11.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6302 í B-deild Alþingistíðinda. (5734)

Almennar stjórnmálaumræður

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Hugsum okkur gamalt hús. Það er fúið, það lekur, það er maðksmogið og þar er músagangur. Það gæti hafa verið í gömlu braggahverfi frá stríðsárunum. Hvað gerum við við það núna? Sumir vilja vafalaust vernda það, setja það kannske á minjasafn, byggðasafn. Aðrir vilja vafalaust brjóta það niður og byggja nýtt.

Sama máli gegnir að ýmsu leyti um stjórnkerfið okkar. Það er ættað frá ríkiskontórum í Kaupmannahöfn frá því um aldamót. Stjórnkerfið okkar er lekt eins og húsið. Þjóðin ber inn í það ómæld verðmæti sem virðast verða að litlu. stjórnkerfið okkar er maðksmogið. Þar eru hagsmunatengsl og þar eru undirheimasambönd sem veikja undirstöður þess. Og það er músagangur í því, en um meindýrin ætla ég ekki að ræða að sinni.

Hvað gerum við við svona gamalt hús? Eigum við sífellt að reyna að bæta það? Eigum við að reyna að tjasla upp á það? Eigum við að reyna að laga lekann eða eigum við að byggja nýtt? Auðvitað byggjum við nýtt. Og sama á við um stjórnkerfi, sama á við um stjórnarhætti.

En hvað vilja menn gera og hvað er verið að gera og hvað gera gömlu flokkarnir? Tökum dæmi. Eitt af montfrumvörpum ríkisstj. heitir frumvarp til laga um Byggðastofnun. Yfir því hafa þeir legið í tæp tvö ár og það er um það að breyta hinni illræmdu Framkvæmdastofnun í Byggðastofnun til að koma á byggðastefnu. Er hér verið að byggja upp nýtt? Nei. Það er verið að tjasla upp á það gamla. Það er verið að tjasla upp á gamla dótið. Frv. fjallar raunar aðeins um breytingar á innanhúsarkitektúr á hinni gömlu Framkvæmdastofnun uppi á Rauðarárstíg 25 og það kemur byggðastefnu ekkert við. Það þarf enga byggðastefnu ef fólkið fær að ráða. Ef svo fer sem horfir og Byggðastofnun fær að ráða þá verður byggð á Íslandi alls ekki viðfangsefni Byggðastofnunar uppi á Rauðarárstíg. Byggð á Íslandi verður verkefni Þjóðminjasafnsins. Þannig hefur verið staðið að þeim hlutum. Svokallaðir styrkir til eflingar byggðar á tilteknum svæðum verða framlög til að stuðla að fornleifauppgreftri á sömu slóðum.

Þetta var eitt lítið dæmi um það að gömlu ráðin eru ætíð þau að reyna að tjasla upp á, reyna að laga, reyna að laga það sem fyrir er, í besta falli treysta menn sér til að breyta nafnspjöldunum á hurðunum.

Bandalag jafnaðarmanna hefur lagt til algerlega nýja stjórnhætti. Og hverjir eru þeir? Þeir byggjast upp á nútímalegum hugmyndum og gerbyltingu þess gamla. Þeir byggjast upp á jöfnun atkvæðisréttar og eflingu sjálfsstjórnar allra landsmanna, valdið heim. Tillögur okkar eru þær í fyrsta lagi að landið verði eitt kjördæmi í alþingiskosningum. Þannig verði atkvæðisréttur jafn og mannréttindi verði ekki til að semja um. Alþm. verði þm. þjóðarinnar allrar en ekki tiltekinna borgarhverfa eða annesja. Þm. eiga nefnilega að setja lög fyrir þjóðina í heild, fyrir alla landsmenn.

Í öðru lagi leggur Bandalag jafnaðarmanna til að oddviti ríkisstj., forsrh., verði kosinn í sérstakri kosningu í tveimur umferðum, ef með þarf, til að ná hreinum meiri hluta. Í Frakklandi og Bandaríkjunum er oddviti framkvæmdavaldsins kosinn beinni kosningu svo að dæmi séu tekin. En hvað þýðir þetta fyrirkomulag? Jú, það þýðir það t. d. að fólk fær að vita um stjórnarstefnu fyrir kosningar en ekki eftir kosningar eins og nú gerist á Íslandi. stefna ríkisstjórnar á Íslandi verður til í reykfylltum bakherbergjum þingsins í stjórnarmyndunarviðræðum og er víðs fjarri stefnunni sem flokkarnir lýsa í kosningum. Sjálfstfl. lofaði t. d. 80% húsnæðislánum ef hann kæmist til valda. Komst hann ekki til valda? Jú, hann komst til valda. En hvar eru 80% lánin?

Þriðja stórbreytingin sem Bandalag jafnaðarmanna leggur til er fylkjaskipan eins og samþykkt var á landsfundi Bandalagsins 1983. Við leggjum til að landinu verði skipt upp í fylki sem hafi sjálfsstjórn í ákveðnum málaflokkum og sjálfstæða tekjustofna. Þannig verði fólki gert kleift að ná til sín ráðstöfunarrétti yfir eigin aflafé, ná völdum til sín á heimaslóð. Þessi sjálfstjórnarstefna er hin eina sanna byggðastefna.

Það þarf engan byggðakontór uppi á Rauðarárstíg til þess að framfylgja svona byggðastefnu.

Undir þessi atriði sem ég hef rakið getur enginn hinna gömlu stjórnmálaflokka skrifað. Það er lykilatriði. Þeir vilja ekki bylta. Þeir þora ekki að rífa þiljurnar utan af kofunum, utan af kumböldunum í íslenska stjórnkerfinu af ótta við að fólk sjái hvað er fyrir innan og finni af því ólyktina. Þeir hafa valið sér hlutverk minjasafnsvarðarins. Þeir ætla að standa vörð um gamla kerfið, gamla innflutta kerfið frá aldamótum.

Nú kann einhver að spyrja: Hvaða erindi eiga þessi atriði í umræður á eldhúsdegi sem eiga að fjalla um þingstörf vetrarins, vera nokkurs konar úttekt á starfinu? Jú, þau eiga nefnilega það erindi að okkur hefur ekkert miðað. Hér eru sömu atriðin tekin fyrir vetur eftir vetur. Menn eru að fást við að reyna að leysa sömu vandamálin, reyna að tjasla upp á sömu hlutina í staðinn fyrir að fást við grundvallaratriði. Við verðum að breyta grundvellinum til að ná tökum á þeim vandamálum sem herja á okkur. Það eru nefnilega til peningar. Það eru t. d. til peningar til að koma í veg fyrir að aldraðir þurfi að kvíða efri árunum. Og það eru til peningar til að koma húsi yfir höfuðið á hverjum einasta Íslendingi án þess að blóðið springi undan nöglunum á honum í angist og kvíða eins og samtökin Lögvernd hafa dregið fram í sviðsljósið að undanförnu. Og það eru líka til peningar til að koma hér á fót nútímalegu atvinnulífi sem fólk getur verið stolt af og rækt af metnaði. Ég segi að þessir peningar séu til af því að ég veit það. Íslenska þjóðin bakar einhverja stærstu þjóðarköku á Vesturlöndum. En áður en fólkið nær að skipta henni á réttlátan og arðbæran hátt er hún mulin á gólfið og meindýrin komast í hana. Það er stolið af henni í heimskulegar offjárfestingar í virkjunum og það er stolið af henni í veislukostnað í versölum stóriðjuhirðarinnar og það er stolið af henni í glórulausa landbúnaðarstefnu sem kostar þjóðina hundruð milljóna. Við verðum að ná yfirráðum yfir þessum peningum. Þannig getum við skapað réttlátt samfélag. Valdaræningjarnir eru víða en það verður að sækja að þeim, það verður að steypa undan þeim og fólkið verður að ná völdum. Það er lykilatriði. — Góða nótt.