11.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6320 í B-deild Alþingistíðinda. (5740)

Almennar stjórnmálaumræður

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Líklega hafa hugsandi menn aldrei fyrr verið jafn uggandi um ástand og horfur í íslenskum efnahags- og stjórnmálum. Aldrei hefur stjórnmálaflokkur afhjúpað sig jafn gersamlega og Sjálfstfl. hefur gert það tímabil sem núv. ríkisstj. hefur starfað. Í síðustu kosningabaráttu lagði Sjálfstfl. ofurkapp á að gefa fyrirheit um betri tíð, bætt stjórnarfar. Þeir lofuðu húsbyggjendum 80% láni á íbúð, þeir lofuðu að drepa verðbólguna, þeir hétu launþegum betri lífskjörum, það yrði aðeins að fórna nokkru um stundarsakir fyrir betri framtíð. Síðast en ekki síst var því heitið að Sjálfstfl. tryggði að sjávarútvegur yrði rekinn af þrótti og mikilli reisn.

Nú er komin reynsla á þessi stefnuloforð Sjálfstfl. Nú er landsmönnum ljóst að öll þessi fyrirheit hefur Sjálfstfl. svikið. Húsbyggjendur búa við neyðarástand, verðbólgan er á fullu skriði, launþegar hafa séð 25% launa sinna hverfa úr launaumslögunum og sjávarútvegurinn býr við mikla kreppu.

Hvað sjávarútveginn varðar ríkir ekki einungis algert skilningsleysi og ráðleysi. Sjávarútvegurinn er alger hornreka stjórnvalda. Tekjutap sjávarútvegsins miðað við 1980 er samtals 8 milljarðar kr. Vissulega er það alvarlegt. En í stað þess að bregðast við þessum staðreyndum á þann hátt að allt þjóðfélagið sé látið axla þá byrði er markvisst stefnt að því að koma sjávarútveginum á kné. Sjávarútvegsfólkið, sjómenn, fiskvinnslufólk og útvegsmenn, er hundelt, fólkinu greidd smánarlaun, útvegsmenn hengdir í snöru bankavaldsins. Það eru hins vegar milliliðirnir, þeir sem vart þekkja mun á þorsk og ýsu og hafa allt sitt á þurru, sem maka krókinn. Ábyrgð Sjálfstfl. á kreppu sjávarútvegsins er sú staðreynd að þeir nota framsóknarmenn til að stjórna sjútvrn. Afleiðingin er augljós. Sjávarútvegur á Reykjanesi, sem hér áður fyrr var vaxtarbroddur atvinnulífs á Íslandi, er kominn að fótum fram. Þar blasir við auðn og erfiðleikar. Hvert útgerðarfyrirtækið af öðru fer undir hamarinn. Gjaldþrot, stöðvun, uppsagnir starfsfólks eru helstu tíðindin þar syðra. Það er tímanna tákn að með tilstilli Sjálfstfl. er verið að ganga af einstaklingsframtakinu dauðu um land allt. Það er tímanna tákn að sjávarútvegur á Reykjanesi, sem var stolt Ólafs heitins Thors, er nú að koðna niður. Menn sem áratugum saman hafa lagt nótt við dag við störf að sjávarútvegi sjá nú á eftir fyrirtækjunum í hendur uppboðshaldara. Arftakarnir í Sjálfstfl. stjórna nú ráðuneyti erlendra skulda og okurlána, því ráðuneyti sem einkum er ábyrgt fyrir eignaupptöku í sjávarútvegi.

Það var yfirlýst af ríkisstj. að gera þyrfti tímabundnar ráðstafanir til varnar gegn verðbólgu og erfiðu efnahagsástandi, ástandi sem Ketill skrækur íslenskra stjórnmála, Alþb., átti hvað mestan þátt í að skapa, ástandi sem vissulega var óþolandi. Það var tekið til hendi. Niðurstaðan varð hins vegar sú ein að lækka launin, ræna úr umslögum verkafólks og sjómanna. Ekkert var annað gert. Jú, ósanngjarnt væri að geta þess ekki að veðlánarar og fulltrúar þeirra ríku fengu aukið frelsi. Þeir sjálfstæðismenn með framsóknarmenn í farteskinu hafa hrópað: frelsi, frelsi, sem Þorsteinn Pálsson, sporgöngumaður framsóknar, og félagar hafa síðan innleitt í íslenskt þjóðlíf. Þetta er frelsi fyrir suma, frelsi fyrir þá sem nú maka krókinn á kostnað hinna efnaminni, frelsi til að auka tekjumuninn í þjóðfélaginu, frelsi fyrir veðlánara og okurlánara. Verkafólk og sjómenn þekkja ekki þetta frelsi. Launþegar þekkja aðeins frelsið af afspurn. Líka þá sem hafa frelsi til að verðleggja neysluvöru, þá sem hirða íbúðirnar, þá sem bjóða upp fyrirtækin.

Það liggur fyrir að nú næstu vikur mun kaupmáttur launa hrapa enn frekar en áður. Launþegar finna það nú þegar því verðhækkanir lífsnauðsynja dynja yfir. T. d. má taka að sú fjölskylda sem notar 5 lítra af mjólk á dag greiðir 5 þús. kr. fyrir það á mánuði eða 60 þús. á ári. Enn á ný finna menn fyrir því að svo til allir hlutir eru vísitölubundnir nema kaupið. Verkafólk verður að fá kjarabætur. Það verður að fá leiðréttingu launa svo að hin fjölmörgu alþýðuheimili í landinu fái risið undir þungbærum útgjöldum. Það verður líka að sýna sjávarútvegsfólkinu þá sjálfsögðu virðingu að það fái starfsöryggi og mannsæmandi laun.

En hvernig skal þetta gert? Eru gömlu leiðirnar færar? Er það einhvers virði að knýja fram 20–30% kauphækkanir? Alþfl. svarar þessu neitandi. Við viljum kaupmátt en ekki kollsteypu. Við viljum að nú þegar verði gengið til samninga svo kaupmáttarhrapinu verði forðað. Það verður að knýja ríkisstj. til að ábyrgjast þann kaupmátt sem um verður samið. Samningar án tryggingar eru sjónhverfing.

Ríkisstj. hefur hrakist úr hverju víginu á fætur öðru. Heildaryfirsýn skortir og gullin tækifæri til að breyta þjóðfélaginu hafa ekki verið nýtt. Í fyrra þegar Verkamannasamband Íslands lagði fast að ríkisstj. að fara svokallaða skattalækkunarleið í kjarasamningum var því hafnað. Þá var tækifæri til í samráði við verkalýðshreyfinguna að minnka verðbólguna og bæta lífskjörin. Þetta tækifæri glataðist vegna ósamlyndis í þingflokkum sjálfstæðis- og framsóknarmanna sem tvístruðust eins og hænsnahópur þegar þeir stóðu frammi fyrir raunhæfum valkostum sem hefðu rétt þjóðarskútuna af. Þeir höfnuðu leið kaupmáttar og lægri verðbólgu. Þeir völdu kollsteypuna.

Nú eru kjarasamningar aftur lausir í haust. Launþegar sjá fyrir sér að leið kollsteypu dugir ekki. Þeir vita að 23% kauphækkun í fyrrahaust er að engu orðin. Launþegar standa nú verr að vígi en fyrr. sú uppákoma hefur átt sér stað að Vinnuveitendasambandið er farið að bjóða launahækkanir. Sú staðreynd sýnir að hægt er að bæta kjörin í landinu. Það er líka ástæða til að gefa þeirri hugsun rúm hvers vegna verkalýðshreyfingin hefur misst frumkvæðið í kjarabaráttunni. Er hún sem lifandi framsækin hreyfing að daga uppi? Hvers vegna er ekki á vitrænan hátt reynt nú þegar að forða kaupmáttarhrapi sumarsins? Sú ríkisstj. sem ekki getur í samráði við verkalýðshreyfinguna tryggt kaupmáttinn er ónýt. Á það verður að reyna og á það skal reynt. Þeir sem ekki vilja leggja sig fram um að forða kaupmáttarhrapinu heldur bíða með hendur í skauti eru andstæðingar hagsmunum verkafólks. Ábyrgð slíkra manna er mikil. Hún er meiri en þeir fá undir risið. Við í Alþfl. viljum afmá þann smánarblett á þjóðfélaginu sem birtist í kauptöxtum Vinnuveitendasambandsins. Við bendum á að hefðbundnar leiðir í kjarabaráttunni duga ekki lengur. Okkur vantar pólitískt afl sem hefur vit og vilja til að afnema ranglætið. Og hvernig? er spurt. Með skammtímasamningum strax til að afstýra kaupmáttarhruni sumarsins, með afnámi tekjuskatts á almenn laun og lækkun útsvars strax 1985, með 3.5 milljarða framlagi til húsnæðismála á ári næstu 10 árin, með sameiginlegum lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn, með hækkun ellilauna og tekjutryggingar strax. Þetta jafnframt hóflegum tryggum kauphækkunum eru kjarabætur án kollsteypu.

En hvert á að sækja peningana? Þurrkum út söluskattssvikin með því að innheimta söluskatt í tolli og skera niður undanþágur. Leggjum eignarskattsauka á skattsvikinn verðbólgugróða stóreignafyrirtækja og stóreignamanna, Stigahlíðarþjóðarinnar, sem við köllum svo. Skilum launaskattinum til húsnæðislánakerfisins. Herðum skattlagningu á banka, innlánsstofnanir og verðbréfamarkaði. Þjóðnýtum Aðalverktaka og leggjum hagnaðinn í ríkissjóð. Þjóðnýtum hagnað seðlabankans og tökum Seðlabankahöllina undir stjórnarráð. Bjóðum olíuverslunina út og lækkum þannig olíu- og bensínverð. Herðum eftirlit með innkaupsverði heildsalanna og sviptum þá verslunarleyfi sem svindla á löndum sínum. Hættum 600 millj. kr. matargjöfum í formi útflutningsbóta til ríkra úflendinga. Sneiðum fitulagið af ríkisbákninu og afnemum velferðarkerfi fyrirtækjanna.

Góðir hlustendur. Þetta eru nokkrar af tillögum Alþfl. til að jafna eigna- og tekjuskiptinguna og tryggja þjóðfélagslegt réttlæti. Í brjóstum okkar bærist sú tilfinning að ríkisstj. ráði ekki við verkefni sitt. Við skulum leysa hana af hólmi sem allra fyrst. Við skulum þrátt fyrir allt, þrátt fyrir mistök og óstjórn, horfa fram á við. Fortíðin skiptir ekki meginmáli. Við skulum horfa til framtíðar. Stefna Alþfl. er í takt við þær meginhugmyndir sem bærast í brjóstum fólksins í landinu. Hugmyndir Alþfl. eru kall nýrrar tíðar gegn hefðbundnum leiðum fyrir framtíðina. Við erum bjartsýn í Alþfl. því við vitum að þetta er hægt. Íslenskt launafólk, gangið til liðs við Alþfl. Verið með í breytingunni.