07.11.1984
Efri deild: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (579)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Með frv. því sem hér liggur fyrir er leitað heimildar fyrir ríkisstj. til að selja ríkisfyrirtækið Landssmiðjuna. Í aths. við frv. kemur fram að kaupsamningur milli ríkissjóðs og nýs hluthafafélags. Landssmiðjunnar hf., hafi verið undirritaður 20. sept. s.l. með fyrirvara um samþykki Alþingis. Að hlutafélaginu Landssmiðjan hf. standa 23 af 70 starfsmönnum fyrirtækisins. Umsamið kaupverð telst vera rúmar 22 millj. kr. þar af viðskiptakröfur um 10 millj. kr.

Í frv. felst sá þáttur stefnu núv. ríkisstj. að selja sem flest ríkisfyrirtæki. Til að ná fram þessu stefnumarki er greinilega lögð áhersla á að hafa sem hraðastar hendur — á kostnað vandaðs undirbúnings. Mér sýnist að í sambandi við þetta mál, sölu þessa ríkisfyrirtækis, Landssmiðjunnar, sem hér er rætt um, hafi menn ekki gefið sér nægan tíma til að spyrja og fá svar við hvort þessi sala fyrirtækisins sé hagkvæm fyrir núverandi eiganda, ríkið, og hvaða markmiðum hún þjóni.

Það kemur einnig fram að undirbúningur að þessari sölu er ekki slíkur að það sé raunverulega trúverðugt. Það kemur ekkert fram í frv. hvað skuli gera við ákveðnar eignir verksmiðjunnar eins og t.d. grunninn við skútuvog né heldur hvað skuli gera við tilraunaverksmiðju þá eða það þróunarverkefni sem Landssmiðjan var með í undirbúningi.

Upplýsingar sem koma fram í frv. um rekstur verksmiðjunnar stangast einnig nokkuð á við það sem kemur fram í skýrslu hæstv. iðnrh. sem hann lagði hér fyrir Alþingi um starfsemi ríkisfyrirtækja árið 1983. Í því plaggi er sagt að rekstur Landssmiðjunnar hafi gengið vel á árinu 1983 og hagnaður hafi orðið af starfsemi fyrirtækisins. Það er reyndar ekki fullkomlega borið á móti því í frv. en þar er þó sagt að tekjuafgangur hafi orðið mínus án verðbreytinga og aukafyrninga. Útskýringar hvors plaggsins um sig stangast því á.

Þetta mál kemur fyrir þá nefnd sem ég á sæti í. Ég mun því ekki við þessa umr. hafa um þetta langt mál og sé ekki ástæðu til þess, en tel ástæðu til að frv. verði skoðað vel. Eins og ég sagði hér fyrr lit ég svo á að þessu máli hafi verið hraðað meira en þörf hafi verið á og það þurfi rækilegrar skoðunar við og þá fyrst til þess að fá svar við þeirri spurningu hver var ástæða þess að ríkissjóður taldi sig þurfa að selja þetta fyrirtæki og hvaða markmiðum það þjónar öðru en einhverjum pólitískum markmiðum þeirrar ríkisstj. sem nú situr að losa sig við ríkisfyrirtæki. Sú stefna ríkisstj., hverrar sem er, að breyta eignarráðum í fyrirtækjum á stuttum valdaferli, er að mínu mati nokkuð vafasöm ef hún þjónar ekki einhverjum ákveðnum tilgangi öðrum.