12.06.1985
Efri deild: 96. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6357 í B-deild Alþingistíðinda. (5758)

5. mál, útvarpslög

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég ætla að segja hér örfá orð og ekki að lengja umr. Það munu vera liðin um átta ár síðan fyrst var hreyft við því í formi frv. til laga að afnema bæri einkarétt Ríkisútvarpsins á útsendingum útvarps- og sjónvarpsefnis. Á sínum tíma fékk sú hugmynd frekar litlar undirtektir, en síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og skilningur manna á mikilvægi aukins frelsis á sviði fjölmiðlunar tekið miklum stakkaskiptum. Núverandi hæstv. menntmrh. hefur haft frumkvæði um að koma því frelsi í framkvæmd sem það frv. felur í sér sem hér er til afgreiðslu. Ég fagna því merka framtaki. Með samþykkt þessa frv. verður stigið mjög merkilegt, ég vil segja sögulegt, skref inn í hina svonefndu upplýsingaöld. Það mun ráða úrslitum í framfarasókn þjóðarinnar í menningar-, félags- og efnahagsmálum, svo nokkuð sé nefnt, hvernig Íslendingar hagnýta sér hið nýja frelsi á sviði fjölmiðlunar.

Ég efast ekki um að einstaklingarnir munu notfæra sér hina nýju möguleika sjálfum sér og þjóðinni til heilla. Það er í samræmi við fyrri viðbrögð Íslendinga þegar þeim hafa staðið til boða nýir möguleikar, ný tækifæri til átaka í þágu lands og þjóðar. Samþykkt þessa frv. sem laga frá Alþingi er tímamótaákvörðun, ákvörðun sem losar um fornaldarlegt fyrirkomulag þessara mála og gerir Íslendinga frjálsari. Ég treysti því að hv. Ed. sameinist um það að samþykkja frv.