11.06.1985
Neðri deild: 92. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6295 í B-deild Alþingistíðinda. (5729)

248. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Frsm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það liggur hér fyrir frv. til l. um Þjóðskjalasafn Íslands sem hefur hlotið samþykki í Ed. og menntmn. hefur rætt á sínum fundum. Hún mælir með því að frv. verði samþykkt, en einstakir nm. áskilja sér þó rétt til að flytja eða fylgja brtt.

Varðandi þær brtt. sem frammi liggja frá hv. 5. þm. Austurl. vil ég segja það um hina fyrstu brtt., þar sem talað er um að þjóðskjalavörður skuli skipaður til fimm ára, að ég ítreka það, sem ég hef áður sagt af svipuðu tilefni, að ég álít nauðsynlegt að löggjafinn taki það til athugunar hvort hann vilji taka þessa reglu upp og tel eðlilegt að ríkisstj. taki það til athugunar á þessu sumri og leggi fram frv. slíkri reglu til staðfestingar á næsta Alþingi ef henni býður svo við að horfa eða þm. að öðrum kosti fylgi þessu máli fram í heild, en ég tel ekki eðlilegt að einstakar stofnanir séu teknar út úr af handahófi eftir því hvort þær beri á góma hér í sölum Alþingis eða ekki.

Brtt. nr. 2 og 3 fjalla báðar um sjálfsagt efni. Þar eru ítrekuð almenn sjónarmið sem liggja til grundvallar safnastarfi. Ég tel að þessar greinar þurfi ekki að vera í lögum, eðlilegra sé að hafa þessi ákvæði í reglugerð og mæli því ekki með samþykkt þeirra.