07.11.1984
Efri deild: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Á þskj. 137 flyt ég frv. til l. um heimild til handa ríkisstj. að selja Landssmiðjuna. Þetta mál átti sér þann aðdraganda að í febrúarmánuði s.l. fól ég Helga Þórðarsyni verkfræðingi að gera forkönnun á rekstri og rekstrargrundvelli Landssmiðjunnar. Markmið könnunarinnar var m.a. að auðvelda ákvörðun umfangs áframhaldandi úttektar á fyrirtækinu og aðstoða starfsmenn við að meta möguleika þeirra á að kaupa fyrirtækið, en þeirri hugmynd hafði ég hreyft á s.l. ári. Úttekt þessari, sem unnin var í samvinnu við stjórnendur og starfsmenn fyrirtækisins, var lokið í júní 1984. Helstu niðurstöður voru þessar:

1. Ekki er nauðsynlegt að ríkið eigi og reki fyrirtækið til þess að markmiðum þess verði náð.

2. Viðskipti Landssmiðjunnar eru dreifð á marga aðila og verkefni fjölbreytt. Viðskipti ríkisfyrirtækja voru 35% af heild árið 1983. Þáttur innflutningsverslunar var um 40% 1983. Aukning viðskipta frá þeirri lægð, sem verið hefur, er töluvert bundin velgengni í sjávarútvegi og auknum virkjanaframkvæmdum.

3. Verkefni framleiðsludeilda voru 1983 að framleitt var eftir reikningi 55%, tilboðsverk 38% og framleitt á lager 7%.

4. Um rekstursafkomu verksmiðjunnar árin 19811983 er það að segja að tekjuafgangur 1981 var tæpar 2 millj., tap 1982 rúmar 2 millj. og tap 1983 tæpar 4 millj. Stofn til verðbreytingafærslu myndast á lántökum vegna framkvæmda við Skútuvog 7 og því óviðkomandi rekstri Landssmiðjunnar þessi ár.

5. Orsaka hallans er að leita í versnandi ytri skilyrðum í málmiðnaði. Harðnandi samkeppni hefur leitt til naumari tilboða og halla á tilboðsverkum. Hugsanlega hefði mátt bregðast við með því að draga saman seglin.

6. Forsendur fjárfestingar að Skútuvogi 7 hafa brostið með því að horfið var frá áformum um skipaverkstöð við sundin.

7. Fela þyrfti rannsóknarstofnunum (fiskiðnaðarins eða Iðntæknistofnun) að leiða til lykta tilraunir með nýja gerð fiskimjölsverksmiðju, sem lengi hefur verið þar á stokkunum í tilraunaskyni.

8. Framlegðarstig einstakra deilda sýnir lakasta útkomu í plötusmiðju. Hún hefur enda hæst hlutfall tilboðsverka, eða 60%.

Í tengslum við úttekt þessa og samhliða endurskipulagningu á rekstrinum hófust óformlegar viðræður milli fulltrúa starfsmanna og iðnrh. um möguleika á sölu á fyrirtækinu til starfsmanna. Hinn 8. mars 1984 stofnuðu 52 af starfsmönnum Landssmiðjunnar félag til að kanna grundvöll að samkomulagi við iðnrn. um kaup á Landssmiðjunni, kanna rekstrargrundvöll hins nýja fyrirtækis og kynna félagsmönnum niðurstöður kannana. Þá var félaginu falið að undirbúa stofnsamning hlutafélags ef niðurstöður bentu til þess að af kaupum gæti orðið. Kaus þetta undirbúningsfélag sér fimm manna stjórn og var formaður þeirrar stjórnar Sigurður Daníelsson núv. framkvæmdastjóri Landssmiðjunnar.

Félag þetta fól stjórninni umboð sitt til viðræðna og samningsgerðar við iðnrn. varðandi kaup starfsmanna á Landssmiðunni með fyrirvara um samþykki félagsfundar. Með bréfi til iðnrh. dags 9. mars 1984 óskaði stjórn félagsins eftir viðræðum um kaup á fyrirtækinu. Með bréfi dags 15. mars 1984 skipaði iðnrh. eftirtalda þrjá menn í nefnd til að annast viðræður um sölu Landssmiðjunnar: Halldór J. Kristjánsson formann, deildarstjóra í iðnrn., og með honum Gunnlaug Claessen deildarstjóra í fjmrn. og Guðmund Malmquist hdl. í Framkvæmdastofnun ríkisins. Með nefndinni hefur Helgi G. Þórðarson verkfræðingur starfað. Nefndin hefur aflað upplýsinga um eignir Landssmiðjunnar og aðra þætti er varða söluverð fyrirtækisins, svo sem rekstrarhorfur, ástand véla og tækja, viðskiptavild og horfur í málmiðnaði almennt.

Nefndin átti allmarga fundi með ofangreindri viðræðunefnd félags starfsmanna og 13. júlí s.l. náðist samkomulag um meginþætti í kaupsamningi milli aðila. Þegar samningsgrundvöllur þessi lá fyrir ákváðu 23 starfsmenn Landssmiðjunnar að ganga til samstarfs í hlutafélagi, sem hlaut nafnið Landssmiðjan hf., með það fyrir augum að ganga til lokasamninga um kaup á Landssmiðjunni. Var við það miðað að yfirtaka á rekstrinum færi fram fyrir 1. janúar 1985.

Á fundi ofangreindra starfsmanna 25. júlí 1984 voru kosnir fimm menn í undirbúningsstjórn fyrir hið væntanlega hlutafélag og varð Sigurður Daníelsson áfram formaður þeirrar fimm manna stjórnar. Undirbúningsstjórn þessi og viðræðunefnd ríkisins áttu með sér nokkra fundi í ágústmánuði og var frá texta kaupsamningsins gengið á viðræðufundi 23. ágúst í ár.

Stofnfundur hlutafélagsins Landssmiðjunnar hf. var haldinn 13. sept. 1984 og voru stofnendur 23 starfsmenn Landssmiðjunnar. Hlutafé var ákveðið 4 020 000,00 kr. og skrifuðu stofnendur sig fyrir hlutum á bilinu frá 100 þús. kr. til 210 þús. kr. Í stjórn hins nýstofnaða hlutafélags voru eftirtaldir menn kosnir: Þorleifur Markússon formaður, Guðmundur Finnbjörnsson, Þórður G. Guðlaugsson, Finnbogi Jónsson og Sigurður Daníelsson, allt starfsmenn Landssmiðjunnar.

Kaupsamningur um Landssmiðjuna milli ríkisstjórnar Íslands og Landssmiðjunnar hf. var undirritaður með fyrirvara um samþykki ríkisstj. og Alþingis hinn 20. sept. 1984 og er kaupsamningurinn, ásamt fylgiskjölum, fylgiskjal með frv. þessu. Með frv. þessu er lagt til að ríkisstj. verði veitt heimild til að selja hinu nýstofnaða hlutafélagi ríkisfyrirtækið Landssmiðjuna.

Meginatriði kaupsamningsins eru:

a) Ríkissjóður selur hlutafélaginu Landssmiðjunni hf. ríkisfyrirtækið Landssmiðjuna í fullum rekstri með öllum vélum, tækjum og áhöldum. sem fyrirtækið á. ásamt rekstrarbirgðum, hlutabréfum í Tollvörugeymslunni hf. og viðskiptakröfum eins og þær verða þann 31. des. 1984 og er kaupverðið ákveðið 22 115 638,00 kr. Undanskilin sölunni eru hlutabréf Landssmiðjunnar í Iðnaðarbanka Íslands og Sameinuðum verktökum hf., tilraunafiskimjölsverksmiðja, sem unnið hefur verið að á vegum Landssmiðjunnar s.l. ár, og fasteignir Landssmiðjunnar.

b) Kaupverðið greiðist þannig að kaupverð véla, tækja og viðskiptavild greiðist með 20% útborgun, en eftirstöðvar eru lánaðar með verðtryggðum kjörum til átta ára. Viðskiptakröfur greiðast með yfirtöku viðskiptaskulda og andvirði vörubirgða greiðist með verðtryggðu skuldabréfi til fjögurra ára. Lán vegna kaupanna eru tryggð með fyrsta veðrétti í hinum seldu eignum.

c) Áskilið er af hálfu ríkisins að hlutafé í Landssmiðjunni verði eigi minna en kr. 4 millj. Þar sem hið nýja félag kaupir ekki fasteignir Landssmiðjunnar hefur seljandi skuldbundið sig til að veita kaupanda veðleyfi í núverandi fasteignum Landssmiðjunnar að fjárhæð 4 millj. kr. Slíkt veðleyfi verður aðeins veitt vegna efnis, tækja og vélakaupa, sem fasteignaveðs er krafist fyrir. og þá með baktryggingu í hinum keyptu vörum.

d) Seljandi skuldbindur sig til að leigja kaupanda núverandi fasteignir Landssmiðjunnar til allt að 15 ára. Leigusamningurinn er uppsegjanlegur af hálfu kaupanda með eins árs fyrirvara.

e) Seljandi skuldbindur sig til að beita sér fyrir því að erlendir aðilar, sem Landssmiðjan hefur umboð fyrir. veiti samþykki sitt fyrir því að umboðin verði yfirfærð til Landssmiðjunnar hf. Samþykki helstu erlendra viðskiptaaðila Landssmiðjunnar á yfirfærslu umboða til Landssmiðjunnar hf. liggur nú fyrir.

f) Seljandi mun beita sér fyrir því að núverandi verkefni Landssmiðjunnar fyrir ríkisfyrirtæki og stofnanir haldist óbreytt a.m.k. næstu þrjú ár, að því skilyrði uppfylltu að Landssmiðjan hf. verði samkeppnishæf bæði hvað varðar verð og gæði.

g) Miðað er við að yfirtaka starfsmanna á rekstrinum fari fram 1. jan. 1985.

Síðan er hér í grg. og aths. nánar vikið að greiðslukjörum og kaupverðinu, fasteignum Landssmiðjunnar og endurskipulagningu á rekstri Landssmiðjunnar. sem hv. þdm. geta kynnt sér. Þessu frv. fylgir kaupsamningur um Landssmiðjuna milli ríkisstj. Íslands og Landssmiðjunnar hf., sem dags. er 20. sept. 1984. ásamt fskj.

Nánar tiltekið vil ég taka fram að undanskilið sölu þessari á Landssmiðjunni eru. eins og ég gat um, hlutabréf Landssmiðjunnar í 1ðnaðarbanka Íslands og Sameinuðum verktökum hf., enn fremur fasteignir

Landssmiðjunnar, sem eru í fyrsta lagi fasteignin Skútuvogur 7, Reykjavík, í öðru lagi fasteignin Sölvhólsgata 13, Reykjavík og í þriðja lagi fasteignin Skúlagata 8. Reykjavík. Þá er undanskilin í sölunni tilraunafiskimjölsverksmiðja, sem unnið hefur verið að á vegum Landssmiðjunnar s.l. ár. Skuldir vegna fasteigna ríkisfyrirtækisins Landssmiðjunnar og tilraunafiskimjölsverksmiðju, sbr. 8. lið í ársreikningi Landssmiðjunnar 1983, eru Landssmiðjunni hf. óviðkomandi.

Síðan eru hér ýmsar upplýsingar varðandi fyrirtækið sjálft. En fskj., sem hv. þdm. geta kynnt sér, fylgja hér með, í fyrsta lagi stofnsamningur hlutafélagsins Landssmiðjunnar hf. frá 13. sept., í öðru lagi verðmat á vélum og tækjum Landssmiðjunnar, í þriðja lagi eru sameiginlegir minnispunktar um verðmat á vörubirgðum Landssmiðjunnar vegna sölu fyrirtækisins og í fjórða lagi er hér sem fskj. húsaleigusamningur milli ríkissjóðs og Landssmiðjunnar hf. um leigu á Sölvhólsgötu 13 og Skúlagötu 8, sem er dags. 20. sept. 1984, og er fyrirtækinu mjög mikilsverður.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þegar þessari umr. lýkur verði málinu vísað til 2. umr. og iðnn.