12.06.1985
Efri deild: 96. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6346 í B-deild Alþingistíðinda. (5749)

236. mál, stálvölsunarverksmiðja

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls kom fram fsp. til mín um hvað mundi líða þeim ábyrgðum sem fallið hafa á Ríkisábyrgðasjóð á liðnum árum. Ég hef aflað þessara upplýsinga. Raunar eru þær líka birtar í ársskýrslum Seðlabanka Íslands.

Árið 1984 voru innleystar kröfur af Ríkisábyrgðasjóði upp á 248.1 millj., en endurgreiðslur voru 121.5, þannig að nettó féllu á sjóðinn 126.6 millj., en eins og menn vita heldur Ríkisábyrgðasjóður kröfunum auðvitað áfram á skuldarana þó að greiðslur falli á hann og reynir að innheimta það sem unnt er.

Árið 1983 voru innleystar kröfur af sjóðnum 193.1 millj., en endurgreiðslur 91.1, nettó 102 millj.

1982 eru innleystar kröfur 89.1 og endurgreiðslur 66.6 eða nettó 22.5 millj. kr.

Eins og ég gat um hefur mér ekki tekist að afla upplýsinga fyrir þetta ár. Það er ekki að fullu uppgert.