15.10.1984
Efri deild: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

10. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki fara að efna til allsherjarumr. um þetta þó að ræða mín í upphafi hafi sennilega orðið til þess að kveikja þessa ágætu umr., enda er eins gott að við aðhöfumst hér eitthvað á meðan þeir tala í neðra um hin alvarlegri málefni. Vissulega er hér alvörumálefni á ferð, sem nú eru komin hér til umr., það er að segja um landbúnaðinn í heild sinni, sem hefur nokkuð verið hér til umr., en ég skal ekki fara út í þá umr., hún kemur seinna.

Ég ætla ekki heldur að fara út í mikla umr. við minn ágæta vin, hv. 11. landsk. þm., allra síst að fara að rifja upp framboðsfundina okkar eystra ásamt hv. 4. þm. Austurl,. sem hér er einnig til vitnisburðar um það hvernig þeir fóru fram, en ég væri alveg til í að rifja upp svo sem eins og einhver loforð og því um líkt úr þessum ræðustól og efndir, ef hv. 11. landsk. vill fara í keppni um það, því hann hefur haft góð tök á því að standa að efndum á einu og einu loforði a.m.k. Við skulum ekki fara út í það.

Ekki geri ég lítið úr þeirri viðkvæmni sem bar á hjá hv. 11. landsk. þm. út af þeirri stefnumörkunarnefnd um landbúnaðarmál sem ég starfaði í. Og vissulega var mikil ánægja að starfa í þeirri nefnd út af fyrir sig, m.a. vegna samstarfs við þá mörgu sem þar komu að verki. En ég geri mikinn mun á hvort ríkisstj. er að setja fram stefnumörkun í þingsályktun, sem þarf svo að framkvæmast með þeim hætti að breyta þarf ótal lögum svo hún geti komist í framkvæmd, eða hvort um beina lagaendurskoðun er að ræða þar sem fjallað er um öll hin þýðingarmestu mál sem t.d lögin um Framleiðsluráð landbúnaðarins eru, óneitanlega, varðandi bændastéttina og landbúnaðinn í heild. Hv. 11. landsk. þm. ítrekaði reyndar áðan að hér væri um mikinn stofn að lagasetningum fyrir landbúnaðinn í heild að ræða.

Ég ber þetta ekki saman, þó að ég segi að þessi stefnumörkunarnefnd hafi unnið ágætt starf sem nefnd til þess að gera till. til þál. um stefnumörkun af hálfu þeirrar ríkisstj. sem þá sat, því að nú eru menn að endurskoða heildarlöggjöfina sem mestu skiptir um landbúnaðinn í landinu. Ég tel að í slíkri lagaendurskoðun, hvort sem það er á vegum þessarar ríkisstj. eða annarra, eða á stórum og viðamiklum lagabálkum eigi fleiri að að koma en stjórnarsinnar einir. Í mjög veigamiklum atriðum hefur þessari reglu verið fylgt. Það eru hins vegar undantekningar nú ef það hefur verið gert. Ég man í svipinn ekki eftir nema einni nefnd, sem ég geri ekki lítið úr, sem hæstv. samgrh. skipaði á s.l. ári til að endurskoða flugmál okkar, þar sem hann valdi stjórnarandstæðing til setu í þeirri nefnd, en vel kann að vera að einhverjir ráðh. hafi einhvern tíma orðið þess varir að til var stjórnarandstaða sem gæti kannske m.a. lagt þeim lið í vandasömum málum varðandi lagasetningu. Ekki mundi af veita.

Það kom réttilega fram hjá hæstv. landbrh. að þeim markmiðum, sem minnt var á hérna að ná ætti í þjóðhagsáætlun yrði ekki náð nema að undangenginni ærinni vinnu. Ég segi þegar ég les þetta yfir, var ekki búinn að því áður, að það hljóta að vakna margar spurningar um bæði 1. og 2. töluliðinn; um það hvernig ná megi mjólkurframleiðslu og kjötframleiðslu niður með þeim hætti sem þar er greint frá. Það er spurning um byggð í landinu, spurning um það hvernig eigi að tryggja afkomu þess fólks sem er í sveitum nú þegar, hvort það eigi að beina því yfir á yfirfullan vinnumarkað í þéttbýlinu eða hvort útvega eigi því önnur atvinnutækifæri. Það er ekki fljótgert. Það hefur reynslan sýnt hvað sem líður góðum vilja varðandi aukabúgreinar og annað. Hér er ekki um neina fljótfærnisvinnu að ræða, síður en svo, og menn ná þessu ekki á stuttum tíma nema á verði veruleg byggðaröskun og veruleg röskun fyrir afkomu og kjör þess fólks sem í sveitunum býr.

Ég ætla ekki að fara út í efnisumr. um þetta mikla mál, en hæstv. landbrh. kom inn á nokkur þeirra atriða sem skipta verulegu máli, eins og t.d markaðsleitina. Það er rétt að markaðsleit hefur verið framkvæmd af ýmsum. Menn hafa farið út um lönd og athugað með markaði fyrir landbúnaðarafurðir okkar. Ég efast ekki um að þar hafi farið menn með góðum hug og viljað vinna virkilega vel, en ég man eftir því að hv. 4. þm. Austurl. benti á það í fyrra í framsöguræðu fyrir öðru þingmáli að það væri ekkert smávandaverk sem þeir menn tækju að sér sem leituðu markaða og þeir þyrftu að vera virkilega vel læsir á vinnubrögð og þá mikilvægu vinnu sem í þetta þyrfti að leggja. Ég efast um að við höfum komið þessu þannig á framfæri að það hefði getað dugað sem þurft hefði. Ég er þó ekkert að gera lítið úr þeim aðilum sem hafa verið að reyna þetta-ég vil segja: hafa stundum verið að baksa við þetta.

Síðan kemur hæstv. landbrh. að mótun framleiðslustefnunnar og segir að þar sé grunninn að finna með nýrri stjórnun, með nýjum stjórntækjum. Menn hafa þau nú þegar og vita að þau hafa ekki reynst á þann veg sem menn ætluðust til og vonuðust til að yrði. Ég held að áður en þau stjórntæki verða tekin í notkun þurfi svo sannarlega að mörgu að hyggja. Og ég veit að ekki mun hv. 11. landsk., þrátt fyrir hans orð áðan, verða meinsmaður þess í stjórnarliðinu að hæstv. landbrh. leiti til okkar stjórnarandstæðinga þegar verður farið að leggja þennan heildargrunn að framtíðarstefnu í landbúnaði með beinni og ótvíræðri lagasetningu — ekki tillögu um stefnumörkun, ekki þáltill., heldur beinni og ótvíræðri lagasetningu um framtíð þessa atvinnuvegar.