12.06.1985
Efri deild: 97. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6373 í B-deild Alþingistíðinda. (5771)

Um þingsköp

Eiður Guðnason:

Nú er nýlokið, herra forseti, 2. umr. um útvarpslagafrv. Síðan virðist, skv. þeirri dagskrá sem hér hefur verið dreift, vera ætlunin að 3. umr. um það mál fari fram hér strax í beinu framhaldi af 2. umr. Ég hef þegar óskað eftir því við forseta að 3. umr. um málið fari ekki fram fyrr en á morgun. Ég mun flytja nýjar brtt. við 3. umr. til að freista þess enn einu sinni að laga þó ekki væri nema einhverja af þeim agnúum sem eru á þessu frv. og þess vegna leyfi ég mér að ítreka þá ósk hér í umr. um þingsköp að 3. umr. um 5. mál Nd. fari ekki fram fyrr en á morgun, eins og raunar á að gera skv. réttum þingsköpum.