12.06.1985
Efri deild: 96. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6371 í B-deild Alþingistíðinda. (5765)

5. mál, útvarpslög

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Í þessari brtt. eru m. a. ákvæði þar sem vikið er að sjónvarpsstöðvum sem senda efni um boðveitur í eigu sveitarfélaga þannig að með afstöðu sinni til þessarar till. eru menn líka að taka afstöðu til þess máls. Við höfum lýst því yfir áður, Alþfl.-menn, að við teljum þetta slíkt lykilatriði í öllu þessu máli að sú afstaða okkar að styðja auglýsingafrelsi í stöðvunum komi til endurskoðunar að þessu felldu. Boðveituákvæðin hafa það í för með sér að Íslendingum gæti orðið kleift að fylgjast með sjónvarpi frá erlendum gervihnöttum og dreifa því með eðlilegum hætti þannig að fólk gæti átt margra kosta völ. Það er ekki hægt eftir því frv. sem hér er verið að greiða atkv. um og það er ekki hægt eftir þeim reglum sem nú eru í gildi. Þess vegna er þetta tilraun til að koma heilbrigðri skynsemi inn í þetta frv. Það er of lítið af henni þar. Við höfum lýst því yfir að afstaða okkar til auglýsingafrelsisins skuli skoðast í ljósi þess hvernig atkvgr. fer um þetta mál. Ég segi já.