11.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6334 í B-deild Alþingistíðinda. (5745)

Almennar stjórnmálaumræður

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þorsteinn Pálsson flutti enn einu sinni sína gömlu ræðu. Hún getur hafa verið síðan í fyrra og alveg eins frá því í hitteðfyrra. Þorsteinn Pálsson er eins og kunnugt er sáróánægður með hlutskipti sitt undir þessari stjórn, en hann lætur ergelsi sitt í ljós með því að skamma Alþb. Þetta er kölluð Albaníuaðferðin eins og flestir þekkja. Þorsteini var ofarlega í huga flokkur í kreppu. Enginn flokkur hefur verið eins lengi í eins alvarlegri kreppu og Sjálfstfl. Þorsteinn Pálsson talaði einnig um minnkandi erlendar skuldir á sama tíma og þær hafa aldrei verið hærri. Það var dálítið fróðlegt að heyra að fyrrv. framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands hefði svo mikinn áhuga á bættum kaupmætti launafólks, en það gerir hann einmitt á þeim tíma þegar hann er lægri en nokkru sinni fyrr.

En þrátt fyrir þetta öfugmælahjal er blómlegt um að litast í sumarsólinni í Reykjavík. Borgarstjórinn kyssir fegurðardrottningar á milli þess sem hann tínir rusl og veiðir lax í Elliðaánum. Reykvíkingar eru byrjaðir að byggja fyrir milljarðinn sem settur var í húsnæðismálin á dögunum, en ekkert er byggt úti á landi. Hér í borginni er ekki hægt að opna augun svo að maður sjái ekki ný stórhýsi innflytjenda og þeirra sem selja. Lóðir nýju markaðanna eru ekki mældar í fermetrum, heldur hekturum. Þar er allt í lukkunnar velstandi.

Viðskrh. úr Hafnarfirði sagði í haust, þegar hann kastaði seinni vaxtasprengjunni um 5% í næstum alfrjálst peningakerfið, að með þeirri aðgerð væri hann að lækka vextina. Þetta var gert á þeim tíma sem þjóðarbúskapurinn og peningamálin þurftu mest á stöðugleika að halda. Eitt versta asnastrik í þessum efnum til lengri tíma og voru þau ærin fyrir. Gífurleg samkeppni hófst um sparifé eins og hlustendur kannast við úr auglýsingum um hvers kyns lukkureikninga sem hækkuðu vexti mjög mikið. Þjónustuaðilar þurftu ekki að hafa áhyggjur af því- og þríhækkuðum vöxtum. Þá vexti borguðu viðskiptavinirnir. En framleiðsluatvinnuvegirnir þoldu ekki afleiðingar óðaverðbólgu og vaxtaokrið, enda var frelsið ekki brúkað í þann endann, gengið var fast.

Afleiðingar þessarar stefnu hafa kostað sjávarútveginn 6000 millj. nú á tveimur árum, enda er svo komið að hvert fyrirtækið af öðru í þessari einu stóriðju Íslendinga er að fara á hausinn. Viðskrh. þarf ekki einu sinni að opna gluggann heima hjá sér til að sjá eitt slíkt og mörg verr á sig komin finnur hann í sínu eigin kjördæmi. Verði þessari frjálshyggjukreddu haldið til streitu verður allur sjávarútvegurinn í rúst að fáum árum liðnum. Gæsin sem verpti gulleggjunum mun liggja dauð.

Sjútvrh. horfir bara á þessa óheillaþróun í stað þess að taka myndarlega á við að hefja þann undirstöðuatvinnuveg sem honum hefur verið trúað fyrir til vegs á ný. Hann er uppgefinn, hann er lagstur í ferðalög og kannar nú ákaft sjávarútvegsmál allt frá Grænlandi um Kanada til Alaska. Áður en hann gafst upp hér heima og fór að leysa vandamálin úti í hinum stóra heimi greip hann til þess ágæta ráðs til að koma í veg fyrir afhroð fiskstofna í ár að banna trillum og áhugasömum mönnum um frístundaskak að renna færi nema dag og dag allt eftir nákvæmu kerfi. Á meðan verslunarráðsliðið og stuttbuxnadeild frjálshyggjumanna grefur undan undirstöðu sjávarútvegsins svo að hún riðar til falls fjasar ráðh. um smámuni sem engu máli skipta. Það er sannarlega aumkunarvert að sjá að sjútvrh. framsóknar skuli hafa gefist upp fyrir þessu liði sem staðið hefur að því að færa 6 milljarðana frá sjávarútveginum til þjónustu og verslunar, frá þeim sem við framleiðslustörfin strita. Kjartan Ólafsson þm. orðar þetta svo í alkunnri grein, með leyfi forseta:

„Þeir sem fyrir þessu standa vilja ekki að sjávarútvegurinn standi á eigin fótum, heldur að þar séu bónbjargamenn reyrðir á skuldaklafa. Þeir sem gert hafa hina fjölþjóðlegu frjálshyggju að sínum pólitísku trúarbrögðum telja að allt okkar basl við sjávarútveg og landbúnað séu aðeins leifar frá liðinni tíð. Þess vegna má eignamyndun aðeins verða í kringum verslunina, þjónustuna og allt viðskiptalífið, en sjávarútvegurinn á hins vegar að sitja uppi með skuldirnar og menn fá að róa svona fyrir náð. Þannig hyggjast postularnir færa sönnur á að trú þeirra á gullkálf fjölþjóðlegrar frjálshyggju sé líka sú eina rétta. Ekkert nema tap á tap ofan í sjávarútveginum, svo að ekki sé nú talað um landbúnað, meðan viðskiptalífið blómstrar.“ Svo mörg voru þau orð.

Það er greinilegt að útgerð og fiskvinnsla eru ekki á hægra brjóstinu á frjálshyggjuforustu Sjálfstfl. um þessar mundir og raunar furðulegt að nokkur launamaður í útgerð og fiskvinnslu skuli geta kosið höfuðandstæðing sinn, íhaldið, enda ósamrýmanleg þversögn. Hversu oft höfum við ekki heyrt þann söng að sjávarútvegurinn sé byrði á þjóðfélaginu? Hversu oft er ekki tönnlast á þeim ósannindum að sjávarútvegurinn geti ekki tekið við fleira fólki? Hinn augljósi sannleikur er sá, að enn er sjávarútvegurinn okkar eina arðbæra stóriðja sem næstum öll önnur starfsemi í þjóðarbúskapnum byggist á.

Um 3/4 alls útflutnings þjóðarinnar eru fiskafurðir. Útflutningstekjur af sjávarafurðum jukust um 75–80% á föstu verðlagi frá byrjun skuttogaratímans, frá 1970 til 1981. Þetta er ómaginn að mati braskaranna. En með aukinni vinnslu og skeleggri markaðssókn má auka verðmæti afurða sjávarútvegsins um gífurlegar upphæðir og bæta við fjölmörgum arðbærum störfum. Til þess að svo megi verða er lykilatriði að borga fólki í fiskvinnslunni miklu hærri laun og tryggja atvinnuöryggi þess. Hvað mundi starfslið Seðlabankans t. d., liðlega 100 manns, segja ef bankastjórar birtust einn daginn og sendu liðið burt án launa í viku eða nokkrar vikur eða mánuði, ef þeim þætti eitthvað dauflegt í stofnuninni, hvað þá ef það væri gert nokkrum sinnum á ári? Um það þarf ekki að spyrja. En við þetta þarf fiskvinnslufólkið að búa, fólkið sem skapar obbann af útflutningstekjum þjóðarinnar. Þetta er óhæfa. Afturhaldssamir fiskvinnslumenn segja að vinnslan geti ekki greitt hærri laun. En ég segi: Vinnslan hefur miklu síður efni á að borga svona lág laun því það þýðir það að vant fólk hverfur úr vinnslunni og sífellt nýtt og óvant fólk vinnur þessi störf. Raunar fer því fólki fækkandi sem vill vinna við fisk og er það að vonum.

Tveir ungir vel menntaðir menn í fiskvinnslufræðum hafa reiknað út framlegð úr einum togarafarmi annars vegar með óvant fólk við störf og hins vegar þaulvant. Útkoman var sú að í fyrra tilfellinu var framlegðin 40 þús. kr. en í hinu 1.4 millj. kr. Engin ein aðgerð er hagkvæmari fiskvinnslunni en sú að greiða hærri laun. Af því leiðir meiri afköst, betri nýtingu, meiri gæði og unnt að vinna í langtum dýrari pakkningar og ná langtum meiri tekjum fyrir afurðirnar.

Herra forseti. Fólk streymir nú sem aldrei fyrr frá landsbyggðinni til Reykjavíkursvæðisins. Frjálshyggjustefnan, sem nú er orðin kjarnaatriði í pólitík Framsfl., hrekur fólkið suður. Stjórnin hefur engin úrræði í þeim efnum. Sýndartillögur í byggðamálum, sem byggðar eru á þrískiptingu Framkvæmdastofnunar, eru engin lausn. Það er heldur engin lausn að reyna að dusta rykið af byggðastefnunni með nýjum og vitlausum frumvörpum. Eina lausnin fyrir landsbyggðarfólk er að treysta undirstöðuatvinnuvegina í landinu í stað þess að svelta þá. Með því einu getur byggðajafnvægi náðst. — Góða nótt.