12.06.1985
Efri deild: 96. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6357 í B-deild Alþingistíðinda. (5759)

5. mál, útvarpslög

Árni Johnsen:

Herra forseti. Það eru fjögur atriði sem ég ætla aðeins að víkja að í sambandi við þetta frv. Í fyrsta lagi hefur verið rætt um hvernig framtíðarþróun í sambandi við boðveitur og aðra tækni komi inn í slíkt frv. sem hér um ræðir. Ég tel að breytingar í þeim efnum eigi heima í fjarskiptalögum. Nú hefur nefnd, sem skipuð var til að semja drög að reglugerð um fjarskiptalögin, sem tóku í gildi 28. maí á síðasta ári, nýlega skilað áliti og það hefur komið fram í ræðu hjá hæstv. samgrh. að hann hyggst skipa nýja nefnd til að endurskoða þessi lög m. a. með tilliti til þess hvernig boðveitur geti komið inn og þá mögulega með því að t. d. sveitarfélög geti verið eignaraðilar í lengri eða skemmri tíma að slíkum boðveitum, jafnt ríkisvaldinu. Þetta vildi ég láta koma fram. Það er verið að vinna að þessu og það skiptir miklu máli.

Í menntmn. hv. deildar voru nokkur atriði sem má segja að hafi staðið sérstaklega út af í umræðum varðandi í fyrsta lagi auglýsingar, í öðru lagi íslenskan texta með erlendu efni í sjónvarpsstöðvum og svo árin þrjú sem reiknað er með að séu eins konar tilraunaár, þ. e. að lögin séu endurskoðuð og reynslan nýtt á þeim tíma til að kanna málið.

Það kom fram í hv. nefnd að ástæða væri til þess, eins og reyndar sjálfsagt er, að semja reglugerð um fyrirkomulag auglýsinga og það kom jafnframt fram þar hjá flestum nm. að ástæða væri til þess að slík reglugerð væri mjög í samræmi við þær reglur sem gilda um Ríkisútvarpið í dag. Ráðh. hefur lýst sig samþykkan þeim sjónarmiðum og sendi nefndinni drög að slíkri reglugerð sem staðfesta þetta.

Þá vil ég aðeins víkja að hugmynd að tillögu sem ég lagði fram í menntmn. um íslenskan texta í íslenskum sjónvarpsstöðvum sem væru þá að sýna erlent efni. Það kom fram í ræðu hv. þm. Eiðs Guðnasonar að honum líkaði vel sú till. sem hann gat um og vitnaði í og birtist í Morgunblaðinu. Það er ekkert undarlegt því að hann átti sjálfur hlut að máli við samningu þess texta. Því er ekki undarlegt þó að honum hafi líkað smíðin. Þar unnu menn saman að því að umorða og setja á blað texta sem gæti tryggt það sjónarmið sem kom fram um nauðsyn þess að setja reglur um textun.

Hæstv. menntmrh. hefur lýst sig samþykkan þeim texta sem varð til í menntmn. og hljóðar svo: „Erlendu sjónvarpsefni, sem sýnt er í íslenskum sjónvarpsstöðvum, skal jafnan fylgja íslenskt tal eða neðanmálstexti eftir því sem við á hverju sinni. Sé um að ræða beina útsendingu á erlendri tungu skal það vera meginregla að þulur kynni eða endursegi það sem um er fjallað nema bein ástæða sé til annars.“

Nú hefur hv. þm. Eiður Guðnason tekið þennan texta upp sem brtt., en ég tel ástæðulaust að flytja um það sérstaka brtt. því að þetta getur auðveldlega verið reglugerðarákvæði, enda hefur ráðh. lýst sig samþykkan því og á því að vera tryggt að þetta sjónarmið nm. er í höfn.

Varðandi endurskoðun á þessum lögum á þriggja ára tímabili, þá mætti óska eftir því að það verði nánar kveðið á um í nefndarskipun að gengið skuli eftir slíkri endurskoðun og hún framkvæmd á markvissan hátt, hvort sem það er með starfi útvarpsréttarnefndar eða í annarri nefnd sem gæti komið til greina í þeim efnum.