11.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6304 í B-deild Alþingistíðinda. (5735)

Almennar stjórnmálaumræður

Kristín S. Kvaran:

Virðulegi forseti og ágætu tilheyrendur. Ekki verður hjá því komist að líta aðeins yfir farinn veg þessarar ríkisstj. þó að heldur sé hann ófagur og ósléttur. Ég kem ekki til með að grafa djúpt í þau fylgsni sem þessi vegur er. Það sem helst hefði átt að vera á veginum hefur ekki verið til staðar og hefur e. t. v. aldrei staðið til að sýndi sig þar. En það sem enginn hefur komist hjá að sjá þar er fyrir það fyrsta sífelld útungun á stefnuskrám, sem hafa innihaldið loforðaflaum sem ekki er efndur. Það hefur verið eilíft tal um kollsteypu og hótanir í því sambandi. Það hefur átt sér stað mikilúðleg og á stundum illkvittin umræða um ráðherrastóla og tal um að leysa hafi þurft þennan vandann eða hinn og að það hafi verið æskilegt að geta orðið þessum eða hinum að liði. En það verður bara ekki neitt úr neinu.

Það vantar ekki að hæstv. forsrh., og reyndar flestir eða allir hinir hæstvirtir þykjast svo sem í einu orðinu gera sér grein fyrir vandanum og að það verði að bæta úr honum, en í hinu orðinu verður bara aldrei neitt úr neinu. Þar af leiðir að það þarf í rauninni ekki að byrja á því að telja upp allt sem hæstv. ríkisstj. hefur svikið af listanum og allt sem illa hefur tekist til, vegna þess að tíminn leyfir hvort sem er ekki að drepið sé á nema hundraðshluta af öllu góssinu. Í þessu sambandi nægir að minna á hvernig hæstv. ríkisstj. hefur farnast við þá sem erfa eiga landið nú á ári æskunnar.

Það er alltaf verið að veifa nýsköpun af öllum hugsanlegum gerðum og lögunum framan í þjóðina og að það verði að skapa ný atvinnutækifæri. En það verður vitaskuld ekkert skapað af slíku ef ekki verður í heild staðið á annan hátt og betur að menntamálum en nú er gert. Það sama á við um vanda húsbyggjenda og kaupenda og þannig gæti ég haldið áfram nær endalaust.

Þegar litið er til baka er ljóst að ríkisstj. hefur nú nánast alveg lokað loforðapakkanum og er nú um það bil að sýna í einu og öllu sitt rétta andlit. Í ljós kemur að hún er í raun og veru úrræðalaus. Þegar einhver mál eru til umræðu hér í þinginu, þá er þrautalendingin hjá stjórnarliðinu í umræðum nær alltaf hin sama: Já. en stjórnarandstaðan hefur ekki komið með neinar tillögur. Ég spyr: Hver er það sem á að heita ábyrgur fyrir tillögum og úrræðum hér? Ég segi: Það er ríkisstj. á hverjum tíma eða það skyldi maður ætla. En það er alveg augljóst að það stjórnkerfi sem við búum við er alveg gagnslaust og hefur runnið sitt skeið. Það ræður ekki við það að snúa vörn í sókn. Það er alveg greinilegt að með þeim hefðbundnu aðferðum sem hingað til hafa verið notaðar hefur ekki tekist að ráða fram úr vandanum og þess vegna hefur Bandalag jafnaðarmanna tillögur til grundvallarbreytingar á stjórnskipaninni, þannig að takast megi að ráða bót á þessu megingallaða kerfi, kerfi þar sem það eru í raun og sannleika milliliðirnir sem hafa mergsogið þetta þjóðfélag þannig að um fátt er að velja annað en að venda og fá nýjan byr í seglin.

Bandalag jafnaðarmanna leggur til að greint verði á milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds og er markmiðið með hinni nýju skipan að styrkja ríkisstjórnir gagnvart hagsmunaöflum og spillingu og efla raunverulegt lýðræði sem aftur eykur áhrif almennings. Þetta samkrull löggjafarvalds og framkvæmdavalds hefur valdið félagslegri og efnahagslegri ógæfu. Og því viljum við snúa til betri vegar með þjóðkjöri forsrh., þar sem við viljum raunverulegt lýðræði í stað þingræðis. Við viljum í raun þjóðræðis- eða lýðræðisstjórn í stað þingræðisstjórnar. Við ætlum okkur ekki að svipta Alþingi einum eða neinum rétti sem þess er, þ. e. að setja lög og að halda uppi virku eftirliti og aðhaldi með störfum framkvæmdavaldsins. Það á Alþingi að sjálfsögðu að gera og snúa sér að því með einurð.

Það sem við viljum færa til fólksins er rétturinn til þess að ráða hvaða ríkisstj. það er sem situr og hvaða stefna er tekin í málefnum þjóðarinnar. Við viljum að það sé þjóðin sem ráði þessu alfarið og beint, án milliliðanna sem ég gat um áðan og eru í þessu tilfelli þingmennirnir. Við viljum afnema að þeir séu milliliðir sem taka að sér fyrir hönd fólksins, sem kaus þá út á ákveðna stefnu, að sjóða saman úr þessari stefnu graut sem síðan er kölluð stefnuskrá viðkomandi ríkisstj.

Milliliðir eru í flestum tilvikum þjóðfélaginu dýrir. Og það eru þeir í þessu tilviki einnig. Milliliðirnir græða yfirleitt á öðrum hvorum aðilanum og í þessu tilviki er áreiðanlega ekki um neina undantekningu að ræða, því að hér eru það flokkshagsmunirnir sem eru látnir ganga fyrir þegar gengið er til samninga um stefnuskrár ríkisstjórna en ekki þjóðarhagsmunir.

Fjórflokkarnir hafa snúist mjög harkalega gegn þessum tillögum Bandalags jafnaðarmanna, en þeir mega leika sér með þetta og vera með hvaða útúrsnúninga sem er, vegna þess að almenningur er mun slyngari og skynsamari en þeir ætla, slyngari og skynugri en svo að hann skynji ekki hvað við er átt þegar við í Bandalagi jafnaðarmanna erum að tala um að það verði þjóðin sem endanlega ráði hvaða og hvernig ríkisstj. það er sem við völd er hverju sinni og hvaða stefna það er sem tekin er í málefnum þjóðarinnar.

Ætli það séu t. d. nema örfáir sem í raun og sannleika vilja viðhalda þeim skrautlega minnisvarða sem Framkvæmdastofnunin er og hefur verið, skrautlegasti minnisvarðinn um þær ógöngur sem ríkisvaldið og hagkerfið er komið út í hvað varðar óarðbæra offjárfestingu, vaxtastefnu þar sem lán verða að styrkjum og almennt aðhaldsleysi í atvinnurekstri sem treystir á ríkisforsjá og ábyrgðarlausa kjarastefnu með aðhaldslausum fjáraustri til atvinnurekstrar.

Allir flokkar hafa tekið þátt í mótun þessa kerfis og viðhaldi þess, einnig og ekki síst þeir sem vara við ríkisafskiptum. Nú beitir ríkisstj. sér fyrir því að skipt verði um heiti á þessari stofnun að mestu leyti. Það sannfærir mig bara mun betur um að sú gagnrýni sem Bandalag jafnaðarmanna hefur haft í frammi varðandi þessa stofnun hefur reynst vera réttmæt. Það virðist að með þessari aðgerð eigi að hylma yfir hvað raunverulega á sér stað innan þessara veggja. Það stendur auðvitað til að halda þessum fjáraustri áfram af því hv. þm. eru áfram skuldbundnir við kjördæmi sín, og af hræðslu við atkvæðamissi skal sukkinu haldið áfram, en þeir þora ekki annað en að breyta um formerki að þessu sinni. Þessu mætti líkja við fjárglæframanninn sem búið var að loka á með viðskipti í öllum bönkum, kominn á svartan lista, eins og það heitir víst. Hann fór bara upp á Hagstofu og breytti um nafnnúmer til þess að geta haldið áfram fjárglæfrastarfsemi sinni.

Í raun og veru er það mjög svo þjóðhagslega óhagkvæmt að hafa stjórnskipanina eins og hún er nú upp byggð. Það sjá jú allir þegar grannt er skoðað. Eru t. d. ekki allir sammála um að það getur ekki verið hagkvæmt fyrir heildina þegar þingmaðurinn gerir allt hvað hann getur fyrir kjördæmið sitt? Ef hann ætlaði sér að gera vel mundi hann gera allt hvað hann gæti fyrir þjóðina sem heild, sama hvort hann hefði boðið sig fram hér eða þar. Þess vegna viljum við í Bandalagi jafnaðarmanna líka að landið verði eitt kjördæmi, þar sem hver maður hefur eitt og jafnt atkvæði, hvar á landinu sem hann býr, að vægi atkvæða verði jafnt. Þar með er komið í veg fyrir hið margumrædda og velþekkta kjördæmapot og sérhagsmunavörslu stjórnmálamanna.

Við í Bandalagi jafnaðarmanna höfum líka margsinnis bent á það og flutt tillögur um að því yrði svo fyrir komið að menn hefðu réttindi til þess að semja sín á milli um kaup og kjör og þau verðmæti sem til staðar eru, ásamt því að þeim sé frjálst að semja um verð á afurðum, hvort heldur það eru fiskafurðir eða landbúnaðarafurðir. Ég vil halda því fram og fullyrða að í dag væri örugglega ekki sjómannaverkfall og að hundruð fiskverkunarfólks gengju ekki um götur atvinnulaus ef þeirra málum væri fyrir komið með þeim hætti sem ég hef lýst.

Það verða að fara að skýrast línur í því hvaða verðmætamat við ætlum að notast við í framtíðinni og hvernig við ætlum að standa að framtíðarþjóðfélaginu. Það hlýtur að vera manngildið sem ræður, en til þess að svo geti orðið verðum við að treysta á manngildið og til þess að svo geti orðið þarf fólk að lifa við sæmilega reisn og þannig að því sé treyst. Við verðum að berjast fyrir því að nýjar leiðir verði farnar og hið fyrsta verði breytt um stjórnkerfishætti og að valdinu verði dreift. Við trúum þessu og þess vegna ætlum við að halda áfram að berjast fyrir nýjum leiðum.