11.06.1985
Neðri deild: 92. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6293 í B-deild Alþingistíðinda. (5725)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég heyri að hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur orðið fyrir vonbrigðum með þá niðurstöðu sem varð við gerð fjárlaga fyrir yfirstandandi ár þar sem styrkur til mengunarvarna í fiskmjölsverksmiðjum var niður felldur og hér við afgreiðslu lánsfjárlaga liggur ekki fyrir neitt sérmarkað fjármagn til þess að auðvelda fiskmjölsverksmiðjum að taka á þeim gífurlega vanda sem þarna er við að fást. Það verður að segjast að orð nægja ekki í þessum efnum. Það skal meira til. Og eins og aðstæður eru hjá þessum fyrirtækjum í sjávarútvegi, sem velflest fást við annan rekstur en fiskimjölsframleiðslu, er það ekki með þeim hætti að fyrirtækin séu aflögufær án þess að til komi sérstök fjármagnsfyrirgreiðsla, m. a. í lánsfjárformi, til þess að taka á þessu vandamáli. Veit ég þó að hugur margra forstöðumanna þessara fyrirtækja stendur til þess að það sé kleift.

Það er í mínum huga ekki einhlítt að upphæðin í þessu skyni þurfi að vera 100 millj. kr. sem ég hef þó talið að væri eðlilegt að miða við því að það kostar talsvert í stofnbúnaði að koma við þessum mengunarvörnum. Ég væri alveg reiðubúinn að breyta þessari till. eða taka undir till. sem sýndi lægri upphæð en sem væri þó viljayfirlýsing af hálfu þingsins um að hefja bæri aðgerðir og ráðstafa nokkru fjármagni í því skyni. Og ég inni hæstv. ráðh. eftir því, og hér vænti ég að hæstv. heilbr.- og trmrh. fái stuðning frá hæstv. iðnrh. sem þekkir þessar aðstæður í Austfjarðakjördæmi, hvort ráðh. muni nú ekki leggjast á eitt um að tryggja að við afgreiðslu lánsfjárlaga nú fáist eitthvert fjármagn til að framlána fyrirtækjunum til að taka á þessu stóra máli og að við undirbúning næstu fjárlaga, sem nú stendur væntanlega yfir hjá stjórnarráðinu, hjá ráðuneytunum, verði tryggt að öðruvísi verði á málum tekið en á yfirstandandi ári og einnig við gerð fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar sem vilji mun vera til að lögð verði fram jafnhliða fjárlagafrv. og afgreidd væntanlega áður en fram kemur á mitt árið 1986. Þetta eru eindregin og vinsamleg tilmæli mín til hæstv. ráðh., sem ég finn að hafa góðan hug til málsins, en hann dugir skammt ef ekki er samstaða um að ráðstafa nokkru fé í þessu skyni og hefjast handa því að þetta verður ekki leyst allt í einu vetfangi.