11.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6316 í B-deild Alþingistíðinda. (5739)

Almennar stjórnmálaumræður

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Hver er sú mynd sem blasir við ef skyggnst er út fyrir veggi þessa virðulega húss Alþingis Íslendinga og reynt að draga upp mynd af baráttu fólksins, brauðstritinu á þessum átta mánaða tíma meðan Alþingi hefur setið að störfum? Lítum nánar á annál íslensks þjóðfélags s. l. átta mánuði og gerum síðan upp við okkur, hv. þm., hvort störf Alþingis hafa tekið mið af þeim raunveruleika sem við blasir úti í þjóðfélaginu.

Í upphafi þings langvarandi kjaradeilur, hatrömm átök á vinnumarkaðinum, mánaðar verkfall opinberra starfsmanna. Vegna hvers? Vegna þess að ríkisstj. hafði gengið of langt og misboðið sjálfsvirðingu og réttlætiskennd launafólks sem þrælar myrkranna á milli og á samt ekki fyrir framfærslu heimilanna. Þetta fólk sá að ríkisstj. var úrræðalaus og því var einu gert að greiða niður herkostnaðinn af verðbólgustríðinu. Það sá líka að til var önnur þjóð í landinu sem engar byrðar þurfti að bera, sem lifði áfram sínu lúxuslífi, jók einkaneyslu sína og greiddi ekki sinn hlut í sameiginlega sjóði landsmanna á sama tíma og þriðja hver króna var hirt úr þeirra launaumslagi.

Fleira bar til tíðinda á vinnumarkaðinum. Hátt á annað þúsund manns í fiskvinnslu vítt og breitt um landið var atvinnulaust svo vikum skipti. Þá kom glögglega í ljós það óþolandi réttindaleysi sem fiskverkunarfólk býr við, þegar nánast með engum fyrirvara er hægt að reka það kauplaust heim af vinnumarkaðinum. Kennarar sögðu upp störfum vegna lélegra kjara og kröfðust endurmats á störfum sínum. Flótti varð úr stétt hjúkrunarfræðinga vegna mikils vinnuálags og lélegra kjara. Neyðarástand blasir nú við á sjúkrahúsum. Þar vantar 250 hjúkrunarfræðinga. Sjómannaverkfall stendur yfir um það leyti sem Alþingi er að ljúka störfum og 1500 manns í fiskvinnslu hefur verið sagt upp störfum. Neyðarástand hefur skapast á dagvistarheimilum þar sem vantar 250 fóstrur til starfa, en 350 fóstrur og Sóknarkonur hættu störfum á s. l. ári á dagvistarheimilum vegna mikils vinnuálags og sultarlauna. Hæstv. menntmrh. datt í hug snjallræði til þess að leysa þann vanda. Skipta bara einu plássi milli tveggja barna, sagði hæstv. menntmrh.

Það sem er athyglisvert við ástandið á vinnumarkaðinum s. l. vetur er sá mikli flótti sem nú er hafinn úr hefðbundnum kvennastarfsgreinum með þeim afleiðingum að neyðarástand er að skapast í sumum þeirra. Konur hafa fengið nóg. Þær hafa risið upp og krafist úrlausnar, krafist þess að augu ráðamanna opnist fyrir því að það er ekki endalaust hægt að kaupa vinnuframlag kvenna ódýru verði. Því er ekki lengur hægt að ganga fram hjá þeirri kröfu að störf kvenna á vinnumarkaðinum verði endurmetin.

En sumir kvörtuðu ekki s. l. vetur yfir kjörum sínum. Það var hin þjóðin, þessi skattlausa, með sporslurnar, kaupaukana, bíla- og skattfríðindin. Þannig var það með huldumanninn sem fregnin kom um í blöðum og var tekjulaus samkvæmt skattskýrslunni en átti eignir upp á 35 millj. kr. og nýttist allur persónuafslátturinn upp í greiðslu eignarskatts. Ekki heyrðist heldur frá þeim þrem tugum einstaklinga sem samkvæmt skattframtölum eiga eignir metnar á 600 millj. kr. Samningamennirnir hans Sverris iðnrh. voru líka ánægðir með sinn hlut. Það gat verið verra. Þreföld mánaðarlaun verkakonunnar á hverjum mánuði fyrir nefndarstörf í aukavinnu og 6 millj. í risnu og ferðalög.

Bankastjórarnir kvörtuðu heldur ekki. Þeir fengu 50 þús. kr. á mánuði rétt si svona í bílastyrk. Bankinn greiddi líka rekstrarkostnað af bílunum og þeir þurftu sjálfir ekki að greiða fyrir lífeyrisréttindi eins og almúginn. Á sama tíma bárust líka fréttir af aldraða verkamanninum og verkakonunni sem alltaf höfðu þurft að greiða fyrir sín lífeyrisréttindi en fengu bara í sinn hlut 1/10 af lífeyriskjörum bankastjóranna. Í fréttum var lýst neyðarástandi hjá öldruðum, margir byggju við öryggisleysi og væru vannærðir. Um 2500 aldraðir biðu eftir vistun á dvalarheimilum, lyfja- og lækniskostnaður hafði hækkað um 200–360% og kaupmáttur elli- og örorkulífeyris var einungis 64% af því sem hann var á árinu 1978.

Sumir höfðu greinilega enga launaauka og sporslu frá Sverri iðnrh. því að fréttir bárust um að fjöldi fólks væri með eigur sínar á uppboði og 18000 beiðnir höfðu borist um nauðungaruppboð.

Stofnaður var félagsskapurinn Lögvernd sem vernda á borgarana gegn okurlánum og aðgangshörðum skuldheimtumönnum og að sögn forsvarsmanna Lögverndar að koma í veg fyrir spillingu í íslensku réttarfari.

Mjög skýrðist hvers vegna launafólk á Íslandi hefur lengstan vinnudag í Evrópu þegar eitt dagblaðanna greindi frá því að íslenski iðnverkamaðurinn væri þrisvar sinnum lengur að vinna fyrir sínum matvælum en hollenski iðnverkamaðurinn og tvisvar sinnum lengur en sá norski og danski.

Áhugamenn um úrbætur í húsnæðismálum létu einnig mjög til sín taka. Á einni viku var risin upp 6000 manna fjöldahreyfing sem krafðist þess að komið yrði í veg fyrir greiðsluþrot heimilanna. Þá viðurkenndi forsrh. mistök ríkisstj. og að leiðrétta hefði átt misgengi sem á undanförnum árum hefði orðið milli launa og lánskjara, eins og Alþfl. lagði til 1980, sem varð vegna gífurlegra kjaraskerðinga og vaxtafrelsis Þorsteins Pálssonar, enda er nú svo komið að meðalskuldabyrði þeirra sem leita fyrirgreiðslu hjá Húsnæðisstofnun vegna greiðsluerfiðleika er 1250 þús. kr.

En fleira bar til tíðinda. Í blöðunum var sú fregn að tæplega þriðjungur ungs fólks á aldrinum 18–22 ára á Íslandi vildi flytjast af landi brott til frambúðar skv. niðurstöðum skoðanakönnunar.

Mikið var skrafað á aðalfundi Seðlabankans um sparnað, aðhald, þrengingar, peningaleysi og arðbærar framkvæmdir og áfram reis Seðlabankahöllin.

Fregnir bárust um laxveiðar toppanna í embættismannakerfinu, þær hefðu numið 700 þús. kr. á síðasta ári. Bílafloti Seðlabankans væri búinn tveim torfærubílum af Range Rover-gerð og veisluhöld og risna bankans hefði numið 200 þús. kr. á mánuði á s. l. ári.

Tímaritið Lúxus hóf göngu sína fyrir lúxusþjóðina um svipað leyti og fréttir bárust um að skattsvikarar gætu andað rólega því að dómsmeðferð skattsvikamála tæki mörg ár.

Þannig var nú myndin af þjóðfélaginu utan við sali Alþingis.

En hver er annáll 107. löggjafarþings Alþingis Íslendinga og ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar sem ferðinni ræður? Skyldu störf þess og lagasetning ekki hafa endurspeglað það ástand sem ríkti úti fyrir sölum Alþingis? Á það er fróðlegt að líta til samanburðar.

Jú, Alþingi ræddi bjór, útvarpslög og selveiðar milli þess sem samþykkt voru lög um afréttamátefni, sláturafurðir, verslunaratvinnu, löggilta endurskoðendur og sölu jarðarinnar Hamars í Glæsibæjarhreppi og Víðiness í Berufjarðarhreppi, lög um veðurstofuna, alþjóðasamning um gáma, veitinga- og gististaði, mörk Garðabæjar og Kópavogs, tónlistarskóla, frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri, framlengingu á tímabundnu vörugjaldi og lög um kirkjusóknir, sem kveða á um hve oft skuli messað í viku hverri í hverjum söfnuði, allt eftir fjölda sóknarbarna. Á sama tíma voru flest þingmál stjórnarandstöðunnar kistulögð í nefndum eða vísað frá. Svo fór um frv. sem tryggja átti atvinnuöryggi fiskverkunarfólks, þingmál Alþfl. um endurmenntun og starfsþjálfun vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu, um sérstaka aðstoð við einstæða foreldra vegna menntunar barna þeirra, um stighækkandi eignarskatt á stóreignir og stórfyrirtæki, skattafslátt til húsbyggjenda, skuldbreytingu á skammtímalánum í bönkum til 10 ára, réttarstöðu heimavinnandi fólks og endurmat á störfum láglaunahópanna í þjóðfélaginu.

Einkenni fjárlaga 1985 var mikill samdráttur í félagslegri þjónustu. Framkvæmdaframlög voru skorin niður til hafna, heilsugæslustöðva, skóla, dagvistarmála, sjóða fatlaðra og aldraðra, sem í engu skilaði sér í ríkiskassann til Alberts vegna skattívilnana á sama tíma til fyrirtækja, fjárfestingaraðila, hlutabréfaeigenda og banka.

Felldar voru tillögur Alþfl. um eignarskattsauka á stóreignir og stórfyrirtæki, skatta á banka, skrifstofu- og verslunarhúsnæði og að hagnaður Seðlabankans yrði gerður upptækur í ríkissjóð. Þessar tillögur hefðu gefið um 1.5 milljarð kr., sem Alþfl. lagði til að að verulegu leyti yrði varið til húsnæðismála, svo og til nýsköpunar í atvinnulífinu, aðgerða gegn skattsvikum og til dagvistarheimila og Framkvæmdasjóðs fatlaðra.

Fjárlögin voru síðan afgreidd með miklum halla og vandanum vísað yfir á framtíðina en erlendar lántökur auknar um 10 þús. millj. kr., sem þýðir að hvern einasta dag ársins á að bæta við tæpum 28 millj. kr. í nýjum erlendum lánum. Erlendar lántökur, sem árin 1975–1980 námu 32–35% af þjóðarframleiðslu, eru áætlaðar á árinu 1985 tæp 64% af þjóðarframleiðslu. Þegar fjmrh. er spurður um ummæli sín þess efnis að ríkisstj. ætti að fara frá ef erlendar lántökur færu yfir 60% af þjóðarframleiðslu segir hann bara: Það var í fyrra — og situr sem fastast.

Við afgreiðslu lánsfjárlaga voru síðan felldar tillögur Alþfl. hér í Nd. um að skera niður erlendar lántökur um 1 milljarð kr. og að engu haft ákvæði í hjónabandssáttmála Steingríms og Þorsteins í græna kverinu um að dregið skuli úr erlendum lántökum. Í hjónabandssáttmálanum stendur líka að róttækrar stefnubreytingar sé þörf. Samt er enga róttæka stefnubreytingu að finna í úrræðum eða tillögum ríkisstj., hvorki í frv. um nýsköpun atvinnulífsins, sem fjármagna á með erlendum lántökum, eða frv, ríkisstj. um Byggðastofnun og Framkvæmdasjóð Íslands sem ætlað er til andlitslyftingar fyrir ríkisstj. Þau fela nánast í sér þá einu breytingu að Framkvæmdastofnun verði tvíhöfða þurs, skipt í tvennt með tveimur stjórnum og forstjórum.

Bullandi ágreiningur er líka hjá stjórnarflokkunum um framleiðsluráðslögin sem þó eru ekkert annað en staðfesting á áframhaldandi ríkisforsjá og óbreyttri landbúnaðarstefnu.

Hæstv. fjmrh. hefur kallað 70 millj. kr. eignarskattsauka á fyrirtæki eignaupptöku. En hann minnist ekki á eignaupptöku hjá húsbyggjendum og íbúðakaupendum. Ég nefni ung hjón hér í borg. Þau standa uppi allslaus, ekki með eina krónu í vasanum ef þau selja íbúð sína. Í fjögur ár hafa þau þó notað margra mánaða laun sín í að greiða niður 400 þús. kr. lán af íbúð sinni. Samt eru eftirstöðvar lánsins 1.4 millj. kr. fjórum árum síðar eða sama upphæð og þau fá fyrir íbúð sína. Þau standa verr að vígi en þegar þau byrjuðu baslið fyrir fjórum árum síðan. En dæmi þessara hjóna endurspeglar ástandið hjá þúsundum húsbyggjenda og íbúðakaupenda.

Góðir áheyrendur. Þegar tjaldið fellur og 107. löggjafarþing íslensku þjóðarinnar lýkur störfum, þá gætu eftirmæli þess verið þau sömu og um ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar: Þar var alltaf vitlaust gefið. Hinar pólitísku nótur voru aldrei slegnar í takt við veruleikann, aldrei í takt við vilja þjóðarinnar eða þarfir vinnandi fólks í þessu landi.

Ég þakka áheyrnina. Góðar stundir.