11.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6332 í B-deild Alþingistíðinda. (5744)

Almennar stjórnmálaumræður

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Í þeirri góðu von að Íslendingar séu ekki fyrir löngu sofnaðir undir þessum ræðuhöldum ætla ég að leyfa mér þann munað að taka ekki þátt í þeim kórsöng sem stjórn og stjórnarandstaða stunda hér. Þessi söngur er um gerðir og misgerðir, afl og veikleika stjórnar og stjórnarandstöðu og er sunginn til að reyna að viðhalda þeirri trú fólks að þessir flokkar séu fulltrúar hugmynda og hugsjóna og takist hér á um grundvallaratriði í stjórnmálum og lífsskoðunum.

Ein ástæðan fyrir því að fólk trúir þessu enn er sú, að þess er vandlega gætt af fjórum flokkum að fólk fái ekki nema stöku sinnum að fylgjast milliliðalaust með störfum þingsins. Ég tel þessa athöfn hér í kvöld ekki gefa neina milliliðalausa innsýn í störf þingsins því að hér er sett á svið umræða sem ekkert á skylt við þá umræðu sem fram fer á þingi venjulega. Og þessi umræða kemur fólki að litlu gagni við að mynda sér skoðanir á mönnum og málefnum því að auðvitað ætti að vera stöðugt og beint útvarp frá Alþingi þegar það starfar.

Við störfum hér í umboði kjósenda. Þjóðin hefur ráðið þm. til starfa og þjóðin á rétt á því að geta fylgst stöðugt og milliliðalaust með því hvað við erum að starfa og hvernig við störfum. Meiri hl. þm. er á móti beinu útvarpi frá Alþingi. Ég vil nota þetta tækifæri hér til þess að hvetja samþm. mína til þess að skipta um skoðun í þessum málum því að kjósendur eru löngu búnir að missa trúna á foreldrahlutverk stjórnmálamanna og kjósendur spyrja sig þeirrar spurningar: Hvers vegna vilja starfsmenn okkar, þ. e. þm., ekki að við getum fylgst beint með störfum þeirra? Hvað hafa þeir að fela? Blygðast þeir sín fyrir eitthvað?

Þeir sem ekkert hafa að fela ættu ekki að vera á móti því að útvarpað verði beint frá Alþingi. Ég veit að mörgum er það feimnismál að fylgst sé með störfum þeirra hér á þingi, feimnismál vegna þess að þeir voru kosnir, þeir voru ráðnir hér til þess að standa vörð um hugsjónir og grundvallaratriði sem þeir bregðast nærri daglega. Auðvitað er það feimnismál fyrir sjálfstæðismenn að standa hér upp í hverju málinu á fætur öðru og verja aukin afskipti og umsvif ríkisins. Auðvitað er það feimnismál þegar rædd er sala ríkisfyrirtækis og fulltrúi verkalýðsins stendur upp, ekki til að verja hagsmuni þjóðnýtingar eða starfsfólks verksmiðjunnar, nei, bara til að bera blak af tveimur löngu látnum sjálfstæðismönnum sem einhvern tíma höfðu setið í stjórn þessa fyrirtækis.

Auðvitað er það feimnismál þessa Alþingis að hér er örsjaldan deilt um grundvallaratriði. Og það er í því sem þverrandi virðing Alþingis er fólgin. Hvers vegna halda menn að áheyrendapallar hafi fyllst hér í gær og allir fjölmiðlar verið á staðnum fram yfir miðnætti? Hvers vegna halda menn að áhuginn á bjórmálinu svokallaða sé jafnmikill og hann er? Það er fyrst og fremst vegna þess að fólk finnur að hér er tekist á um grundvallaratriði, um grundvallarafstöðu manna til bindindis eða áfengisneyslu og um grundvallarafstöðu manna til hlutverks löggjafans í að móta neyslu manna á áfengi. Fólk hefur skoðanir á þessu máli sem og öðru. En það er sárasjaldan sem fólk hefur það á tilfinningunni að stjórnmálamenn hafi skoðanir sem séu þess virði að kynna sér þær og fylgjast með þeim.

Bjórmálið var til umræðu í fyrra, þá sem tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var sýnt að sú tillaga hefði ekki hlotið samþykki þings. Þá töluðu menn hér af vandlætingu um að alþm. ættu ekki að afsala sér skyldu sinni til að taka afstöðu til löggjafar. Þjóðaratkvæðagreiðsla væri yfirlýsing um uppgjöf Alþingis í að takast á við grundvallaratriði. Nú er málflutningnum snúið við og það er ekki lengur hlutverk þm. að taka afstöðu til frumvarpa heldur á þjóðin að taka afstöðu fyrst. Ég er hlynntur því í raun og veru að þjóðin fái að segja álit sitt í sem flestum málum. En ég var kosinn til að taka afstöðu til frv. og fel það skyldu mína gagnvart kjósendum.

Bjórmálið er áhugavert sem dæmisaga af störfum þingsins af fleiri orsökum. Bjórmálið er eitt af örfáum málum sem vekja þm. til vitundar um að við erum ein þjóð en ekki átta. Í fljótri svipan man ég ekki eftir mörgum öðrum málum nema ef vera skyldi fóstureyðingarmálum og útvarpslögum. Ég hef oft óskað þess á síðustu vikum að skoðanir manna á lýðræði væru eins skýrar og fastmótaðar og skoðanir manna á bindindi og drykkju. Það er undravert í raun og skemmtilegt að fylgjast með gangi mála hér á þingi þegar menn losna úr böndum flokksræðis og kjördæmaskiptingar og skipast hér í sveitir í afstöðu sinni allt eftir því hvað þeir telja þjóðarheill eða ekki. Fátt færir manni betur heim sanninn um að því fyrr sem landið verður eitt kjördæmi, því betra fyrir íslenska þjóð.

Lýðræði Íslendinga er ungt, lýðræði Íslendinga er gallað. Það er gallað vegna þess að við fórum öðruvísi að en flestar aðrar lýðræðisþjóðir. Við byltum ekki stjórnkerfinu við skiptinguna frá einræði til lýðræðis heldur skiptum við nánast bara um nafnið. Byltingin er enn eftir. Lýðræði okkar er gallað því að kosningar skita ekki vilja þjóðarinnar í athöfnum stjórnvalda, þ. e. ríkisstjórnir gera ekki það sem þjóðin segir þeim að gera í kosningum. Í stað þess að breyta þessu á þann veg að vilji þjóðarinnar komi skýrt fram hverju sinni sitja fulltrúar gamla flokkakerfisins núna við það að lagfæra kosningalög þannig, að atkvæði kjósenda í næstu kosningum skili þeim sömu skiptingu atkvæða milli flokka og kjördæma, sama valdahlutfalli eins og meðalföl kosninga síðustu 30 ára hafa skilað þessum flokkum. Í raun og veru er verið að móta reiknireglu sem tryggir að afkvæði hvers og eins og hugsanleg sinnaskipti hans hafi eins lítil áhrif á valdahlutföll milli flokka í dag eins og mögulegt er. Þetta makk fjórflokkanna er fjörbrot gjaldþrota stjórnkerfis. Lengra verður ekki gengið í að lítilsvirða kjósendur. Þetta er fjörbrot þess stjórnkerfis sem heldur enn dauðahaldi í hina föðurlegu ímynd stjórnmálamannsins frá fyrra stríði, sem hlustaði ekki á kvartanir barna sinna heldur sagði þeim hvað þeim væri fyrir bestu. Þessi tegund stjórnmála og stjórnmálamanna er útdauð hvort sem þeim sjálfum líkar betur eða verr. Við getum þrátt fyrir allt horft björtum augum til framtíðar þar sem stjórnmál ráðast af vilja fólks en ekki fárra einstaklinga. Því að stjórnmál eru endanlega of mikilvæg til þess að láta stjórnmálamenn eina um þau. — Góða nótt.