11.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6315 í B-deild Alþingistíðinda. (5738)

Almennar stjórnmálaumræður

Kristín Halldórsdóttir:

Góðir hlustendur. Nýlega var því haldið fram í þingræðu að réttast væri að heiðra þá sem færu heiðarlega á hausinn. Einhver muldraði þá hér utan úr salnum að þá þyrfti að sæma alla íslensku þjóðina heiðursmerki því að hún væri öll á hausnum. Ég væri til í að umbuna núverandi ríkisstj. á einhvern hátt ef hún viðurkenndi heiðarlega og undanbragðalaust að hún er á hvínandi hausnum með stefnu sína. Til bjargar þeirri stefnu dugir ekkert hlutafélag um nýsköpun með hlutafé sem jafngildir u. þ. b. andvirði eins flugstöðvargróðurhúss á Keflavíkurflugvelli.

Stofnun slíks hlutafélags er eitt þeirra mála sem stjórnarflokkarnir vilja keyra í gegn nú á lokaspretti þingsins í þeirri von að það verði ríkisstj. sú andlitslyfting sem hún þarf nú á að halda. Hugmyndin er í sjálfri sér góð, en því miður verkar málið allt eins og pólitískt vindhögg meðan ekkert er gert til að losa um þá úlfakreppu sem sjávarútveginum, undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, hefur verið komið í. Og í sömu andrá er staðið gegn eðlilegri þróun í menntakerfinu og rannsóknarstarfsemi í landinu.

Það er á þeim sviðum sem við þurfum fyrst og fremst á uppbyggingu að halda. Þar á að treysta þann grunn sem öll nýsköpun framtíðarinnar og efling atvinnulífsins hlýtur að hvíla á. Núverandi ríkisstj. er sama marki brennd og flestar aðrar. Það þarf markvissar aðgerðir í efnahags- og atvinnumálum, segja ráðamenn. Og svo er stofnuð ein nefndin af annarri til að gera tillögur um breytingar á stjórnkerfi, uppstokkun sjóðakerfa, nýsköpun og eflingu og hvað það allt heitir. Efnahagsaðgerðir eru alltaf númer eitt, alltaf efstar á lista. Og með efnahagsaðgerðum á þessi ríkisstj. við eflingu og viðreisn fyrirtækjanna. Já, en hvað um okkur? spyr almennt launafólk. Þið verðið að bíða aðeins, ykkar hagur batnar þegar hagur fyrirtækjanna batnar, þegar efnahagslífið er komið á réttan kjöl, er svarið. Launafólkið, einstaklingarnir og hagur þeirra er alltaf númer tvö. Konur þekkja þetta mjög vel. Þær eru stundum með kröfur um eitt og annað, jafnrétti í launum, jafna aðstöðu til náms og starfa, trygga umönnun barna sinna o. s. frv. Já, já, þetta er alveg sjálfsagt og að þessu skulum við vinna, er sagt. En fyrst þarf að bara að gera þetta og hitt, og þetta og hitt, það eru þessar svokallaðar efnahagsaðgerðir.

En menn ganga fram hjá þeirri staðreynd að slíkar aðgerðir eru dæmdar til að mistakast ef mannlegi þátturinn gleymist. Meðan stjórnvöld bardúsa við uppstokkun sjóðakerfa og útfærslu hugmynda um hlutafélög til eflingar atvinnulífinu er þrengt svo að almennu launafólki að einar launatekjur duga ekki til venjulegs heimilishalds. Sú stefna á eftir að hefna sín. Því er alla tíð borið við að atvinnureksturinn geti ekki borið hærri laun. Með alveg sama rétti má halda því fram að atvinnureksturinn, hvort sem um er að ræða framleiðslu eða þjónustu, líði fyrir láglaunastefnu. Fólk sem tæpast hefur til hnífs og skeiðar heldur ekki í miklum mæli uppi framleiðslu og þjónustu í landinu. Við sjáum dæmin allt í kringum okkur núna. Fólk flýr láglaunastörfin í fiskvinnslu og opinberri þjónustu, það leitar í störfin sem útsölufénu er dælt í á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er sú stefna sem núv. ríkisstj. er komin á hausinn með.

Hagur fyrirtækisins er hagur starfsfólksins, heyrist oft sagt. Ég vil færa áhersluna til og segja: Hagur starfsfólksins er hagur fyrirtækisins. Menn kunna að segja að það komi í sama stað niður, en að mínum dómi er það ekki svo. Ef hagur starfsfólksins er hafður í fyrirrúmi ber það sjálft hag fyrirtækisins fyrir brjósti. Enginn má þó skilja orð mín svo að eina lausnin sé sú að greiða nógu há laun og bæta vinnuaðstöðu, þótt það sé efst í forgangsröðinni í mínum huga. Vitanlega þarf að búa atvinnuvegunum lífvænleg skilyrði og við þurfum að bera gæfu til að hlúa að þeim þroskavænlegu jurtum sem vaxa í okkar eigin garði í stað þess að mæna á grasið hinum megin við girðinguna

Ég tek aðeins eitt dæmi. Ein þeirra tillagna sem Kvennalistinn átti frumkvæðið að á þessu þingi er um eflingu ferðaþjónustu. Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein sem er líkleg til að eiga verulegan þátt í öflun gjaldeyris á komandi árum ef markvisst er unnið að uppbyggingu hennar. Fjölgun erlendra ferðamanna hefur farið langt fram úr áætlun undanfarin ár og á síðasta ári skilaði ferðaþjónusta rúmlega 2 milljörðum kr. í þjóðarbúið. Hins vegar skortir töluvert á að við séum í stakk búin til að mæta þessari aukningu og er brýnt að byggja upp aðstöðu til móttöku ferðamanna einkanlega úti á landi. Það hefur auk þess þann mikilvæga kost að skapa atvinnu í dreifbýlinu og stuðla að jafnvægi í byggð landsins, sem ekki er vanþörf á einmitt nú. — Ekki er síður mikilvæg sú staðreynd að ferðaþjónusta er atvinnuvegur sem býður upp á fjölbreytt störf sem flest henta konum vel.

Breyttir atvinnuhættir, aukin tæknivæðing og aukin sérhæfing hefur bitnað í ríkari mæli á konum en körlum og þær eru oftast í meiri hluta atvinnulausra. Það er staðreynd sem ekki má gleymast við uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi. Ráðamenn hljóta að fara að átta sig á því að helmingur vinnuafls þjóðarinnar eru konur. Auk heimilisstarfanna, sem lofuð eru í orði en einskis metin á borði, bera þær uppi heilar atvinnugreinar eins og fiskvinnslu og margháttuð þjónustustörf. Þær hafa tekið á sig hlutverk fyrirvinnunnar við hlið karla og þjóðfélaginu ber að viðurkenna það og meta. Konur eru nú æ meðvitaðri um þrótt sinn og möguleika. Þær brýna nú raust sína sem hver fyrir sig er kannske veik og mjóróma en saman mynda þær kór sem ekki verður þaggaður niður.

Ég þakka þeim sem hlýddu og óska öllum gleðilegs og gjöfuls sumars.