánsfjáráætlun, auk þess sem hann ræddi almennt um erlendar lántökur, hversu miklar þær eru orðnar hjá okkur og hvernig staða þeirra væri með tilliti til þjóðarframleiðslu. Ég get tekið undir margt af því sem hann sagði þá og hef reyndar áður undir öðrum kringumstæðum vikið að því og bent á það. En ég held að við þurfum tvímælalaust að skoða þessi mál afarvel og reyna að mynda þá samstöðu sem þarf til þess að við getum stöðvað erlendar lántökur og stefnt að því, sem ég efast ekkert um að mikill meiri hluti Alþingis vill, að takmarka þær eins og mögulegt er. Það gerist þó ekki öðruvísi en menn nái samstöðu þegar fjárlagagerð á sér stað. Kröfur útgjalda hjá ríkissjóði, hvort heldur það er í framkvæmdum eða með lagasetningu varðandi samneyslu, allt hefur þetta áhrif til þess að auka á erlendar lántökur, eins og undanfarin ár best sýna. Það þarf ekki að fara langt aftur til þess að hlutfall af þjóðarframleiðslu í erlendum lánum sé ekki 60%, ekki 50%, heldur komið niður fyrir 40%. Það sem hv. þm. sagði eru aðvaranir sem margir aðrir og þ. á m. ég hafa vakið athygli á.

Hann vék sérstaklega að einu atriði og ræddi um skammtímalán. fjármagnshreyfingar til skamms tíma sem er breytt töluvert frá því að upprunalega áætlunin var lögð fram eða úr 1200 millj., sem þar átti að vera með plúsmerki, í 2900. Það stafar m. a. af því að bankar hafa vegna breytts fyrirkomulags á afurðalánum tekið lán til að fjármagna þau og um er að ræða styttri lánasamning.

Ef þessar töflur eru skoðaðar kemur að sjálfsögðu í ljós að sú breyting sem þarna á sér stað skilar sér í bættri gjaldeyrisstöðu, þ. e. þessar erlendu lántökur bankanna gera það að verkum að gjaldeyrisstaða Seðlabankans verður önnur og betri. Það nemur einmitt sömu upphæð og þó heldur betur. um 300 millj. kr.. sem stafar þá af öðrum hreyfingum sem eru í endurmati frá því að upprunalega áætlunin er gerð og þar til nú er verið að ganga frá í lánsfjárlögum. Fjh.- og viðskn. hv. Nd. hefur yfirfarið málið og fengið til sín þá aðila sem veita forustu greiðslujafnaðardeild Seðlabankans sem annast þessi mál. Skýringin er í þessu fólgin.

Þegar staða gjaldeyrissjóðs hjá Seðlabankanum batnar þetta mikið getur það orðið til þess að auka á ásókn til hans um fyrirgreiðslu. Það er auðvitað tilefni til slíks. Ég viðurkenni það fúslega. Það er þá þeirra sem með málin fara að standast það og sýna að þessi breyting, sem gerð var, hefur ekki orðið til þess að auka á þensluna og auka erlendar lántökur. heldur breyta þeim úr lántökum Seðlabankans í lántökur viðskiptabankanna og annað ekki. Þegar þessar lántökur fóru fram var af hálfu viðskrn. tryggilega frá því gengið að þessi skilningur væri fyrir hendi. Ég ætla að vona að spá þm. rætist ekki. Að sjálfsögðu mun reynt að fylgja því fram og veit ég að hans varnaðarorð eru hér sett fram einmitt til þess að reyna að stuðla að því að svo verði ekki.