12.06.1985
Efri deild: 96. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6366 í B-deild Alþingistíðinda. (5762)

5. mál, útvarpslög

Frsm. 3. minni hl. (Haraldur Ólafsson):

Herra forseti. Ég vil áður en þessari umr. lýkur vekja athygli á nokkrum atriðum sem ég tel mikilvæg í sambandi við þetta frv. og afgreiðslu þess.

Í fyrsta lagi, eins og ég tók fram í ræðu minni í gær, tel ég að þetta sé frv. sem enginn er ánægður með í raun og veru. Þetta er frv. sem hefði þurft að vinna miklu betur og á annan hátt. Öll umræðan um það í vetur virðist hafa fjallað um allt annað en það meginatriði sem ég tel að hefði átt að vera ríkjandi í sambandi við frágang og endanlega niðurstöðu þessa frv. Mér virðist sem allt of mikil áhersla hafi verið lögð á að ræða um þetta sem málefni fyrirtækja. Það er verið að ræða um rekstrargrundvöll útvarpsstöðva o. s. frv. miklu fremur en að ræða um það hlutverk sem svokölluðum frjálsum stöðvum væri ættað.

Það er þannig að Ríkisútvarpið er hið raunverulega þjóðarútvarp og þrátt fyrir mikið tal um einokun og skort á frelsi efast ég um að önnur skipan útvarpsmála hafi veitt fleiri aðilum tækifæri til að koma skoðunum sínum og hugsunum á framfæri en Ríkisútvarpið og eins að vel hafi verið séð fyrir að greina frá í fréttum og umræðuþáttum öllum helstu hræringum þjóðlífsins. Ég held því að fjölgun útvarpsstöðva muni ekki verða til þess að auka tjáningarfrelsi, a. m. k. ekki að neinu ráði, og allra síst með því fyrirkomulagi sem mér virðist að mjög sterk öfl í samfélaginu, a. m. k. hávær öfl, hafi haldið fram.

Ég vil taka fram í sambandi við auglýsingar og ekki auglýsingar að þar er ekki spurning um frelsi eða ekki frelsi. Það er spurning um fjárhagsgrundvöll Ríkisútvarpsins. Það er sú ástæða og sú ástæða ein sem hefur ráðið afstöðu Framsfl. til þess máls. Við teljum að með þeim skyldum sem Ríkisútvarpinu eru lagðar á herðar verði að tryggja framgang þess með því að koma í veg fyrir að auglýsingatekjur þess skerðist að ráði. Ef svo fer að auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins skerðast verulega hlýtur að verða að koma til mjög mikilla fjárveitinga úr ríkissjóði til þess að Ríkisúfvarpið geti staðið við þær skyldur sem því bera að inna af hendi.

Í sambandi við önnur almenn atriði tel ég að tvennt, auk auglýsingamálsins, hefði átt að koma inn í þetta frv. Það er í fyrsta lagi í sambandi við boðveitur. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt atriði og kannske mikilvægasta atriðið ef við í einhverri alvöru erum að tala um að auka tjáningarfrelsi, auka möguleika þjóðarinnar, fólksins í landinu til að nýta þessa tækni. Það hlýtur að vera framtíðin og ég hefði talið að það ætti að koma nú þegar sú skipan að boðveitur væru í eigu hins opinbera sem síðan leigði þær út og gæfi þannig mörgum aðilum tækifæri til að ná til mjög margra. Þar sem með slíkum sendistöðvum er unnt að takmarka móttöku við þá sem hafa til þess sérstakan útbúnað, sérstök tæki, þá er í lófa lagið að taka afnotagjöld við slík skilyrði og þar af leiðandi ætti það að koma upp í kostnað við eða a. m. k. að vera verulegur styrkur við slíkar útsendingar.

Hitt atriðið sem ég vildi minnast á er að smástöðvarnar út um allt land eru verulega mikilvægar, og það má kannske segja að það sé í beinu framhaldi af þessu, mikilvægar til þess að veita mörgum aðilum tækifæri til að koma sínu efni eða sínum skoðunum á framfæri. Ég held að ákvæðin í frv. um að Ríkisútvarpið skuli efna til dagskrárgerðar og hafa aðstöðu til upptöku í öllum kjördæmum landsins sé að sínu leyti skylda sem er lögð Ríkisútvarpinu á herðar til þess að reka svæðisútvarp. Reynslan af starfseminni á Akureyri er með þeim hætti að það vekur vonir um að þar hafi Ríkisútvarpinu einmitt tekist að auka gífurlega starfsemi sína, auka hana á þann hátt sem ég tel æskilegan og raunar eftirbreytnisverðan. Ég tel að útvarpið eigi að ganga miklu lengra og auka þá starfsemi verulega. En til þess þarf fjármagn og það er einmitt það fjármagn sem við erum að reyna að standa vörð um með því að takmarka auglýsingaútvarp.

Þessi atriði vil ég að komi skýrt og greinilega fram. Ég tel einnig að hér hefði átt að standa að með þeim hætti að það væri tilraunastarfsemi til 3–4 ára og á grundvelli þeirra tilrauna ætti að setja ný útvarpslög.

Að öðru leyti ætla ég ekki að lengja þessa umr. Það er auðvitað fjölmargt sem hefði mátt ræða í þessu sambandi. Ég er ekki viss um að orðalag eins og að Ríkisútvarpið hafi haft einokun sé heppilegt. Í raun og veru hefur ekki verið um neina einokun að ræða. Það hefur verið um samstarf allrar þjóðarinnar að ræða um merkilegan fjölmiðil, merkilega menningarstofnun. Það mætti þá alveg eins tala um einokun skóla til að útskrifa fólk, einokun Háskólans til að útskrifa lögfræðinga, guðfræðinga o. s. frv., en það mundi væntanlega engum detta í hug. Það er einmitt þetta afriði sem ég held að skipti meginmáli, þ. e. að gera Ríkisútvarpið enn þá betra en það er, en veita jafnframt öðrum aðilum tækifæri til útvarpsstarfsemi án þess að það skaði Ríkisútvarpið.